Evrópubúar standa frammi fyrir margvíslegum vanda um þessar mundir. Það er ekki bara efnahagskreppan sem herjar á þá eins og reyndar fleiri í heiminum heldur stendur Evrópa frammi fyrir fækkun fólks í sumum ríkjum, of lítilli frjósemi og samþjöppun byggðar, meðan eldra fólki og það jafnvel mjög gömlu fjölgar jafnt og þétt.Á European Demography Forum 2013 sem undirrituð sótti 6.-7. maí í Brussel kom fram að nú eru 120 millj. manna á eftirlaunum innan Evrópusambandsins. Um þessar mundir eru fjórir á vinnualdri á móti hverjum eftirlaunaþega en því er spáð að þeir verði orðnir tveir árið 2025. Ellilífeyrir vegur sífellt þyngra í útgjöldum ríkja Evrópusambandsins og menn spyrja: hvað er til ráða? Við þetta bætist sú staðreynd að 14 millj. ungmenna eru án atvinnu og ekki í neins konar námi eða þjálfun. Enn má nefna að hreyfanleiki er mikill innan Evrópu, fólk leitar þangað sem lífskjör eru betri sem leiðir til þess að svæði verða fámennari og þar með ekki eins spennandi til búsetu.
Á að hækka eftirlaunaaldur?
Innan Evrópusambandsins er rætt um nokkrar leiðir til úrbóta. Í fyrsta lagi að auka virkni á vinnumarkaði og þá einkum að auka þátttöku kvenna sem er mjög mismunandi milli landa. Að meðaltali er hún 61% (73% hér á landi) en markmiðið er 75% þátttaka kvenna. Í öðru lagi að auka virkni þeirra sem eldri eru, hækka eftirlaunaaldur eða gera hann sveigjanlegri og bæta heilsu þannig að fólk geti unnið lengur. Í mörgum löndum Evrópu er eftirlaunaaldur mun lægri en hér á landi og eftirlaunaaldur kvenna lægri en karla hver sem rökin eru á bak við það. Í þriðja lagi að leita leiða til að auka frjósemi. Hún er víða langt frá því að halda þjóðum við. Í sumum ríkjum Austur-Evrópu eru lífslíkur miklu minni en hér á landi, m.a. vegna slæmrar heilsu og erfiðra lífskjara. Í austurhluta Evrópu er mikið um drykkjuskap og sjálfsmorðstíðni há, einkum meðal karla. Almennt eru þeir sem móta stefnu sammála um að ef takast á að auka frjósemi þurfi að bæta aðstæður barnafólks, ekki síst kvenna, t.d. að koma á almennilegu fæðingarorlofi, byggja upp leikskóla og auðvelda fólki að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Bent er á að þau samfélög sem verja mestu til velferðar þegnanna (Norðurlöndin) séu samkeppnishæfust á allan hátt. Margir stjórnmálamenn og trúarleiðtogar eru þessu ósammála og telja slíkar aðgerðir ógn við fjölskylduna, heimilin og auðvitað rótgróið kynjakerfið.
Borgirnar lokka og laða.
Einn þeirra sem flutti erindi á ráðstefnunni var Marcus Frequin frá innanríkisráðuneyti Hollands. Það er ótrúlegt en satt að í jafn litlu og þéttbýlu landi og Holland er hafa menn áhyggjur af því að fólk flytur frá landamærahéruðunum þar sem nóg er um vinnu í ýmis konar iðnaði til stórborganna sem lokka og laða. Ímynd iðnaðar höfðar ekki nægilega vel til ungs fólks. Það eru tvenns konar aðgerðir sem Hollendingar hafa gripið til. Annars vegar að bjóða ungu fólki upp á sérstaka þjálfun í iðngreinum þar sem vantar fólk og gera störfin spennandi, hins vegar að ýta undir samvinnu við Þjóðverja við að „opna“ landamærin og benda þeim á að þeir séu velkomnir í vinnu til Hollands en handan landamæranna er töluvert atvinnuleysi. Landamærin eru ósýnileg hindrun sem margir setja fyrir sig. Frequin benti á hve mikilvægt væri að tölvuvæða gamla fólkið. Með því væri hægt að spara háar upphæðir. Fólk gæti sótt sér ýmis konar upplýsingar, ráðgjöf og þjónustu í gegnum netið og þar með létt álagi, t.d. af félagsþjónustu og heilsugæslu. Þá lagði hann áherslu á hve brýnt væri að koma upp kennslu í umönnun á dreifbýlum svæðum, skipta upp störfum (vel menntað fólk er að gera ýmislegt sem ekki krefst menntunar), blanda saman ungum og eldri og virkja þar með þá sem eldri eru.
Verkefni til að virkja eldra fólk
Í málstofu um leiðir til að auka virkni eldra fólks kom ýmislegt athyglisvert fram. Bent var á mikilvægi símenntunar (life-long learning) sem leið til að halda fólki við í starfi, en meðal þeirra sem eldri eru er mikinn mannauð að finna. Í löndum þar sem eldra fólk er mjög virkt, t.d. í Svíþjóð, er mun meira fé varið til símenntunar. Þá var bent á að bilið í menntun hinna yngri og eldri færi stöðugt breikkandi. Ungt fólk er gríðarlega tæknivætt en það verður ekki sagt um stóran hluta eldra fólks.
Í fyrirlestri ítalska hagfræðingsins Pietro Checcucci kom fram að stefnan á Ítalíu hefði lengst af verið sú að skipta út eldra starfsfólki fyrir yngra. Eftirlaunaaldur á Ítalíu er sá lægsti í Evrópu. Eftir árið 2000 varð stefnubreyting og þar hafa verið fjölmörg verkefni í gangi til að auka virkni eldra fólks og reynt að tengja kynslóðir saman þannig að hinir yngri læri af þeim eldri. Ítalir vilja ýta undir sveigjanleg verkalok og hækka eftirlaunaaldur.
Í fyrirlestri Thomas Zwick frá háskólanum í Würtzburg í Þýskalandi kom fram að lengi vel hefðu áherslur í vinnumarkaðsrannsóknum beinst að því að sanna að fólk færi að missa ýmis konar hæfni eftir 40 ára aldur. Nýrri rannsóknir hafa kollvarpað þessari kenningu enda er stór hluti fólks í Evrópu miklu betur á sig kominn líkamlega og andlega en áður gerðist. Nýjustu rannsóknir sýna að blandaðir hópar yngri og eldri, kvenna og karla, skila mestu í atvinnulífinu. Sagt var frá ýmsum aðgerðum til að fá fólk til að vinna lengur og til að fá fyrirtæki til að ráða eldra fólk, t.d. með tilboðum um endurmenntun.
Hvernig farið þið að þessu þarna uppi á Íslandi?
Undirrituð tók þátt í málstofu um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Spurningin sem ég gekk út frá var sú hvernig Íslendingum hefði tekist að halda uppi mikilli frjósemi á sama tíma og atvinnuþátttaka kvenna væri einhver sú mesta innan OECD. Ég fór yfir þróunina frá því að fyrstu lög voru sett um launajafnrétti, jafnréttislög og breytingar á þeim, en einkum þó uppbyggingu leikskóla, mikla menntasókn kvenna, námslánakerfið og síðast en ekki síst stóraukin völd og áhrif kvenna sem hafa ýtt á eftir úrbótum. Það var kallað eftir vinnuafli kvenna, m.a. með skattaívilnunum til giftra kvenna. Húsnæðismál sem og almenn lífskjör voru þannig að heimilin þurftu tvær fyrirvinnur. Því má þó ekki gleyma að fjöldi einstæðra mæðra hefur alltaf verið mikill á Íslandi og þær þurft að sjá fyrir sér og sínum börnum. Svo kom nýja kvennahreyfingin til sögunnar um 1970 sem krafðist þess að konur hefðu sömu tækifæri og karlar til að mennta sig og sjá sér farborða. Menntun kvenna hefur aukist gríðarlega og nú er svo komið að menntabilið veldur áhyggjum. Ef svo heldur fram sem horfir munum við standa uppi með stóran hóp af illa menntuðum körlum en mikið af mjög vel menntuðum konum. Það þýðir að mannauðurinn verður illa nýttur í framtíðinni (eins og hann er reyndar nú vegna mikillar kynskiptingar á vinnumarkaði) þegar vitað er að framtíðin kallar á vel menntað fólk á öllum sviðum. Eftir fyrirlestur minn komu til mín tveir karlar frá OECD og spurðu hvað í ósköpunum væri að gerast hjá okkur, þeir hefðu ekki fyrr séð svona mikinn mun á háskólamenntun kvenna og karla í neinu landi. Ég var líka spurð að því hvort konur á Íslandi væru hamingjusamar, með alla þessa menntun, vinnu og öll þessi börn, sem og völd og áhrif? Því er vandsvarað en við vitum að það er mikið álag á íslenskum konum og að margir karlar vinna allt of mikið sem bitnar auðvitað á fjölskyldulífi.
Í erindi Maríu Jepsen kom fram að umræðan um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu snérist bara um konur. Lengra fæðingarorlof fyrir konur, leikskóla þannig að konur færu út að vinna o.s.frv. Það þyrfti að draga karlana inn í umræðuna, þeir yrðu að axla ábyrgð, t.d. á heimilisstörfum og uppeldi barna. Samræming fjölskyldulífs og vinnu væri ekki það sama og samræming innan fjölskyldu, þ.e. að fólk skipti með sér verkum á réttlátan hátt innan heimilanna. Það væri ekki síst þar sem kynjahallinn væri mikill og kæmi í veg fyrir atvinnuþátttöku kvenna. Í umræðum á eftir erindunum varð mörgum tíðrætt um mikið álag á konur vegna vinnu og ólaunaðrar vinnu þeirra, leyfi fyrir ættingja þegar nýtt barn kemur í heiminn og spurt var hvort færni mæðra væri metin sem skyldi á vinnumarkaði. Þá var vakin athygli á því hvaða áhrif umönnun fatlaðra og aldraðra hefði á líf fjölskyldna en undanfarin ár hefur verið töluverð umræða úti í Evrópu um að fólk fengi nokkra frídaga vegna veikra eða gamalla ættingja, líkt og foreldrar fá vegna veikra barna. Mikil fjölgun aldraðra kallar á heilmikla þjónustu og umönnun sem ættingjar sinna. Þá var spurt hvort ekki þyrfti að skipuleggja vinnuna á mun sveigjanlegri hátt og einnig hvort ekki ætti að stytta vinnudaginn en lengja starfsævina. Að lokum má nefna umhugsunarverða spurningu um það hver væri tilgangurinn með því að fjölga konum á vinnumarkaði (ekki er rætt um að minnka vinnu karla þar á móti), er hann nokkur annar en sá að auka neyslu, þegar heimurinn þarf einmitt á því að halda að draga verulega úr neyslu til þess að bjarga móður Jörð. Eftir stendur spurningin hver á að standa undir velferðinni ef fólki fækkar á vinnumarkaði og sífellt stærri hópur verður á eftirlaunum? Það er brýnt að bregðast við.