Ófáum mannslífum hefur verið bjargað af starfsfólki heilbrigðiskerfisins með þeirri einföldu aðferð að spyrja fólk hvort það stundi einhvern áhættulifnað, reyki, noti vímuefni í óhófi eða éti rusl(fæði). Spurningar um slíka þætti eru víða sjálfsagðar í heilbrigðiskerfi Vesturlanda og reynslan er alls staðar sú sama. Það er enginn sem móðgast við slíkar spurningar, þær eru bara eðlilegur og sjálfsagður hluti af því ferli að heilbrigðisstarfsmaður geti myndað sér þá heildstæðu skoðun sem nauðsynleg er til að rétt sé tekið á vanda viðkomandi einstaklinga.
Allt of margir einstaklingar í íslensku samfélagi hafa orðið fyrir ofbeldi, m.a. af hendi einhvers nákomins. Slíkt ofbeldi getur skilið eftir sig ósýnileg sár sem árum saman spilla lífsgæðum og leiða til kvilla og verkja sem engar skynsamlegar ástæður virðast vera á bak við. Til þess að komast að þessari rót vandans þarf að beita sömu aðferð og varðandi reykingar, það þarf að spyrja.
Þetta hefur lengi verið vitað en þrátt fyrir það er það ekki nema á einstaka stöðum eða undir vissum kringumstæðum sem fólk er spurt. Ástæðurnar eru nokkrar og meðal annars er um að ræða sömu ástæðu og hindraði í nokkur ár að farið væri að spyrja um reykingar. Óttinn við að móðga, að verið væri að fara inn á svið sem væri einka. Þar sem tilraunir hafa verið gerðar með að spyrja skjólstæðinga um reynslu af ofbeldi hafa niðurstöður þó alltaf verið þær sömu. Fólk tekur þessum spurningum á sama hátt og öðrum spurningum starfsfólks, sem tilraun til að finna hvað sé að, hvað beri að gera.
Aftur og aftur birtast okkur kannanir og rannsóknir sem sýna að afar margir Íslendingar hafa orðið fyrir ofbeldi. Margir þeirra leita sí og æ til heilbrigðisþjónustunnar með óljós einkenni án þess að fá nokkra bót. Það er mikilvægt fyrir þessa einstaklinga og það er mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild að gripið sé til þess ráðs sem dugar til að fá orsökina upp á yfirborðið. Það þarf að sjá til þess að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar geti spurt skjólstæðinga sína um reynslu af ofbeldi.