Eru kynjaskiptir skólar framtíðin?

Lilja S. Sigurðardóttir skrifar

Eru kynjaskiptir skólar framtíðin?

Á næsta ári verða tuttugu ár liðin frá því að Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, tók við stjórn á nýbyggðum leikskóla, Hjalla í Hafnarfirði. Margt var óvenjulegt í þeirri námskrá sem Margrét Pála lagði upp með fyrir leikskólann en kynjaskiptingin var þó það sem vakti mesta athygli. Nýjar hugmyndir eiga ekki alltaf upp á pallborðið, sérstaklega ekki ef þær ganga gegn tíðarandanum að einhverju leyti. Það tók Hjallastefnuna mörg ár að festa rætur í leikskólamenningu landsins, en undanfarin ár hefur stefnan einnig verið notuð í grunnskóla enda allar lausnir Hjallastefnunnar yfirfæranlegar á grunnskólastig. Nú síðustu ár hafa sjónir fólks í æ ríkari mæli beinst að lausnum Hjallastefnunnar, sérstaklega í ljósi stöðu drengja í skólum.
Kynin eru ólík

Hugmyndafræðilegur grundvöllur Hjallastefnunnar byggir á því að kynin séu ólík. Þessi viðurkenning á því að stelpur og strákar séu ekki eins, felur í sér að ólíkum vinnubrögðum þurfi að beita fyrir hvort kyn. Auk viðurkenningarinnar á því að kynin séu ólík byggir Hjallastefnan kynjaskiptingu sína á því að koma í veg fyrir tvo þætti sem viðgangast í hefðbundnu skólastarfi; beina mismunun vegna kyns og einokun á hefðbundnum kynhlutverkum.

Hin beina mismunun sem átt er við er sú misskipting námsgæða í skólum sem fjölmargar rannsóknir hafa staðfest og benda til þess að á Vesturlöndum fái stúlkur einungis um 25-30% af öllu því sem skólinn býður upp á; kennslu, tíma og athygli kennarans, aðstöðu í skólastofunni og rými á leiksvæðum. Með kynjaskiptu skólastarfi er grundvallar jafnrétti í skólastarfinu tryggt með því að hvort kyn á sína stofu, sitt leiksvæði og sinn kennara.

Einokun á hefðbundnum kynhlutverkum

Hinn meginþátturinn sem hugmyndafræði Hjallastefnunnar reynir að krækja fyrir er einokun kynjanna á hinum hefðbundnu kynhlutverkum. Hvort kyn um sig á hefðarhelgaða leiki, verkefni, hegðun, færni og tilfinningar og einokar það svið svo hitt kynið kemst aldrei að til þess að spreyta sig. Börn vita snemma hvað tilheyrir þeirra kyni og gæta þess flest að halda sig innan þess ramma í hegðun, leikjum, verkefnum, áhuga og getu.

Í leikskólastarfi birtist þessi einokun t.d. í því að strákar taka yfir aðstöðu til grófhreyfingar og hreyfileikja, en stelpur taka yfir aðstöðu til myndsköpunar og fínhreyfiþjálfunar. Á sama hátt eiga drengirnir forgangsrétt á frumkvæði og áræðni, en stúlkurnar eiga forgangsrétt á vináttu og samskiptum. Afleiðing þessa er að kynin æfa í sífellu sama hefðbundna kynhlutverkið og verða þar með stöðugt einhæfari í færni sinni og möguleikum.

Kynin spegla sig hvort í öðru og móta sjálfsmynd sína með því að hafna því sem hitt kynið hefur til að bera. Kynjaskiptingin minnkar þessa einokun kynjanna með því að fjarlægja „spegilinn“, því þegar drengirnir eru ekki til staðar neyðast stúlkurnar til þess að æfa frumkvæði sitt og áræðni og á sama hátt þurfa drengirnir að taka ábyrgð í samskiptum og vináttu þegar stúlkurnar eru ekki til staðar. Þannig hefur kynjaskiptingin ein og sér sjálfkrafa þær afleiðingar að víkka út hina hefðbundnu sjálfsmynd kynjanna.

Sérstök námskrá fyrir hvort kyn

Þó svo að kynjaskiptingin ein og sér geri ákveðna hluti er hún ekki nema helmingur þess sem telst jafnréttisuppeldi Hjallastefnunnar. Í raun er kynjaskiptingin grundvöllur og forsenda þess að hægt sé að nota viðeigandi kennsluhætti fyrir hvort kyn.

Kynjaskipting ein og sér dugar ekki heldur verður að vinna með annmarka hvorrar kynjamenningar um sig til þess að ná árangri. Þetta gerir Hjallastefnan með kynjanámskránni; einstaklingsþjálfun og félagsþjálfun, og bætir þannig við möguleika hvors kyns á að rækta hæfileika sína og áhugasvið án tillits til kyns. Þessi námskrá er ólík eftir því hvort kynið á í hlut; meginuppistaða drengjauppeldisins er félagsþjálfun og meginuppistaða stúlknauppeldisins er einstaklingsþjálfun. Bæði kyn fá þó auðvitað báðar tegundir þjálfunar þó í ólíkum skömmtum sé. Kynjanámskráin er uppbótarvinna sem snýst um „...að veita hvoru kyni sérstaka uppbót á sviðum sem þau hafa lítið þjálfað vegna kynferðis“ eins og segir í handbók Hjallastefnunnar.

Kynjaskipting með nýju sniði

Víða um lönd er gömul hefð fyrir kynjaskiptu skólastarfi og var það oftast nær sniðið til þess að ala börn upp í hinu hefðbundna gamaldags kynhlutverki. Síðustu ár hefur kynjaskipt skólastarf með öðru sniði fengið aukinn hljómgrunn á Vesturlöndum og er það hugsað í nýjum tilgangi þ.e. þeim að vinna með veikleika hvors kyns um sig og þá einkum til þess að bæta námsárangur drengja og styrkja sjálfsmynd stúlkna svo og til að reyna að sporna við kynbundnu námsvali á æðri stigum náms.

Sá grundvallarmunur er því á hefðbundnu kynjaskiptu starfi og Hjallastefnunni að þar sem hið fyrrnefnda ítrekaði og festi í sessi hefðbundin heftandi kynhlutverk leitast Hjallastefnan markvisst og meðvitað við að brjóta þau upp. Jafnréttisuppeldi Hjallastefnunnar hefur loks fengið verðskuldaðan sess í skólamálaumræðu enda rímar kynjanámskráin við flest það sem ferskast er á borðum í umræðu um stöðu kynjanna í skólastarfi.


Höfundur er starfsmaður leikskolinn.is. Lengri útgáfu af þessari grein má finna á síðu verkefnisins Jafnrétti í skólum.