Hræðast karlar gamalt fólk?

11.05.2020 Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

Hræðast karlar gamalt fólk?

Hræðast karlar gamalt fólk spurðu stjórnendur Öldrunarheimilanna á Akureyri árið 2013 þegar gripið var til þess ráðs að auglýsa sérstaklega eftir körlum til umönnunarstarfa. Markmiðið var að jafna kynjahlutfallið í starfsmannahópnum sem samanstendur nær eingöngu af konum. Markmið Öldrunarheimilanna er í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (10/2008). Þar er sú skylda lögð á atvinnurekendur að þeir vinni sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna á sínum vinnustað og að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf (18. gr.). Aðgerðin sem fólst í því að auglýsa sérstaklega eftir körlum er heimil samkvæmt lögunum ef tilgangurinn er að jafna kynjahlutfallið innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni (26. gr.).

 

Markmið laganna er að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins m.a. með því að vinna gegn kynbundnum staðalmyndum sem ætla kynjunum ólík hlutverk í lífi og starfi. Stórt skref var stigið í þessa átt þegar ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi árið 2000 sem tryggðu körlum rétt til fæðingarorlofs. Fram að þeim tíma hafði sá réttur einskorðast við konur enda lengi verið litið svo á hlutverk kvenna væri að helga sig umönnun og uppeldi og karla að vinna fyrir fjölskyldunni. Húsmæðraskólar voru vinsælir meðal kvenna og karlar voru fjölmennari í iðn- og háskólum. Síðan eru hins vegar liðin mörg ár og áratugir og nú er svo komið að mun færri karlar stunda háskólanám á Íslandi en konur.

Kynjahlutfall í háskólanámi

 

Í dag eru karlar 24% nemenda við Háskólann á Akureyri, 32% nemenda við Háskóla Íslands og 34% nemenda við Háskólann á Bifröst. Karlar virðast hins vegar finna sig betur í Háskólanum í Reykjavík þar sem hlutfall þeirra er 57%. Skýringin liggur trúlega í ólíku námsframboði skólanna. Heilbrigðisvísindi og kennsla virðast ekki höfða til karla en meira jafnræðis gætir meðal kynjanna í tölvunarfræði, tækni- og verkfræði.

 

Ólík viðhorf kynjanna til starfa litast af fyrirmyndunum sem þau hafa. Stelpur hafa t.d. margar fyrirmyndir í hjúkrunar- og umönnunarstörfum en þar skortir strákum fyrirmyndir. Þessi kynbundnu viðhorf til starfa endurspeglast m.a. í kynjahlutfalli nemenda í heilbrigðisvísindum og félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og í sjúkraliðanámi á framhaldsskólastigi.

Kynbundið námsval við HÍ og í sjúkraliðanámi

 

Fjarvera karla er sláandi á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Ísland en þeir eru einungis 5% nemenda í hjúkrunarfræði, 19% í tannlækningum og 26% í læknisfræði. Nám í félagsráðgjöf virðist heldur ekki höfða til karla þar sem þeir eru 6% nemenda. Kynjahlutfallið er svipað þegar sjúkraliðanámið er skoðað en þar eru karlar einungis 5% nemenda.

 

Samfélagið gerir ráð fyrir að konur sinni umönnun og hjúkrun og mæta karlar sem velja sér slík störf oft fordómum. Þeir taki niður fyrir sig fari þeir óhefðbundnar leiðir í náms- og starfsvali en virðing kvenna eykst. Kynin sitja því ekki við sama borð, ólíkar væntingar eru gerðar til stráka en stelpna og svokölluð karlastörf talin meira virði en kvennastörf.

 

Ljóst er að mikið verk er að vinna ef brjóta á upp staðalmyndir kynjanna sem hefta frelsi kvenna og karla þegar kemur að náms- og starfsvali. Það er tímaskekkja að álíta að karlmenn geti ekki sinnt hjúkrun og öðrum umönnunarstörfum til jafns við konur. Það er ekki hræðsla við gamla fólkið sem heldur körlum frá umönnunarstörfum heldur hræðsla við viðhorf og viðbrögð samfélagsins sem er löngu orðið tímabært að breyta.

starfsmaður á leikskóla