Frá orðum til athafna

Auður Ingólfsdóttir skrifar

Frá orðum til athafna

Áhrif femínisma á umræður og aðgerðir sem snúa að konum, friði og öryggiFyrir liðlega áratug, þann 31. október árið 2000, samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun númer 1325 sem fjallar um konur, frið og öryggi.

Ályktunin var sú fyrsta sem ráðið samþykkti þar sem sérstaða kvenna á átakasvæðum var viðurkennd, sem og mikilvægi framlags þeirra til friðarumleitana (Utanríkisráðuneytið, 2008). Í þessari grein verða skoðuð tengsl milli femínískra kenninga, aðgerða femíniskra hreyfinga og opinbers jafnréttisstarfs eins og það birtist í tengslum við mótun, samþykkt og framkvæmd ályktunar 1325. Tvær spurningar verða reifaðar: Með hvaða hætti höfðu femínísk fræði og femínískar hreyfingar áhrif á það ferli sem leiddi til samþykktar öryggisráðsins á ályktuninni? Og - hefur ályktunin haft raunverulega þýðingu fyrir konur á átakasvæðum, og ef svo, með hvaða hætti?

Áhugi minn á efninu skýrist störfum mínum fyrir UNIFEM á Balkansskaga tímabilið 2007-2008. Þar sinnti ég m.a. verkefnum sem snúa að framfylgd ályktunar 1325 í samfélögum sem eru að byggja sig upp eftir átök. Í slíkri vinnu vakna eðlilega spurningar um að hve miklu leyti stefnumörkun skilar sér til þeirra sem hún er ætluð að hafa áhrif á, og hvort hún leiði til raunverulegra breytinga. Að sama skapi er einnig áhugavert að velta því fyrir sér með hvaða hætti nýjar hugmyndir um öryggi og ólík áhrif stríðsátaka á kynin hafa náð að festa sig svo vel í sessi í umræðu á alþjóðavettvangi að ein valdamesta stofnun Sameinuðu þjóðanna var tilbúin að setja málið á dagskrá.

Ef femínismi er skilgreindur sem hreyfing eða kenning sem styður baráttu kvenna fyrir jafnrétti þá má líta á skipulagt jafnréttisstarf á vegum opinberra aðila sem hið viðurkennda og stofnanabundna birtingarform þessarar baráttu (Þorgerður Einarsdóttir, 2004). En hver eru tengslin milli femíniskra kenninga og hreyfinga? Og hvernig tekst hinu skipulagða, stofnanavædda jafnréttisstarfi, að ná fram markmiðum femínismans um kynjajafnrétti?

Í þessari grein verður femínismi settur í samhengi við alþjóðasamskipti og skoðað hvernig femínískar kenningar hafa haft áhrif á alþjóðastjórnmál, og þá sérstaklega umræðu um öryggismál á alþjóðavettvangi. Skrif femínískra fræðinga var mikilvægt innlegg í umræðu um endurskilgreiningu á öryggishugtakinu, og má segja að sú endurskilgreining, sem og virk barátta kvennahreyfinga á alþjóðavettvangi, hafi skapað þann jarðveg sem ályktun 1325 spratt upp úr. Að sama skapi eru kvennahreyfingar mikilvægir gerendur þegar kemur að því að koma atriðum í ályktuninni í framkvæmd í staðbundnum aðstæðum. Dæmi frá Kosova sýna að þó ályktun 1325 veiti kvennahreyfingum mikilvægan lykil til að krefjast aðgangs að pólitískri umræðu og opinberum friðarferlum, þá er enn mikið verk óunnið að breyta hugarfari ríkjandi valdhafa. Á þetta ekki aðeins við um stjórnvöld viðkomandi ríkja, heldur einnig þá sem sitja við stjórnvölinn í alþjóðlegum stofnunum, þar með talið stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Öryggishugtakið

Alþjóðastjórnmál hafa í gegn um tíðina verið viðfangsefni karlmanna, hvort sem litið er til fræðaheimsins eða til þeirra sem fara með ákvarðantökuvald. Sérstaklega á þetta við um öryggismál og það sem snýr að átökum og hernaðarstarfsemi. Neikvæð áhrif átaka eru þó langt í frá bundin við karla. Þvert á móti má færa rök fyrir því að konur, vegna stöðu sinnar í samfélögum víða um heim, séu varnarlausari en karlar gagnvart neikvæðum áhrifum vopnaðra átaka. Sem dæmi má nefna að á meðan konur og börn eru að meðaltali um 73% íbúa, er þessi hópur um 80% flóttamanna í heiminum (Acharya, 2009). Þá er einnig ljóst að stríð hafa mismunandi áhrif á ólíka hópa, og er kyn þar ein breyta sem spilar stórt hlutverk. Í viðamikilli úttekt á stöðu kvenna í vopnuðum átökum og friðarferlum benda þær Rehn og Sierleaf t.d. á að þó að fleiri karlmenn séu drepnir í átökum upplifi konur oft annars konar ofbeldi, t.d nauðgun, þvingaða þungun eða að vera hneppt í þrældóm (2002). Öryggismál eru því málefni kvenna jafnt sem karla, þó konur hafi ekki verið áberandi í umræðu eða ákvarðanatöku í þessum málaflokki á alþjóðavettvangi. Þetta hefur þó verið að breytast síðustu tvo áratugina, þar sem bæði femínískir fræðimenn hafa látið til sín taka á þessu sviði, sem og baráttuhreyfingar kvenna sem hafa beitt sér t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Einn áhrifamesta femíniska fræðikonan innan aljóðasamskipta, Ann Tickner, telur það enga tilviljun að áhrifa femínisma hafi fyrst farið að gæta innan fræðigreinarinnar í lok áttunda áratugs síðustu aldar, á svipuðum tíma og Kalda stríðinu var að ljúka. Ríkjandi raunhyggjukenningar, þar sem höfuðáherslan var lögð á valdabaráttu ríkja, áttu undir högg að sækja og nýir málaflokkar komu fram á sjónarsviðið. Meira var litið til efnahagsþátta eins og fátæktar, átök innan landamæra einstakra ríkja fengu meiri athygli og farið var að kalla eftir víðari skilgreiningu á öryggi, þar sem ekki var aðeins horft til þjóðaröryggis einstakra ríkja gagnvart utanaðkomandi ógn, heldur einnig litið til öryggis einstaklinga og einstakra hópa. Þessar áherslur falla að mati Tickner mun betur að femíniskum nálgunum en hin þrönga sýn á alþjóðastjórnmál sem var í algleymingi á tímum Kalda stríðsins (Tickner, 2008).

Raunhyggjukenningar innan alþjóðasamskipta ganga í stuttu máli út frá því að alþjóðleg átök megi skýra sem valdabaráttu ríkja þar sem meginmarkmið hvers ríkis sé að vernda eigin hagsmuni og „lifa af“ (e. survive) í hinu alþjóðalega samfélagi. Vald er þannig lykilatriði í heimssýn þeirra sem aðhyllast raunhyggju, og valdið er oftast skilgreint út frá hernaðarmætti og getunni til að beita hervaldi til að ná fram markmiðum sínum. Friður ríkir aðeins ef næst valdajafnvægi milli ríkja. Á tímum Kalda stríðsins náðist t.d. ákveðið jafnvægi milli stórveldanna tveggja, sem kom í veg fyrir að annar hvor aðili tæki fyrsta skrefið í átt að ófriði. Hin friðsamlegu lok Kalda stríðsins komu hins vegar raunhyggjusinnum í opna skjöldu og kenningar þeirra náðu illa að skýra þá atburðarráð sem leiddi til falls Sovétríkjanna án þess að til hernaðarátaka kæmi (Schmidt & Dunne, 2008). Jarðvegurinn var því frjór fyrir nýjar hugmyndir og annars konar nálgun. Þetta pláss nýttu femínískar fræðikonur sér í hag.

Rétt eins og í öðrum fræðigreinum, er að finna fjölbreytilegar nálganir femíniskra fræðimanna innan alþjóðasamskipta. Flestir þeirra hafa þó verið gagnrýnir á hina hefðbundnu, ríkjamiðuðu raunhyggjunálgun og benda á að umræða um ríkisvaldið og öryggismál hafi verið mjög karllæg. Þannig byggi hugmyndin um sjálfstæði ríkja t.d. á mýtunni um hinn hugrakka stríðskappa (karlkyns) og konur eru útilokaðar frá umræðu um stríð, frið og öryggi (Nuruzzaman, 2006). Connell er á svipuðum nótum í umfjöllun um hugtakið „ríkjandi karlmennska“ (e. hegemonic masculinity), þar sem ríkið er tekið sem dæmi um karllæga stofnun. Ríkjandi karlmennska vísar í þær hugmyndir um karlmennsku sem eru ríkjandi í ákveðnu samfélagi á ákveðnum tímum og tryggja völd karla. Að mati Connell hafa viðmið ríkisins og hugmyndafræði þann tilgang að verja ákveðna hugmynd um karlmennsku (Connell, 1995).

Femínistar hafa lagt áherslu á öryggi einstaklingsins, fremur en eingöngu þjóðaröryggi, og þeir hafa einnig lagt áherslu á að horfa þurfi bæði á beint ofbeldi, en einnig svokallað kerfislægt ofbeldi, þegar skoðað er hvað helst ógni öryggi einstaklinga og hópa (Birna Þórarinsdóttir, 2009). Hugtakið „kerfislægt ofbeldi“ (e. structural violence) á rætur sínar að rekja til friðarfæða, oftast kennt við norska friðarfræðinginn Johan Galtung, sem kynnti hugtakið til leiks í grein sinni Violence, Peace and Peace Research. Hann segir hugtakið í raun tákna það sama og félagslegt réttlæti, og feli í sér þá mismunun sem einstaklingar af ákveðnum hópum verða fyrir vegna þess hvernig kerfi samfélagsins er uppbyggt (Galtun, 1969).

Þó femínistar hafi gagnrýnt öryggishugtakið, var sú gagnrýni framan af rödd í jaðri öryggisfræðanna. Í lok síðustu aldar fór hins vegar hugtakið „mannöryggi“ (e. human security) að verða meira áberandi og hefur nú skipað sér fastan sess sem mótvægi við þær kenningar sem leggja höfuðáherslu á ríki og þjóðaröryggi. Þó hugtakið sé yfirleitt rakið til Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP, 1994), og einstakra ríkisstjórna (m.a. ríkisstjórna Kanada og Noregs), er hægt að færa sterk rök fyrir því að femínismi hafi haft áhrif í þessu samhengi. Birna Þórarinsdóttir (2009) bendir á þrjú atriði sem snúa að aukinni þátttöku kvenna í alþjóðastjórnmálum sem hún telur að hafi ýtt undir að hugtakið mannöryggi náði að festa sig í sessi. Í fyrsta lagi hafi skrif femínisma um öryggismál átt þátt í því að skapa jarðveg fyrir hið nýja hugtak, í öðru lagi hafi barátta kvennahreyfinga á alþjóðavettvangi haft áhrif, en þessar hreyfingar hafa m.a. beint sjónum að ofbeldi gegn konum í vopnuðum átökum, og í þriðja lagi hafi það skipt máli fyrir framgang nýrrar hugmyndafræði að konum hafi fjölgað í áhrifastöðum innan opinbera geirans, bæði innan ríkja og innan alþjóðastofnanna.

Mannöryggi snýst um öryggi hópa og einstaklinga, fremur en að einblína á ríki og ríkisstjórnir. Umræða um öryggismál sem byggir á þessari nálgun er því betur til þess fallin að geta tekið tillit til þeirra fjölbreytilegu þátta sem geta ógnað mannlegri tilveru, og hvernig þessir þættir geta haft mismunandi áhrif á einstaklinga, allt eftir því hvaða hópi þeir tilheyra innan síns samfélags. Í þessu samhengi er því auðveldara að taka tillit til ólíkra þarfa karla og kvenna þegar kemur að öryggismálum.

Konur, friður og öryggi

Líta má á ályktun 1325 um konur, frið og öryggi, sem skilgetið afkvæmi hugmyndafræði um mannöryggi. Ályktunin var samþykkt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í október árið 2000. Í henni er lögð áhersla á að auka þátttöku kvenna í ákvarðanatöku og friðarferlum, að vernda konur og stúlkur á átakasvæðum og að samþætta kynjasjónarmið og jafnréttisfræðslu í allt friðargæslustarf á vegum ríkja og alþjóðastofnanna (Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, 2000). Ályktunin var ekki aðeins sigur fyrir kvennahreyfingar, heldur einnig frjáls félagasamtök almennt, þar sem þau áttu stóran hlut í að ályktunin var samþykkt. Hópur samtaka, sem störfuðu í samvinnu við UNIFEM, kvennasjóð Sameinuðu þjóðanna, spilaði stórt hlutverk í að koma málefninu á dagskrá öryggisráðsins og þrýsti á um að ríki heims samþykktu hana (Birna Þórarinsdóttir, 2009).

Ályktun 1325 bæði styrkir og er mikilvæg viðbót við Samning um afnám alls misréttis gegn konum (e. Convention to eliminate discrimination aginst women, eða CEDAW). Sá samningur er frá 1979 og leggur þjóðréttarlegar skuldbindingar á þau ríki sem hafa staðfest samninginn. Ályktun 1325 hnykkir á mikilvægi þess að gæta þurfi sérstaklega að rétti kvenna á átakasvæðum, og á við um öll ríki (líka þau sem hafa ekki skrifað undir samninginn frá 1979), sem og aðra gerendur í átökum (UNIFEM, án árs).

Ályktun 1325 hefur haft margvísleg áhrif. Hún hefur þjónað sem lykill fyrir konur á átakasvæðum til að nálgast þá sem fara með ákvörðunartökuvald, hún hefur leitt til meiri samvinnu fjölmargra kvenna- og friðarsamtaka við jafnréttisfulltrúa innan ráðuneyta í mörgum ríkjum og hún hefur aukið sýnileika þeirra stofnanna Sameinuðu þjóðanna sem sinna kynjajafnrétti, t.d. UNIFEM (þróunarsjóður) og UN-INSTRAW (rannsóknarstofnun). Innan Sameinuðu þjóðanna hefur ályktunin líka leitt til þess að meiri athygli er sett á mikilvægi þess að fjölga konum í hærri stöðum innan stofnanna S.þ. (Abugre, 2008). Hversu djúpstæð áhrif ályktunin hefur haft á stofnanir Sameinuðu þjóðanna, og einkum þær sem hafa með öryggismál að gera, er annað mál, og verður vikið nánar að síðar.

Öryggisráðið hefur fylgt ályktuninni eftir með árlegum umræðum um framkvæmd hennar, og nokkur aðildarríki hafa samþykkt sérstaka aðgerðaráætlun. Þá hefur á síðari árum verið hnykkt á ýmsum atriðum í nýjum ályktunum, s.s. ályktun 1820, frá árinu 2008, þar sem fjallað er sérstaklega um kynbundið ofbeldi á átakasvæðum (Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, 2008), og ályktunum 1888 og 1889, frá árinu 2009, sem kveða nákvæmar á um hvaða aðgerða S.þ. og aðildarríki skuldbindi sig að grípa til (Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, 2009).

Áhrif á átakasvæðum

Ræður og ályktanir á alþjóðavettvangi eru góðar og gildar, en hafa þær einhver áhrif til góðs á átakasvæðum heims? Í samantekt sem unnin var fyrir alþjóðlega ráðstefnu um konur á átakasvæðum kemur fram að þrátt fyrir að ályktun 1325 hafi haft margvísleg áhrif telji margir að meira hafi verið um orð en aðgerðir. Ekki séu t.d. merki um að dregið hafi úr kynferðislegu ofbeldi gegn konum og stúlkum á átakasvæðum, og gerendur séu sjaldan dregnir til saka. Þá eru fá merki um að að konum sé að fjölga umtalsvert sem leiðtogum í ríkisstjórnum, eða sem þátttakendum í formlegum friðarferlum (Abgrue, 2008). Sama tón má finna í ráðstefnuritum frá öðrum svipuðum samkomum (sjá t.d. Austrian Development Cooperatin, 2006). Almennt virðast flestir sammála um að ályktun 1325 sé gagnleg sem tæki til að koma málefnum kvenna á dagskrá í umræðum um alþjóðleg átök og friðarferli, kvennahreyfingar geti nýtt sér ályktunina til að beita ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir þrýstingi um að taka tillit til þeirra baráttumála en þegar kemur að raunverulegri hugarfarsbreytingu er róðurinn þyngri.

Reynsla kvennasamtaka í Kosova við að þrýsta á um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum og friðarferlum í kjölfar stríðsátaka við Serbíu árið 1999 er áhugaverð í þessu samhengi. Í mars 1999 hóf NATO loftárásir sem beindust gegn herafla Serbíu. Þessu fylgdu miklar hörmungar fyrir almenna íbúa, og um 800,000 Kosova Albanir flúðu til nágrannaríkja (Albaníu, Makedóníu og Svartfjallalands). Alger upplausn ríkti á svæðinu tímabilið mars til júní þetta ár, en Serbar drógu að lokum herlið sitt til baka frá Kosova. Í kjölfarið tók alþjóðasamfélagið tímabundið við stjórn svæðsins á meðan unnið yrði að framtíðarlausn Hin alþjóðalega yfirstjórn fékk umboð sitt frá ályktun Öryggisráðs S.þ. númer 1244, en sú ályktun veitir NATO heimild til að vera með herlið á svæðinu (Kosovo Forces of Reconstruction, eða KFOR), og kom á fót sérstakri stofnun, UNMIK (United Nations Mission in Kosovo), sem hafði pólitíska yfirstjórn á sínum herðum (International Crisis Group, 2010).

Strax árið 1999 voru kvennasamtök í Kosova virk í þeirri viðleitni að krefjast þátttöku kvenna í uppbyggingu samfélagsins eftir hin hörðu átök. Ályktun 1325 var samþykkt árið eftir, og í ljósi þess að yfirstjórn svæðisins var í höndum Sameinuðu þjóðanna hefði mátt ætla að leið kvenna að hinu pólitíska samningsborði yrði greiðari en ella. Þó þróunarstofnanir S.þ. styddu við baráttu kvennasamtakanna, sérstaklega UNIFEM, þá var á brattann að sækja þegar kom að samstarfi við valdamestu stofnunina, sem var UNMIK. Igaballe Rovova, framkvæmdastýra KWN, regnhlífarsamtaka kvennahreyfinga í Kosova, bar alþjóðlegum stofnunum ekki vel söguna á ráðstefnu í Austurríki árið 2006. Hún nefndi nokkur dæmi sem lýstu ekki aðeins vanvirðingu í garð kvennanna, heldur einnig algerri vanþekkingu á ályktun 1325 og því sem hún felur í sér. Eitt dæmið var frá desember 2002, þegar sendinefnd frá Öryggisráði S.þ. kom í heimsókn til Kosova:
 
Enn einu sinni gleymdi UNMIK að láta fulltrúa staðbundinna kvennasamtaka vita um heimsóknina, eða  bjóða þeim að hitta sendinefndina. Þegar við heyrðum um heimsóknina þrýstum við á um að fá fund. Okkur tókst að tryggja okkur fundartíma með nefndinni – eins og áður seint um kvöldið, eftir hefðbundinn fundartíma. Á fundinum byrjuðum við að ræða um pólitíska stöðu Kosova. Formaður sendinefndarinnar stoppaði okkur og sagði: „pólitísk staða er eitthvað fyrir stjórnmálaflokkana að ræða. Við skulum tala um málefni kvenna. Við getum t.d. rætt um ályktun 1325.“ Við urðum mjög móðgaðar og líka hissa á hinu augljósa þekkingarleysi formannsins á því, að í samræmi við ályktun 1325, þá ættum við að vera þátttakendur í samningaviðræðum um pólitíska stöðu Kosova.1
(Austrian Development Cooperation, 2006: 28)

Þekkingarleysi starfsfólks alþjóðastofnanna kom einnig skýrt fram í rannsókn sem Kosova Women´s Network (KWN) lét gera til að fylgjast með framkvæmt ályktunar 1325 í Kosova. Í skýrslu um rannsóknina kemur fram að sambandsleysi virtist algengt milli hinna alþjóðlegu starfsmanna í yfirstjórn UNMIK og kvennahreyfinga. Jafnvel þó á yfirborðinu virtist ríkja góður vilji til að eiga samráð og samræður við baráttusamtök kvenna, þá hafi tekið langan tíma að skapa skilning á aðstæðum kvenna og tryggja stuðning við réttindabaráttu þeirra. Í viðtölum við konur í kvennahreyfingum kom fram að þær töldu ríkjandi karlamenningu innan UNMIK draga úr hæfni stofnunarinnar til að tryggja aðkomu kvenna í ákvarðantöku. Sem dæmi hafa allir sjö yfirmenn UNMIK verið karlar, sem og næstráðendur. Einstaka millistjórnandi hafi verið kona, en almennt hafi stofnuninni verið stjórnað nær eingöngu af körlum. Mun meira kynjajafnvægi sé í þróunarstofnunum Sameinuðu þjóðanna sem eru með starfsemi í Kosova, t.d. Þróunarstofnun S.þ. (UNDP), Barnahjálp S.þ. (UNICEF), Mannfjöldasjóði S.þ. (UNFPA) og Kvennasjóði S.þ. (UNIFEM), en þessar stofnanir hafa ekki sambærilegt vald varðandi stjórnun Kosova og UNMIK hefur (Kosova Women´s Network, 2009).

Eins og þessi dæmi frá Kosova sýna, tryggja orð á blaði ekki hugarfarsbreytingu þeirra sem framfylgja eiga stefnunni, og enn síður tryggja þau raunverulega breytingu í lífi þeirra sem stefnunni er ætlað að þjóna. Ályktun 1325 breytir fáu, ein og sér. Hún virðist hins vegar hafa reynst gagnlegt tæki í staðbundnum aðstæðum á átakasvæðum, þar sem hópar sem berjast fyrir kynjajafnrétti hafa getað nýtt sér hana sem lykil til að krefjast aðgangs að opinberum stjórnmála- og friðarferlum.
-------------------------------------------------------------
1 Þýðing höfundar. Frumtexti: Once again, UNMIK failed to inform or invite local women to meet with the delegation. When Kosovar women became aware of the visit, we lobbied for a meeting. We succeeded in securing a meeting with the delegatin – once again, after hours. During the meeting, we began discussing issues related to Kosova´s final political status. The UN Ambassador interrupted, saying, „Status is an issue for political parties. Let´s talk about women´s issues. Let´s talk about Resolution 1325, for example.“ We were insulted and also surprised at the Ambassador´s obvious lack of knowledge that, in accordance with UNSCR 1325, we should be involved in negotiating Kosova´s final political status. 

Lokaorð

Orð eru til alls fyrst, og þó það geti tekið langan tíma fyrir hugmyndir sem er varpað fram innan fræðaheimsins að færast frá jaðrinum inn í almenna umræðu, þá er engu að síður hægt að greina breytingu á viðhorfum á alþjóðavettvangi varðandi málefni kvenna á átakasvæðum. Tveimur spurningum var varpað fram í byrjun þessarar ritgerðar: Með hvaða hætti höfðu femínísk fræði og femínískar hreyfingar áhrif á það ferli sem leiddi til samþykktar öryggisráðsins á ályktuninni? Og - hefur ályktunin haft raunverulega þýðingu fyrir konur á átakasvæðum, og ef svo, með hvaða hætti?

Þessar spurningar eru of umfangsmiklar til að hægt sé að gera þeim viðeigandi skil í stuttri grein, en umfjöllunin gefur þó vonandi einhverjar vísbendingar. Færð hafa verið rök fyrir því að bæði femínísk fræði og hreyfingar hafi umtalsverð áhrif á þá umræðu á alþjóðavettvangi sem hefur snúið að endurskilgreiningu á öryggishugtakinu. Áherslan hefur færst frá ríkinu sem grunneiningu yfir á þá nálgun að taka verði tillit til öryggis einstaklinga og hvernig áhrif vopnaðra átaka geti haft mismunandi áhrif á ólíka hópa innan hvers samfélags. Þessa breytta nálgun var mikilvægur grunnur sem hægt var að byggja á þegar kvennahreyfingar tóku höndum saman við aðra baráttuhópa og unnu að því að koma málefnum sem snúa að konum, frið og öryggi á dagskrá Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Síðari spurningin er enn umfangsmeiri og hér því einungis tekin dæmi sem gefa vísbendingar um styrkleika og veikleika við framkvæmd ályktunarinnar. Almennt virðast ályktun 1325 hafa nýst vel sem lykill til að koma umræðu af stað, bæði á alþjóðavettvangi og í staðbundnum aðstæðum. Kvennahópar sem hafa barist fyrir aukinni þátttöku kvenna í pólitískri ákvarðanatöku og friðarferlum vísa óspart í ályktun 1325 máli sínu til stuðnings og nýta sér þannig ályktunina til að krefjast athygli fyrir málefnið. Oft virðist þó að umræðunni fylgi ekki aðgerðir. Eins og dæmin frá Kosova sýna er enn langt í land að þeir sem sitja við valdastóla séu nægjanlega meðvitaðir um hvað felst í ályktun 1325 til að raunveruleg hugarfarsbreyting hafi átt sér stað.


Heimildarskrá

Abgrue, Charles (2008). Reviewing the implementation of UNSCR1325 and UNR1820: What will it take?
Grein lögð fram á ráðstefnunni: “Women in the Land of Conflict” í Oslo, 23-25 November 2008.
Náð í þann 15. Apríl 2010: http://www.1325forward.no/484/Review_of_implementation_of_1325_and_1820_FINAL.pdf

Acharya, Amitav (2009). „Human security“ í Baylis, Smith & Owens (ritstj.) The Globalization of World
Politics. (bls. 490-505). Oxford: University Press

Austrian Development Cooperation (2006). Building Peace – Empowering Women. Gender Strategies
to make UN Security Council Resolutioin 1325 work. Vienna: Austrian Development Agency.

Birna Þórarinsdóttir. (2009). “Women and Human Security. How Women Helped bring About the Human
Security Agenda” í Halldór Sig. Guðmundsson and Silja Bára Ómarsdóttir (ritstj.)
Rannsóknir í félagsvísindum X. Félagsráðgjafadeild og stjórnmálafræðideild (bls. 193-205). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Connell, R.W. (1995). Masculinities. England: Polity Press.

Galtun, Johan (1969). “Violence, Peace, and Peace Research”.
Journal of Peace Research, Vol. 6, No. 3, bls. 167-191 

International Crisis Group (2019). Conflict History: Kosovo. Efni á heimasíðu, náð í 16. Apríl 2010: http://www.crisisgroup.org/home/index.cfm?action=conflict_search&l=1&t=1&c_country=58

Kosova Women´s Network (2009). Monitoring Implementation of United Nations Security
Council Resolution 1325 in Kosova. Second edition. Prishtina: KWN

Nuruzzaman, Mohammed (2006). “Paradigms in Conflict. The Contested Claims of Human Security,
Critical Theory and Feminism”. Cooperation and Conflict: Journal of the Nordic International Studies
Association. Vol. 41 (3), bls. 285-303

Rehn & Sirleaf (2002). Women, War, Peace. The Independent Experts´Assessment.
New York: UNIFEM

Schmidt, Brian & Dunne, Tim (2008). „Realism“ í Baylis, Smith & Owens (ritstj.)
The Globalization of World Politics. (bls. 262-277). Oxford: University Press

Tickner, Ann (2009). „Gender in world politics“ í Baylis, Smith & Owens (ritstj.)
The Globalization of World Politics. (bls. 262-277). Oxford: University Press

UNDP. (2004). Human development Report 1994: New Dimensions of Human Security.
New York: UNDP.

UNIFEM (án árs). Women, Peace and Security. CEDAW and Security Council Resolution 1325:
A Quick Guide. New York: UNIFEM

Utanríkisráðuneytið (2008). Konur, friður og öryggi: Áætlun íslands um framkvæmd ályktunar
öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 frá árinu 2000. Reykjavík: Utanríkisráðuneytið.

Þorgerður Einarsdóttir (2004). „Hið vísindalega er pólitískt. Femínismi sem fræðikenning andófs
og breytinga“ í Íslensk félagsfræði. Landnám alþjóðlegrar fræðigreinar
(ritstj. Þóroddur Barnason og Helgi Gunnlaugsson), bls. 2000-225. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna (2000). Resolution 1325 (2000) on women and peace and security.
Náð í þann 15. Apríl 2010: http://www.un.org/Docs/scres/2000/sc2000.htm

_____. (2008). Resolution 1820 (2008) on women and peace and security. Náð í þann 15. Apríl 2010: http://www.un.org/Docs/sc/unsc_resolutions08.htm

_____. (2000). Resolutions 1888 and 1889 (2009) on women and peace and security.
Náð í þann 15. Apríl 2010: http://www.un.org/Docs/sc/unsc_resolutions09.htm