Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna, þann 8. mars síðastliðinn er valið alþjóðlegt þema í baráttunni fyrir jafnri stöðu kynjanna. Þetta árið var það samstaða kvenna og karla til að binda endi á ofbeldi gegn konum og stúlkum. Nú, þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum (CEDAW) er þrítugur, er við hæfi að hugsa um þá mismunun sem konur víða um heim sæta. Þegar rætt er um ofbeldi verður flestum hugsað til krepptra hnefa og marbletta, vopna og sára. En það er til annars konar ofbeldi, og það er það ofbeldi sem skapast þegar samfélagsleg formgerð hindrar einstaklinga í að þróa hæfileika sína og nýta. Þetta ofbeldi er ekki endilega sýnilegt, en byggist á því að einstaklingar eða hópar standa verr að vígi í samfélaginu vegna pólitískra, lagalega, efnahagslegra, eða menningarlegra hefða og þeim er haldið niðri af þessum ósýnilegu öflum, rétt eins og líkamlegu ofbeldi er beitt til að halda einstaklingi niðri í slagsmálum. Afleiðingar þess eru að þessir einstaklingar og hópar geta ekki tekið þátt í samfélaginu af sama krafti og þeir sem sterkar standa. Fyrir vikið heyrast ekki sjónarmið þeirra og niðurstöður miðast einungis við þarfir ráðandi hópa eða einstaklinga.
Ofangreindar hefðir eru eins og orðið gefur til að kynna langvarandi samfélagsleg viðmið. Fyrir vikið er það ofbeldi sem veikari hópar í samfélaginu sæta nær ósýnilegt þeim sem ekki finna það á eigin skinni, því það er svo samofið samfélagsgerðinni. Margir þeirra sem fyrir þessu ofbeldi verða trúa því jafnvel að það sé ekki ofbeldi af því þeir þekkja ekkert annað. Við erum eins og fiskarnir, sem taka ekki eftir því að þeir séu blautir. Við tökum mörg ekki eftir kynbundinni mismunun af því við erum vön því að sjá karla í valdastöðum við erum vön því að karlar hafi meiri áhrif og njóti meiri virðingar en konur.
Þetta tel ég vera það ofbeldi byggir á mismunun sem við þurfum að uppræta. Við þurfum að umbylta kynjakerfinu, brjóta niður kynföst kerfi karlaveldisins og skapa þannig jafnréttissamfélag sem býður ekki bara jafnan rétt, heldur jöfn tækifæri til að nýta hann og þannig jafna stöðu allra einstaklinga í samfélaginu. Við búum þó það vel hér á landi að hægt er að ræða þennan möguleika. Í nokkrum löndum hefur þetta verið gert með því að setja fram svokallað kvennaávarp eða kröfugerð kvennahreyfinga til stjórnmálamanna og flokka. Þetta er hugmynd sem ég tel að geti nýst vel hér.
Hugmyndin um kerfislægt ofbeldi var mótuð af norska friðarfræðingnum Johan Galtung fyrir um fjörutíu árum. Undir það flokkaði hann allar þær hindranir einkum pólitískar og efnahagslegar sem standa í vegi fyrir því að einstaklingar fái notið atgervis síns til fulls. Ójafn aðgangur að auðlindum eða björgum, á tungutaki gróðærisins ójafn aðgangur að pólitísku valdi, að menntun, heilbrigðisþjónustu og svo framvegis, eru dæmi um kerfislægt ofbeldi. Málefni sem snúa að auknu jafnrétti í samfélaginu og þar með útrýmingu kerfislægs ofbeldis hafa ekki komist á dagskrá nema fyrir atbeina kvenna. Til þess að byggja upp réttlátt samfélag þarf því að tryggja að konur komi að uppbyggingunni til jafns við karla. Aðeins þannig getum við reiknað með því að þörfum ólíkra hópa í samfélaginu verði mætt. Aðeins þannig má reikna með því að t.d. kynjuð hagstjórn verði innleidd á landinu en í henni felst í stuttu máli að skoða hvaða áhrif aðgerðir ríkisins hafa á bæði kynin og tryggja að hið opinbera sé ekki að mismuna kynjunum, meðvitað eða ómeðvitað, með fjárlögunum.
Við heyrum oft að jafnrétti kynjanna sé bara í fínum málum á Íslandi og vissulega sýna ýmsir staðlar að staðan er skárri hér en víða annars staðar. En er það nóg? World Economic Forum tekur árlega saman stöðu kynjanna víða um heim og birtir skýrslu um kynjabilið (e. Gender Gap) í ýmsum löndum. Ísland hefur verið á topp tíu listanum um nokkurt skeið og er í fjórða sæti í nýjustu skýrslunni, sem byggir á gögnum fyrir árið 2008.
Aðgengi og áhrif
Það vekur þó athygli þegar rýnt er nánar í gögnin, hvar Ísland er á listanum á hverju sviði og hvernig það stendur sig í ólíkum undirþáttum. Kerfið virkar þannig að skor upp á 1 er fullkomið jafnrétti, skor upp á núll þýðir fullkomið misrétti. Heildarskor Íslands er 0,80 en það setur landið í fjórða sæti. Í efnahagsþátttöku og tækifærum er Ísland í 20. sæti, með skor upp á 0,73. Í menntun er Ísland í 61. sæti, en með skor upp á 0,99, sem gefur til að kynna að tækifæri kynjanna til menntunar séu almennt mjög jöfn í heiminum. Á heilbrigðissviðinu er Ísland í 96. sæti en með skor upp á 0,97.
Síðasti þátturinn sem er mældur sýnir eflaust best stöðu kvenna í heiminum Ísland í 3. sæti þegar kemur að hlutdeild kvenna í stjórnmálum og pólitískri ákvarðanatöku, en skor þess er aðeins 0,50. Það þýðir að á þessu sviði á Ísland hvað lengst í land en er samt betur statt en nær öll önnur lönd í heiminum. Þetta er gott dæmi um kerfislægt ofbeldi fyrirkomulag sem mismunar konum beint og óbeint, hindrar þær í að njóta atgervis síns og skerðir getu þeirra til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt.
Konur eru almennt í lakari aðstöðu til að byggja sér pólitískt vald þar sem þær hafa verri aðgang að þeim félagslegu og efnahagslegu úrræðum sem til þess þarf. Reynsla margra landa sýnir að með því að beita kynjakvótum og setja hömlur á það fjármagn sem leggja má í kosningabaráttu er hægt að bæta gengi kvenna í stjórnmálum. Þannig geta konur notið atgervis síns á öllum sviðum og haft áhrif á samfélagið sem þær búa í með því að móta lög og reglur, vera fyrirmyndir og koma málefnum kvenna og barna á dagskrá. Einn þáttur í kynjaðri hagstjórn er til dæmis að tryggja að konur hafi jafnan aðgang að mótun fjárlaga en til þess þurfa þær að komast á þingið, þar sem fjárlögin eru sett.
Frá femínísku sjónarhorni er auðvitað ekki fullnægjandi að fjölga konum í stjórnmálum því þær eru ekkert endilega allar að berjast fyrir femínískum málefnum. Konur hafa vissulega ólíka hagsmuni, rétt eins og aðrir þjóðfélagshópar. Hitt er þó deginum ljósara, að fæstir karlar gera það. Það eru konur sem setja málefni kvenna og barna málefni framtíðarinnar á dagskrá. Karlar og stjórnmálaflokkar taka þessi málefni upp eftir á. Rétt eins og Kvennalistinn umbreytti orðræðunni á sínum tíma getur samstaða kvenna um að krefjast ávallt virðingar við kyn sitt breytt orðræðunni í dag. Með því má miða að því að umbreyta varanlega kynjatengslum til að tryggja að konur fái loks full réttindi í samfélaginu og losni þannig undan oki kerfislægs ofbeldis.
Skárra dugar ekki til
Í þriðja tölulið 21. greinar mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna stendur: Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Konur eru helmingur þjóðarinnar. Þær eru ólíkar í útliti og hafa ólíka sýn. Þær eiga það þó sameiginlegt að hafa aldrei notið fullra mannréttinda í samfélaginu. Hagsmunamál kvenna hafa ekki notið viðurkenningar, hafa ekki komist á dagskrá fjárlaga nema þegar konur hafa barist fyrir því. Ef konur geta sameinast á bak við þá grundvallarkröfu að lifa frjálsar frá ofbeldi, þá eiga þær möguleika á að breyta samfélaginu.
Nú er talað um sögulegt augnablik kvenna í stjórnmálum því kynin verða að koma saman að uppbyggingu samfélagsins á nýjan leik eftir hrun. Styðjum stjórnmálamenn sem bjóða fram á málefnum kvenna, styðjum við stjórnmál sem eru ábyrg gagnvart konum. Kerfislægt ofbeldi karlaveldisins hverfur ekki fyrr en konur eignast hlutdeild í valdinu og það á eigin forsendum. Lærum af reynslunni. Einsleitni í hópi valdhafa veit ekki á gott. Við megum ekki láta það vera rök fyrir því að slaka á í baráttunni fyrir jafnri stöðu að hér sé staðan skárri en annars staðar í heiminum. Látum þennan sögulega möguleika verða að raunveruleika en ekki bara í tölum heldur í innihaldi.