Hin þögla þjáning

Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

Hin þögla þjáning

Kynbundið ofbeldi er ævafornt fyrirbæri en samkvæmt íslenskum lögum var það lengi vel réttur húsbænda að lemja konur sínar og foreldra að flengja börn sín. Reglur voru til sem sögðu hversu þykkt prikið mátti vera sem konurnar og börnin voru lamin með.

Ennþá árið 2010 býr fjöldi kvenna og barna í skugga kynbundins ofbeldis og ennþá forðumst við sem fullorðin erum að ræða þessi viðkvæmu mál. Samt segja rannsóknir okkur að um átjánhundruð íslenskar konur hafi orðið fyrir ofbeldi af hendi maka eða kærasta árið 2008 og fjórðungur þessara kvenna segjast hafa verið í lífshættu þegar ofbeldið var framið. Á bak við þessar konur er fjöldi barna og unglinga sem þjást vegna ofbeldis sem þau upplifa og verða fyrir inni á eigin heimili, - heimili sem á að vera þeirra griðastaður og skjól. Á meðan við fullorðna fólkið þegjum viðgengst ofbeldið og hin þögla þjáning heldur áfram.

Jafnréttisstofu ber að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi

 
Eitt af hlutverkum Jafnréttisstofu samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla 10/2008 er að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna forvörnum á þessu sviði. Þar með hefur kynbundið ofbeldi verið skilgreint sem hluti af jafnréttisbaráttunni.

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar


Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar http://www.felagsmalaraduneyti.is/vefir/adgerdaaetlun/ gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi miðar að því að bæta aðbúnað þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi og eða eru í áhættuhópi hvað ofbeldi varðar. Einn liður í því er fræðsla fyrir almenning, kynningarátak og árlegur fræðsludagur.

Aðgerðaáætlunin skiptist í tvo hluta:
1. Aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn börnum.
2. Aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn konum.

Í hvorum hluta fyrir sig eru eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi:


• Auka fyrirbyggjandi aðgerðir sem stuðla að opinni umræðu um ofbeldi gegn börnum og kynbundnu ofbeldi og viðhorfsbreytingum í þjóðfélaginu.
• Styrkja starfsfólk stofnana í því að sjá einkenni ofbeldis hjá börnum og kynbundins ofbeldis og koma þolendum til aðstoðar.
• Tryggja einstaklingum sem eru þolendur ofbeldis á heimili eða kynferðislegs ofbeldis viðeigandi aðstoð.
• Rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðaúrræði fyrir gerendur.

Um er að ræða efnismikla aðgerðaáætlun sem felur í sér 37 aðgerðir. Hverri aðgerð er lýst sérstaklega ásamt tilgangi hennar. Einstökum ráðuneytum hefur verið falin ábyrgð á framkvæmd sérhverrar aðgerðar ásamt því að settur er fram tiltekinn tímarammi um framkvæmdina.

Opin ráðstefna um kynbundið ofbeldi og fræðsludagur


Í aðgerðaráætluninni er gert ráð fyrir árlegum fræðsludegi þar sem lögð er áhersla á hlutverk sveitarfélaganna við að aðstoða þolendur heimilisofbeldis og kynferðislegs ofbeldis við að takast á við aðstæður sínar.

Þann 16. apríl síðast liðinn var boðað til sérstaks fræðsludags fyrir félagsmálastjóra og aðra stjórnendur innan félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem sjónum var beint að orsökum og afleiðingum kynbundins ofbeldis sem og á hvern hátt félagsþjónustan getur unnið gegn ofbeldinu. Fræðsludagurinn var haldinn í tengslum við ráðstefnuna Þögul þjáning sem er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri. Á annað hundrað manns sótti ráðstefnuna sem þótti einstaklega vel heppnuð.

Ekkert barn og engin kona á að þurfa að búa við þögla þjáningu ofbeldis. Ábyrgðin er okkar fullorðna fólksins, við verðum að opna umræðuna um þessi viðkvæmu mál. Tökum höndum saman og afléttum þagnarbindindinu, - segjum frá.