Hugleiðing um konur í æðstu stöðum dómskerfisins, í tilefni af 19. júní 2015
Ragnhildur Helgadóttir skrifar
Hugleiðing um konur í æðstu stöðum dómskerfisins, í tilefni af 19. júní 2015
Því var fagnað í sumar að öld er liðin frá því að fyrstu konurnar fengu kosningarétt. Það leið þó langur tími frá þessum tímamótum þar til konur tóku sæti á þingi í einhverjum mæli.Fyrsta konan var kjörin á þing árið 1922 en fyrsta konan sem var kjörin í almennum þingkosningum (ekki landskjöri) var kjörin árið 1934. Í kosningum árið 1971 náðu þrjár konur kjöri og voru þær þá 5% þingmanna, sem var hæsta hlutfall kvenna fram að því. Það hélst óbreytt til ársins 1983 er hlutfallið þrefaldaðist og konur sátu í 15% þingsæta. Hlutfall kvenna á þingi hefur síðan heldur aukist og er nú rétt undir 40%.
Ein kona meðal skipaðra hæstaréttardómara
Ef litið er til íslenskra dómstóla og þátttöku kvenna þar, þá er stór hluti héraðsdómara konur eða 20 af 43. Af tíu skipuðum hæstaréttardómurum er hins vegar aðeins ein kona. Þá situr nú ein kona tímabundið í Hæstarétti vegna leyfis skipaðs dómara. Staðan er með öðrum orðum sú að 10% dómara við æðsta dómstól landsins eru konur. Er það ásættanlegt hlutfall 100 árum eftir að konur hófu formlega þátttöku í stjórn ríkisins? Til að svara þessu er rétt að líta á dómstólana, skipun þeirra og hlutverk og bera saman við Alþingi.
Til þess að ríki teljist lýðræðisríki þarf að vera þar almennur kosningaréttur til þings, sem hefur undirtökin í stjórnmálalífinu. Kosningarétturinn er grundvallarréttur. Hér á landi er almennt talað um Alþingi – sem kosið er til – sem sterkasta handhafa ríkisvaldsins. Það setur lög, stýrir fjármálum ríkisins, tekur stefnumótandi ákvarðanir fyrir ríkið, og leggur á borgarana skatta og skyldur. Við störf sín eru þingmenn samkvæmt stjórnarskrá eingöngu bundnir af samvisku sinni og stjórnarskrá.
Alþingi endurspegli samfélagið
Flestum finnst skipta máli að á Alþingi sitji misjafnt fólk með misjafna reynslu; á ýmsum aldri, af báðum kynjum, með mismunandi menntun og lífsreynslu. Um það hve miklu máli þessi fjölbreytni skiptir og af hverju eru svolítið skiptar skoðanir, en þessi áhersla helgast að hluta til af því að við teljum að fólk með mismunandi lífsreynslu nálgist álitaefni og verkefni með mismunandi hætti. Og langflestir eru þeirrar skoðunar að kyn sé meðal þeirra þátta sem móta lífsreynslu fólks. En mikilvægi þess að konur séu á þingi grundvallast ekki alltaf á skoðun um að konur og karlar séu ólík, og því skipti fjölbreytni máli fyrir vinnubrögð og niðurstöðu í málum, heldur vilja langflestir að á þingi sitji fjölbreyttur hópur fólks sem endurspegli okkur flest eða öll. Fæst kjósum við eftir persónulegum eiginleikum eingöngu heldur kjósum við eftir því hvernig skoðanir og baráttumál frambjóðenda endurspegla skoðanir okkar. En þar sem hægt er að finna konur, rétt eins og karla, með fjölbreyttar skoðanir og í flestum stjórnmálaöflum, þá veldur það engum vanda varðandi fjölbreytnina: Hún bætist bara við. Það eru semsé mörg og misjöfn rök fyrir fjölbreytni á þingi. Margir telja mikilvægt að hafa konur á þingi vegna þess að þær taki aðrar ákvarðanir en karlmenn eða taki ákvarðanir með öðrum hætti. Langflestir telja jafnframt mikilvægt að á þingi sitji bæði konur og karlmenn með mismunandi skoðanir því það skipti máli að allir geti speglað sig í þinginu og séð fulltrúa sína þar auk þess sem blandaður hópur á þingi hafi táknrænt gildi.
Skiptir máli hverjir dæma?
Lítum þá á dómstólana. Í Evrópu, andstætt því sem gerist í sumum ríkjum Bandaríkjanna, eru dómarar ekki kjörnir heldur skipaðir, að undangenginni einhverri málsmeðferð sem ákveðin er í lögum. Hér á landi eru skilyrði fyrir því að vera skipaður dómari skráð í lög, nú í dómstólalög nr. 15/1998. Skilyrðin eru nokkuð mismunandi eftir því hvort um er að ræða Hæstarétt eða héraðsdóma, en í öllum tilvikum þarf fólk að hafa lögfræðipróf, hafa náð tilteknum aldri og öðlast ákveðna lögfræðilega starfsreynslu. Hlutverk dómstóla er gerólíkt hlutverki Alþingis; þeir móta almennt ekki stefnu heldur leysa endanlega úr þeim málum sem til þeirra er vísað. Þeir sem aðhyllast þá kenningu að ein rétt eða ein besta niðurstaða sé til í hverju máli eru eðlilega þeirrar skoðunar að engu skipti hverjir dæmi. Aðrir sjá fleiri blæbrigði og eru þeirrar skoðunar að reynsla dómara geti með réttu haft áhrif á m.a. hvað telst sannað og telja að niðurstaða í margs konar mati dómara, geti oltið á reynslu þeirra. Reynsla þess sem dæmir geti því með réttu og muni hafa áhrif á niðurstöðu máls. Til stuðnings því, að persónulegir eiginleikar dómara skipti máli í dómsstörfum má auðvitað nefna að það er gerð krafa um bæði lágmarksaldur og starfsreynslu til að vera skipaður dómari. Þetta er í sjálfu sér áhugavert viðfangsefni. Niðurstaðan um hvort það sé ásættanlegt hve lágt hlutfall af dómurum í Hæstarétti séu konur veltur hins vegar ekki, frekar en í tilviki Alþingis, á því hvort við teljum að konur og karlmenn taki ólíkar ákvarðanir.
Þarf að sjást að konur taki ákvarðanir á æðstu stöðum
Rök um táknrænt mikilvægi blandaðs hóps og rökin um speglun eiga nefnilega við um dómstólana rétt eins og um Alþingi. Það er afar mikilvægt að konur jafnt sem karlar, sem þurfa að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála sem skipta þau miklu, geti speglað sig í réttinum. Það er mikilvægt að ungir og gamlir, með mismunandi lífsreynslu og mismunandi hæfileika til að sjá það sem fólk á sameiginlegt, geti haft traust á réttinum. Og rétt eins og í tilfelli Alþingis, skiptir máli að það sjáist að konur jafnt sem karlar taki ákvarðanir á æðstu stöðum.
Það er þess vegna skrýtið, þó horft sé til mismunandi hlutverka Alþingis annars vegar og dómstóla hins vegar, að við sem þjóð vinnum markvisst að því að auka hlut kvenna á þingi en látum okkur engu skipta afar lágt hlutfall kvenna í Hæstarétti.
Rétt eins og í tilviki Alþingis felst ekki í þeirri sjálfsögðu ósk, að í Hæstarétti sitji sómasamlegt hlutfall bæði kvenna og karla, nein krafa um að slakað sé á hæfnis- eða gæðakröfum. Þvert á móti má halda því fram að það sé einmitt til þess að búa til betri Hæstarétt, sem skilar betri niðurstöðum og nýtur meira trausts, að horft sé til persónulegra eiginleika eins og kyns, rétt eins og þess hvort fólk hefur t.a.m. samið fleiri eða færri lagafrumvörp.
Grein Ragnhildar Helgadóttur, forseta lagadeildar, kom út í Tímariti HR þann 20. október 2015.