- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ofbeldi er þjóðfélagsmein og birtist okkur í frásögnum þeirra sem stigið hafa fram undir myllumerkinu #metoo, á síðustu misserum. Metoo-bylgjan frá haustmánuðum 2017 veitti innsýn í umfang mikils vanda en síðustu vikur hefur kastljósinu enn frekar verið beint að úrræðaleysi þolenda og meðvirkni með gerendum.
Istanbúlsamningurinn (e. Istanbul Convention) var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins (e. The Council of Europe) 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Samningurinn, sem fjallar um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, fjallar fyrstur alþjóðasamninga heildstætt um baráttuna við ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þau sem verða fyrir ofbeldi, fræðslu til almennings, stjórnvalda og fagaðila, og fólks sem sinnir forvörnum.
Istanbúlsamningurinn fjallar um nánast allar hliðar líkamlegs og andlegs ofbeldis. Hann fjallar um kynferðislegt ofbeldi og áreitni, umsáturseinelti og nauðganir. Í samningnum er einnig fjallað um sérstakar tegundir brota svo sem nauðungarhjónabönd, limlestingar á kynfærum kvenna og nauðungarfóstureyðingar. Auk umfjöllunar um mikilvægi þess að bjóða gerendum og ofbeldismönnum úrræði og meðferð.
Löndin sem hafa undirritað samninginn skuldbinda sig til að gera nauðsynlegar breytingar á lögum til að tryggja rétt kvenna til lífs án ofbeldis og ofbeldisógnar og samþætta kynjasjónarmið í aðgerðum og framkvæmd stefnumótunar. Með samningnum er ljósi beint að félagslegum og menningarlegum ástæðum ofbeldis. Með undirritun og fullnustu viðurkenna ríki að réttlæti næst ekki ef þolendur sjálfir eru einir gerðir ábyrgir fyrir því að reka mál sín í réttarvörslukerfum. Liður í því felst í að veita þolendum ráðgjöf og upplýsingar um úrræði.
Áherslur á persónuleika gerenda og veikleika þeirra geta ekki verið látnir skýra ástæður ofbeldisverka. Til að ná árangri í vörnum gegn ofbeldi, leggur Istanbúlsamningurinn áherslu á að horfa til samfélagsgerðarinnar og þeirra menningarlegu þátta í öllum samfélögum sem ýta undir eða réttlæta ofbeldishegðun. Í þeirri umræðu verður að horfa til kynjahyggju (e. sexism) og hugmynda feðraveldis um yfirráð karla. Ofbeldi er ekki bara eitthvað eitt og viðbrögðin við ofbeldi geta því ekki falist í einföldum lausnum.
Alþjóðlegar mælingar og samanburður Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) tekur ekki til greina kynferðislegt ofbeldi. Og þrátt fyrir að erfitt geti verið að mæla tíðni kynferðislegs ofbeldis, er lítið sem gefur okkur ástæðu til að ætla að kynferðislegt ofbeldi sé sjaldgæfara á Íslandi en annarsstaðar. Góður árangur Íslands í jafnréttismálum þarf einnig að geta orðið til þess að við sjáum hvað við getum gert betur.
Hinn 26. apríl 2018 fullgilti Ísland Istanbúlsamninginn þegar Ásmundur Einar Daðason, þá félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins staðfestingarskjal um fullgildingu Íslands. Vegna fullgildingarinnar minnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á að með því hefðu félagasamtök loks þau tæki sem þau þyrftu til að setja þrýsting á stjórnvöld til að standa við skuldbindingar sínar. Þá þýðir fullgildingin ennfremur að íslensk stjórnvöld þurfi núna að standa skil á framkvæmd samningsins gagnvart Evrópuráðinu.
Í dag eru 10 ár frá því að Ísland, eitt þrettán ríkja, undirritaði samninginn í Istanbúl, Tyrklandi. Af því tilefni héldu Þjóðverjar, sem nú fara með formennsku í Evrópuráðinu, ráðstefnu í Berlín – þar sem ræddar voru helstu framtíðaráskoranir við innleiðingu markmiða samningsins. Lykilfyrirlesari, tyrkneski rithöfundurinn Elif Shafak, beindi sjónum sínum að heimalandi sínu og spurði: Ef samningnum er sagt upp af afturhaldssömum tyrkneskum stjórnvöldum með vísan í að hann grafi undan gildum fjölskyldunnar, má spyrja, hvaða fjölskyldugildi sem samrýmast ekki markmiðum Istanbúlsamningsins, er eftirsóknarvert að sækjast eftir?
Íslensk stjórnvöld hafa margt gert á liðnum áratug til að vinna að markmiðum samningsins. Mestu munar um skuldbindingu um fjármögnun verkefna í framkvæmdaáætlunum sem ætlað er að vinna gegn ofbeldi. Þá hefur markvisst verið unnið að réttarbótum og lagabreytingum sem skýra betur rétt þolenda kynferðisbrota. Nú er komið að því að horfa til fræðslu og skilnings þeirra sem vinna í réttarvörslukerfunum og dómstólum. Skilning á sérstöku eðli kynferðisbrota þarf að efla, meðal annars hjá lögmönnum, dómurum og öllum þeim sem að málflokknum koma.
Aukinn skilningur karla er forsenda þess að kynferðislegt friðhelgi kvenna sé tryggt. Án þátttöku karla í umræðunni fæst lítið áunnist með Metoo-byltingunni. Í samræmi við markmið Istanbúlsamningsins verður, með fræðslu til almennings, stjórnvalda og fagaðila, sérstaklega að beina sjónum að þátttöku karla í umræðunni um kynferðislegt ofbeldi.
Höfundur er fulltrúi Íslands í Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins.