Frá jaðri nær miðju: Á að veita þolendum kynferðisbrota hlutaðild að sakamálum?

Þeir sem hafa aðild að sakamálum er ríkið annars vegar og sakborningur hins vegar. Litið er svo á að refsiákvæði lúti fyrst og fremst að gæslu almannahagsmuna og að varsla þessara hagsmuna sé í höndum framkvæmdarvalds og dómsvalds. Því er ekki gert ráð fyrir að brotaþolar eigi hagsmuna að gæta í þessu sambandi. Það kemur brotaþolum kynferðisbrota oft óþægilega á óvart að þeir eru ekki aðilar að sakamálinu heldur hafa stöðu vitnis. Líkami þeirra og sálarlíf er í raun brotavettvangur og persóna þeirra vitni að brotinu. Þetta þýðir að ríkið hefur fáar skyldur gagnvart brotaþola í málinu og brotaþoli hefur lítinn rétt í ferlinu. Þessi aðildarskortur kemur í kjölfar brots þar sem sjálfsákvörðunarréttur þeirra er virtur að vettugi og verður því iðulega til þess að auka á tilfinningar um stjórnleysi, óvissu, óöryggi og kvíða. Í viðtölum mínum við brotaþola kynferðisbrota, vegna rannsóknar sem ég er að vinna, hafa komið upp nokkur atriði sem brenna á mörgum brotaþolum:
  • Það getur skipt brotaþola miklu máli að vita hvenær sakborningi er tilkynnt um að búið sé að kæra hann fyrir kynferðisbrot og hvenær hann er búinn að fara í skýrslutöku. Þetta getur skipt sköpum fyrir brotaþola sem í sumum tilfellum eru hræddir við sakborninga og óttast að þeir hefni sín. Stundum eru sakborningar hluti af umhverfi brotaþola og því nánast óbærilegt að vita ekki hvar málið er statt. Eins eru dæmi þess að sakborningar sendi brotaþolum skilaboð í gegnum sms eða samfélagsmiðla sem brotaþolar vita ekki hvernig beri að túlka þar sem þær vita ekki hvort honum hafi verið birt kæran. Þetta ýtir undir hræðslu og kvíða þar sem brotaþolar fara jafnvel ekki út úr húsi af ótta. Þessi skortur á upplýsingum og þar af leiðandi getuleysi til að meta eigin stöðu getur beinlínis unnið gegn bataferli brotaþola.  
  • Það getur bæði skipt brotaþola og rannsókn málsins miklu máli að brotaþoli fái að bregðast við framburði sakborninga. Í dag er það oft svo að brotaþolar hafa ekki hugmynd um framburð sakborninga í skýrslutöku og fá ekki tækifæri til að bregðast við framburðinum. Svo berst þeim bréf frá saksóknara um að málið hafi verið látið niður falla. Hér geta brotaþolar brunnið inni með upplýsingar sem gætu verið mikilvægar fyrir rannsókn málsins – upplýsingar sem þeir kannski gerðu sér ekki grein fyrir að væru mikilvægar – og upplifað sálarangist yfir að vita ekki hvað sakborningur hafði um málið að segja. Þess ber að geta að nú er hægt að áfrýja ákvörðun héraðssaksóknara um niðurfellingu til ríkissaksóknara sem er mikil réttarbót. En það þarf þó mikið til að opna málið aftur þrátt fyrir að nýjar upplýsingar liggi fyrir enda búið að tilkynna sakborningi um að málið gegn honum hafi verið látið niður falla. Eins geta brotaþolar beðið um að fá að sjá gögn málsins hjá saksóknara eftir niðurfellingu en það getur verið erfitt að hafa sig í það þegar niðurfellingin liggur fyrir og fólk er búið að missa vonina – ekki skyldi vanmeta hversu alvarleg áhrif niðurfellinging getur haft á líðan brotaþola og í sumum tilvikum heimsmynd þeirra. Æskilegra væri að tryggja að brotaþoli fái að bregðast við niðurstöðum lögreglurannsóknarinnar áður en tekin er afstaða til þess hvort að málið verði látið niður falla, bæði vegna rannsóknarhagsmuna og persónulegra hagsmuna brotaþola.
  • Réttargæslumenn eiga að gæta hagsmuna brotaþola og meðal annars miðla upplýsingum til þeirra en réttargæslumenn þurfa þá að vera síhringjandi í lögreglu til að spyrja um stöðu málsins sem getur legið mánuðum saman á borði lögreglu. Brotaþolum finnst oft erfitt að vera að þrábiðja réttargæslumenn um upplýsingar og getur óvissan valdið fólki miklum kvíða. Réttargæslumenn eru einnig mismunandi. Sumir líta á það sem skyldu sína gagnvart brotaþola að fylgja málinu vel eftir á meðan aðrir setja það ekki í forgang. Eðlilegast væri að lögreglu bæri skylda til að upplýsa brotaþola um gang málsins á vissum tímapunktum við rannsókn málsins.
  • Þegar kemur að meðferð málanna fyrir dómi þá eru brotaþolar einnig í jaðarstöðu. Þinghald í kynferðisbrotamálum er lokað og þar sem brotaþoli hefur stöðu vitnis situr hann ekki inni í réttarsal nema þegar hann gefur sinn framburð fyrir dómi. Hlutverk réttargæslumans brotaþola er takmarkað og einskorðast í raun við að leggja fram bótakröfu. Réttargæslumaður hefur ekki rétt til að spyrja sakborning og vitni spurninga. Brotaþoli hefur heldur ekki rétt til að ávarpa dóminn en það getur skipt suma máli að fá áheyrn hjá þeim sem sýsla með mikilsverða hagsmuni þeirra.
Í Finnlandi, Svíþjóð og nú síðast í Noregi hafa brotaþolar í alvarlegum sakamálum hlutaðild að málum. Þetta þýðir að ríki og dómstólar hafa skyldur gagnvart brotaþolum hvað varðar upplýsingagjöf og til að tryggja þeim möguleika á aukinni þátttöku í ferlinu. Ég fékk tækifæri til að fylgjast með þinghaldi í tveimur nauðgunarmálum við áfrýjunardómstólinn í Osló og þar nýttu brotaþolar rétt sinn til að sitja inni á meðan á réttarhöldunum stóð, hlýða á framburð sakbornings, og réttargæslumaður fékk tækifæri til að spyrja sakborning og vitni spurninga. Í viðtölum við dómara, saksóknara og réttargæslumenn kom fram að við það að gera brotaþola hlutaðila að málum hafi viðhorf lögreglu og réttarins gagnvart brotaþolum breyst. Brotaþolar voru ekki lengur ósýnilegir heldur fór að verða eðlilegra að taka tillit til þeirra við meðferð málanna.

Að gera brotaþola í kynferðisbrotum hlutaðila að málunum gæti skipt sköpum fyrir upplifun þeirra á réttarkerfinu. Í ljósi þess hve mörg kynferðisbrotamál eru felld niður bera margir brotaþolar afar takmarkað traust til réttarkerfisins. Að gera brotaþola hlutaðila að málum gæti verið liður í að auka traust brotaþola á réttarkerfinu sem jafnframt gæti unnið með, en ekki gegn, bata þeirra. Það hlýtur að teljast eðlilegt að brotaþolar fái aðild að ferli sem í raun varðar mikilsverða persónulega hagsmuni þeirra. Þótt hér hafi einungis verið fjallað um efnið út frá sjónarhóli þolenda kynferðisbrota þá geta mörg þessara atriða átt við um brotaþola í öðrum glæpum. Hér er því verið að leggja til, eins og gert hefur verið í mörgum nágrannalöndum okkar, að veita þolendum alvarlegra brota hlutaðild að sakamálum.

_______________________________

Þessi grein birtist áður í Stundinni þann 29.september 2016