Á þessu ári eru 20 ár liðin frá fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Kína árið 1995. Jafnframt taka gildi ný þróunarmarkmið SÞ þar sem horft verður til mikilvægra mála næstu ára þar með talið kynjajafnréttis.Mikill áhugi var meðal Evrópuríkja á að koma inn skýru markmiði um kynjajafnrétti inn í nýju markmiðin og tókst það en síðan er að sjá hver eftirfylgnin verður. Fyrr á þessu ári boðaði Evrópusambandið til stórrar ráðstefnu um framtíð kynjajafnréttis í þeim tilgangi að senda skýr skilaboð til framkvæmdastjórnar EU sem og ríkisstjórna, aðila vinnumarkaðarins, félagasamtaka og annarra þjóða heims. Það skal tekið fram að ráðstefnan var haldin í skugga frétta af þungum flóttamannastraumi til Evrópu en hann átti heftir að þyngjast verulega og verða að aðalmálefni evrópskrar stjórnmálaumræðu.
Ráðstefnan hófst á ávarpi Veru Jourová sem nú er kommisar yfir dóms-, neytenda- og jafnréttismálum innan EU. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að þróa Evrópu þar sem konur þyrftu ekki að velja á milli barna og atvinnu en það er raunin víða í Evrópu. Það þýðir að ekki er verið að nýta mannauðinn sem skyldi og margar konur velja að eignast ekki börn þar sem alla félagslega þjónustu skortir eða þá að hún er allt of dýr. Jourová vék næst að ofbeldi en á síðasta ári var kynnt mjög stór könnun á ofbeldi gegn konum í 28 ríkjum EU. Um 33% kvenna hafa upplifað ofbeldi í nánum samböndum og 55% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni samkvæmt þessari könnun. Jourová hvatti þátttakendur til að beina sjónum að þeim þáttum sem Evrópusambandið getur haft áhrif á og hún bað um skýr skilaboð um hvernig Evrópa kynjajafnréttis ætti að líta út.
Ábyrgð Evrópu gagnvart heiminum öllum
Næst fluttu fimm einstaklingar stutt erindi þar sem þeir lýstu hugmyndum sínum um framtíðina. Assita Kanko sem ólst upp í Burkina Faso en býr nú í Belgíu ímyndaði sér að komið væri árið 2054 og að hún væri að segja barnabarninu sínu frá því hvernig ástandið var árið 2015. Hún vildi sjá heim án ofbeldis, án limlestinga á kynfærum stúlkubarna, heim þar sem konur hefðu jöfn tækifæri og karlar til að velja sér líf og starf, nytu frelsis og að það skipti ekki máli hvort þú værir kona eða karl. Gary Barker frá samtökunum Promundo ræddi um karla og jafnrétti. Hann sagði að það væri mikilvægt að skilgreina forréttindi karla og að karlar viðurkenndu þau og gæfu eftir. Það þarf að sannfæra karla um að þeir græði á auknu jafnrétti kynjanna. Hann sagði brýnt að finna leiðir til að auka hlut karla í umönnunarstörfum og að leggja áherslu á forvarnir í ofbeldismálum. Drengir sem alast upp við ofbeldi eru líklegri til að beita því en aðrir drengir. Þarna verða skólarnir að koma inn og skera upp herör gegn ofbeldismenningunni. Heilsa karla var honum hugleikin en uppeldi þeirra og umhverfi hefði mikil áhrif á heilsufarið (áhættuhegðun o.fl.). Hann sagði að í Írlandi væri í gangi sérstakt átak til að bæta heilsu karla. Pumzile framkvæmdastýra UN Women var með skilaboð í gegnum netið til ráðstefnugesta. Hún lagði áherslu á ábyrgð Evrópu við að vinna að jafnrétti kynjanna og að vera þar í fararbroddi. Hún nefndi sérstaklega kynjaða fjárlaga- og hagsýslugerð sem skipti miklu máli og svo að þróa mælikvarða/mælitæki til að vega, meta og skoða hvernig miðaði. Ég læt þetta nægja af því sem frummælendurnir fimm sögðu.
Eftir þetta voru þátttakendur beðnir að ræða saman tveir til þrír og setja fram hugmynd um hvaða málefni væru mikilvægust til að ná fram kynjajafnrétti. Sænskar konur sátu í kringum mig og við komum okkur saman um að segja: „Að hafa sama/jöfn vald/völd yfir lífi sínu og samfélagi og deila valdinu jafnt í samfélagi án ofbeldis“. Hugmyndunum var safnað saman og urðu veganesti í umræðu sem hélt áfram í vinnuhópum. Alls störfuðu 10 vinnustofur eftir hádegi um 1) kynjajafnrétti á vinnumarkaði, 2) fátækt og félagslega útskúfun (e. social exclusion), 3) samræmingu fjölskyldu og atvinnu, 4) ofbeldi gegn konum, 5) kynjahlutverk og staðalmyndir, 6) kyn í stafrænum heimi, 7) kynjajafnvægi í ákvarðanatöku og valdastöðum, 8) kyn og þróunarsamvinna, 9) kyn og heilsu og loks 10) stjórnsýslu og samvinnu hagsmunaaðila.
Kynjakvótar skila árangri
Ég fór í hóp um jafna aðkomu kynjanna að ákvarðanatöku, völd og stefnumótun (e. decision making). Umræðan byrjaði á stuttu innleggi frá ungri þingkonu frá Möltu en í því strangkaþólska ríki eiga konur vægast sagt erfitt uppdráttar. Malta er nr. 102 á lista alþjóða þingmannasambandsins yfir hlut kvenna á þjóðþingum og nr. 99 á lista World Economic Forum yfir kynjabil. Konur eru 12,9% þingmanna eða 9 konur alls. Hún lýsti því hve mikilvægt væri að styðja konur við að bjóða sig fram, þær þyrftu að sjá fyrirmyndir og það þyrfti að breyta hegðun kjósenda til að þeir kysu konur. Það þyrfti líka að ýta undir konur að kjósa. Það virðist vera vaxandi tilhneiging meðal kvenna að sitja heima, líkt og við sáum hér á landi í síðustu sveitarstjórnarkosningum og er mikið áhyggjuefni. Þetta vekur margar spurningar um stjórnmálin, vitund um mikilvægi kosningaréttarins, lýðræðisskilning og söguþekkingu á tímum þegar við minnumst 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Þessi ágæta þingkona þurfti svo að þjóta heim til Möltu þar sem allt var á hvolfi í Evrópu þessa daga út af straumi bátaflóttamanna og hræðilegra slysa á Miðjarðarhafi. Enn var skipt niður í minni hópa en heildarniðurstöður hópsins voru þær að mikilvægt væri að endurskoða ríkjandi valdakerfi, stjórnmálamenningu og kosningakerfin. Í mínum hópi vorum við sammála um að kvótar skiluðu miklum árangri.
Dagurinn endaði á því að hóparnir gerðu grein fyrir helstu niðurstöðum og mátti hver hópur aðeins nefna þrjú atriði. Allt var skrifað niður á gula miða sem voru svo flokkaðir eftir efnum. Næsta dag hófst svo vinna í nýjum hópum, fyrst stórum en svo var þeim deilt niður í þrjá til fjóra þátttakendur. Nú var umræða um hvern málaflokk og svo ákveðnar tillögur um aðgerðir til að ná settum markmiðum eða glíma við vandann. Umræðuefnin urðu mjög mörg og tillögurnar frekar opnar. Það hefði þurft meiri tíma til að gera þær nákvæmari.
Viðfangsefni næstu ára
Til að gera langa sögu stutta kom fram áhersla á eftirfarandi efni:
-Þörf er á mun öflugri stefnumótun með markmiðum og mælitækjum,
-grundvallarsamþykktir EU verði miklu skýrari hvað varðar jafnrétti kynjanna, kynjagleraugun væru alltaf á nefinu allsstaðar og kynjasamþætting í heiðri höfð (þar er mikill misbrestur á),
-stórbæta stöðu jafnréttisstofnana,
-varðandi stefnu EU 2020 verði kynjasamþættingu beitt alls staðar,
-kröfur verði gerðar um kynjajafnvægi (e. gender balance),
-kynjaðri hagstjórn verði beitt á mun markvissari hátt,
-stórauka þekkingu og þjálfun starfsfólks innan stofnana EU um kynjajafnrétti,
-bæta eftirlit innan EU,
-stórbæta söfnun upplýsinga og úrvinnslu kyngreindra talna,
-semja leiðbeiningar (e. guidelines) um hvernig á að koma á kynjajafnrétti á sem flestum sviðum,
-búa til ýmis konar jafnréttisviðurkenningar,
-auka samvinnu við félagasamtök,
-áhersla lögð á að kynna árangursríkar aðgerðir og dæmi um aukið jafnrétti,
-ungt fólk verði hvatt til að nýta réttindi sín jafnframt því að leggja áherslu á að sýna öðrum (og ólíkum) hópum virðingu,
-sveigjanlegum vinnutíma verði komið á,
-breyta karllægri fyrirtækjamenningu þannig að hún virði konur og henti þeim,
-komið verði á kynjakvótum innan fyrirtækja,
-ýta undir jafnréttisaðgerðir innan fyrirtækja,
-styrkja og kynna jákvæðar fyrirmyndir,
-gripið verði til aðgerða til að draga úr atvinnuleysi meðal ungra kvenna með markvissri ráðgjöf,
-styðja og styrkja frumkvöðlastarfsemi kvenna,
-vinna gegn staðalmyndum og hefðbundnu náms- og starfsvali,
-miklu meiri áhersla verði lögð á jafnréttisuppeldi, jafnréttisfræðslu í skólum og kynjafræðimenntun kennara,
-auka þekkingu á stöðu og menningu kynjanna,
-efna til herferða til að vekja karlmenn til vitundar um jafnrétti kynjanna og ávinning þeirra af því,
-koma á foreldraorlofi (fyrir feður í samræmi við tilskipun sem liggur fyrir en næst ekki í gegn),
-ýta undir jákvæðar (rótækar) fyrirmyndir fyrir karla,
-hvetja karla til þátttöku í fjölskyldulífi og fæðingarorlofi,
-standa vörð um mæðraorlof,
-brúa lífeyrisbilið milli kynjanna,
-leggja áherslu á vernd viðkvæmra hópa og gera fólki kleift að leita réttar síns á grundvelli margfaldrar mismununar,
-skoða sérstaklega og styrkja stöðu innflytjendakvenna,
-ríki staðfesti Istanbúlsamninginn,
-áhersla á mikilvægi kynfrelsis og kynheilbrigðis kvenna,
-leggja áherslu á kynheilbrigði bæði kvenna og karla,
-stórauka framlög til forvarna hvað varðar ofbeldi gegn konum,
-safna upplýsingum um vændi og leggja mat á áhrif þess á efnahagskerfið,
-efla forvarnir þannig að stúlkur lendi ekki í vændi og aðstoða þær út úr því,
-styðja samtök karla sem vinna að jafnrétti og gegn ofbeldi,
-útvíkka kynjahugtakið og viðurkenna fleiri kyn (trans o.fl.),
-bæta réttindi hinsegin fólks,
-lögð verði áhersla á að uppræta margfalda mismunun og að beita hugtakinu „intersectionality“,
-verja netupplýsingar (e. data protection) vegna ýmis konar misnotkunar og ofsókna,
-setja siðareglur á netinu og auka fræðslu um hatursorðræðu og hatursklám, bæta leiðir til að finna gerendur og refsa þeim,
-styðja stefnu SÞ hvað varðar kynjajafnrétti,
Skýr stefna og peningar er það sem þarf
Eftir að búið var að kynna niðurstöður hópanna mættu nokkrar stjórnmálakonur til leiks (já, allt konur) til að ræða þessar tillögur og hvað þeim fyndist mikilvægast að gera hér, nú og í framtíðinni. Í umræðum þeirra kom fram að nauðsynlegt væri að slá í klárinn. Með sama framhaldi tæki að minnsta kosti 70 ár að ná jafnrétti kynjanna innan EU. Það gengi allt of hægt en sannleikurinn er sá að framlög til jafnréttismála hafa verið skorin mikið niður. Þó kom fram að í Portúgal var ákveðið að skera ekki niður framlög til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi en það er mikið þar í landi (óhugnanlega mörg morð á konum). Þar við bætist vaxandi andstaða frá alls konar hægri og öfgaöflum sem eru beinlínis á móti auknu kynjajafnrétti. Ein kvennanna sagði að það væri hávær meirihluti innan Evrópuþingsins sem stöðvaði allar tillögur sem bæta stöðu kvenna. Það væri mikil karlaslagsíða innan EU en bæði strákar og stelpur þyrftu að skynja að EU væri fyrir þau. Í Portúgal er fyrirtækjum hyglað (með sköttum) ef þau virða og vinna að kynjajafnrétti ekki síst launajafnrétti kynjanna. Það væri fróðlegt að kynna sér þetta nánar. Fram koma að kynjasamþætting ætti undir högg að sækja í mörgum ríkjum EU en henni hefði aldrei verið framfylgt sem neinu næmi. Almenningur yrði að stórauka þrýsting á þingið og framkvæmdastjórnina til að árangur næðist. Það þyrfti að styrkja evrópsku jafnréttisstofnunina EIGE en hún er ansi öflug í að safna upplýsingum og greina ýmis mál. Pólski ráðherrann Malgorzata Fuszara var skýr í máli. Hún sagði að það sem þyrfti til að ná árangri væri: Sérstaka og skýra stefnu með mælanlegum markmiðum, peninga (jafnrétti kostar peninga), koma á fót Evrópuþingi kvenna (líkt og í Póllandi) til að þrýsta á og útrýma ofbeldi gegn konum.
Þetta var töluvert veganesti en tillögur hefðu sannarlega mátt vera ítarlegri og skýrari. Það er væntanlega næsta skref.