Innleiðum Istanbúlsamninginn


Árið 2011 lauk vinnu við gerð Samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Samningurinn er kenndur við borgina Istanbúl þar sem hann var formlega samþykktur. Nú hafa 14 ríki innleitt samninginn, sem þýðir að gripið hafi verið til nauðsynlegra aðgerða þannig að fullnægjandi teljist til að fullgilda hann. Ísland hefur enn ekki lokið því verki en hinar Norðurlandaþjóðirnar eru ýmist búnar að því eða rétt að ljúka innleiðingu. Fleiri ríki munu bætast í hópinn á næstunni.

Istanbúlsamningurinn er viðamikill samningur sem beinist að því að fyrirbyggja og kveða niður hin ýmsu og ótrúlega útbreiddu form ofbeldis gegn konum. Orðið kona nær samkvæmt samningnum einnig yfir „stúlkur undir 18 ára aldri“ þannig að samningurinn verndar þær sem og fullorðnar konur. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, fyrirbyggja ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum upp á meðferð.

Samningurinn nær yfir nánast allar tegundir ofbeldis, líkamlegt og andlegt, kynferðislega áreitni og umsáturselti (e. stalking) að ekki sé minnst á kynferðisofbeldi þar með taldar nauðganir. Síðan er tekið á sérstökum brotum eins og nauðungarhjónaböndum, limlestingum á kynfærum kvenna og nauðungarfóstureyðingum. Grundvallaratriði samningsins er að stjórnvöld móti heildstæða stefnu sem nái til allra þeirra þátta sem samningurinn kveður á um. 

Engin heildstæð aðgerðaáætlun

Hér á landi er ekki í gildi nein heildstæð aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi, eingöngu áætlun sem snýr að kynferðisofbeldi gegn börnum. Sú fyrsta og eina sem hér hefur verið samþykkt rann út í árslok 2011. Ýmsar aðgerðir eru þó í gangi eins og t.d. Suðurnesjaverkefnið og samstarfsteymi um heimilisofbeldi en að mínum dómi er þetta ástand óviðunandi. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru komnar með þriðju og fjórðu áætlunina enda hafa þær gefið góða raun. Verkefnin hrópa á okkur og umræðu er þörf. 

Er það t.d. eðlilegt að það séu félagasamtök sem bera hitann og þungann af ráðgjöf og aðstoð við brotaþola? Sitja konur og börn á landinu öllu við sama borð? Kynbundið ofbeldi er ekki síst lýðheilsumál sem er samfélaginu mjög dýrt og kostar einstaklinga og fjölskyldur, ekki síst börn, miklar þjáningar. Á þeim verður að taka. Istanbúlsamningurinn mun vonandi koma skikki á meðferð mála, treysta forvarnir og tryggja þjónustu við brotaþola. Því er brýnt að innleiða hann sem allra fyrst. Ég skora á ríkisstjórn Íslands að spýta í lófana og ljúka nauðsynlegum aðgerðum þannig að hægt verði að fullgilda Istanbúlsamninginn.


---

Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. desember 2014