Þórður Kristinsson og Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar
Hið gullna jafnvægi, - draumsýn eða veruleiki?
Hver vill ekki auka lífsgæði sín og finna hið gullna jafnvægi á milli fjölskyldulífs og atvinnu, - lágmarka togstreituna milli vinnu og einkalífs og njóta sín án samviskubits í báðum hlutverkunum?Vinnan skipar stóran sess í lífi flestra og því skiptir miklu hvernig komið er til móts við þarfir okkar þegar sinna þarf málefnum fjölskyldunnar. Til að mæta þessum þörfum hafa mörg fyrirtæki og stofnanir sett sér fjölskyldustefnu og eða jafnréttisáætlanir og sýnt þannig vilja til að stuðla að því að starfsfólk fái notið sín bæði í lífi og starfi.
Í 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs segir: „Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.“
Skylda atvinnurekenda er skýr samkvæmt lögum en við þurfum að þekkja réttindi okkar og vera óhrædd við að nýta þau. Ábyrgðin liggur nefnilega líka hjá okkur þegar skapa á fjölskylduvæna vinnumenningu. Þar eru margar spurningar sem við þurfum að velta upp. Er til fjölskyldustefna og eða jafnréttisáætlun á okkar vinnustað? Ef slík stefna / áætlun er til þekkjum við þá inntak hennar? Er dugnaður mældur í viðveru á vinnustað, lengd vinnudagsins frekar en gæðum vinnunnar? Viljum við hafa það þannig? Höfum við lagt fram tillögur að bættu vinnuumhverfi og eða vinnutilhögun sem stuðlað geta að fjölskylduvænni vinnustað. Við erum í lykilstöðu til þess að hafa áhrif á starfsumhverfi okkar.
Verum ófeimin við að ræða hugmyndir okkar við samstarfsfólk og yfirmenn, starfsmannaviðtöl eru t.d. kjörinn vettvangur til að ræða samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Förum reglulega yfir vinnutilhögun okkar og prófum okkur áfram með lausnir til að skoða hvað hentar okkar þörfum og vinnustaðarins. Hikum ekki við að koma með tillögur til úrbóta. Eitt af því er að skipuleggja tíma sinn til betra jafnvægis, setja sér markmið og skipuleggja vinnutilhögun og verkefni heima fyrir. Gleymum ekki að slaka á, verum meðvituð um álagstíma og gefum okkur tíma fyrir hvíld og slökun.
Sveigjanleika á vinnustað er ætlað að skapa aukið svigrúm og fleiri valkosti þegar kemur að skipulagi vinnunnar. Markmiðið er að við getum gegnt störfum okkar á sem skilvirkastan hátt en einnig haft nægan tíma til að sinna öðrum mikilvægum þáttum lífsins svo sem fjölskyldulífi og tómstundum. Ávinningurinn er minna álag, betri heilsa, aukin afköst og fleiri gæðastundir í vinnu og einkalífi.
Starfshópur skipaður af velferðarráðherra hefur tekið saman ýmsar upplýsingar og hugmyndir um hvernig samræma má fjölskyldu- og atvinnulíf frá sjónarhóli launafólks og atvinnurekenda, ríkis og sveitarfélaga. Upplýsingarnar má nálgast á heimasíðunni www.hiðgullnajafnvægi.is
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs er ekki draumsýn, við getum öll tekið þátt í að finna leiðir að hinu gullna jafnvægi.
Arnfríður Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri á Jafnréttisstofu.
Þórður Kristinsson, formaður vinnuhóps um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.