- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Samstarf Jafnréttisstofu og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ)
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Eftirlitið felst m.a. í innköllun jafnréttisáætlana þar sem m.a. þarf að koma fram hvernig staðið er að forvörnum til að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.
Gæðaverkefnið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ hvetur íþrótta- og ungmennafélög til að huga vel að jafnréttismálum í sínu starfi. Þetta á meðal annars við um aðstöðu, fjármagn og þjálfun en ein forsenda þess að íþróttafélag geti talist Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er að það sé með jafnréttisáætlun. Í kjölfar #MeToo umræðunnar hefur íþróttahreyfingin gripið til ýmissa aðgerða til að uppræta ofbeldi og tryggja öryggi iðkenda. Eitt af því er að endurskoða gæðaverkefnið Fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
Í febrúar 2018 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá Fyrirmyndarfélögum ÍSÍ þrátt fyrir að íþróttafélögum sé ekki skylt, samkvæmt lögum, að setja sér slíkar áætlanir. Markmiðið var að minna íþróttafélögin á ábyrgð sína ekki síst í ljósi #MeToo umræðunnar og upplýsinga sem þar komu fram.
Í framhaldi af innköllun Jafnréttisstofu á jafnréttisáætlunum Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ tóku ÍSÍ og Jafnréttisstofa höndum saman með það að markmiði að aðstoða og þá um leið auðvelda íþróttafélögum gerð jafnréttisáætlana.
Afrakstur samstarfsins var jafnréttisáætlun sem Fyrirmyndarfélög ÍSÍ geta tekið upp og gert að sinni áætlun með samþykkt stjórnar og/eða aðalfundar. Einnig voru gerðar leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana sem félögin geta nýtt sér ef svo ber undir. Gögnin hafa verið kynnt fyrir forystumönnum sambandsaðila ÍSÍ og þau send á Fyrirmyndarfélög ÍSÍ sem hafa brugðist vel við. Jafnréttisáætlunina og leiðbeiningarnar má nálgast á vefsíðu ÍSÍ www.isi.is og vefsíðu Jafnréttisstofu www.jafnretti.is.
Rétt er að benda á að í raun geta öll íþrótta- og ungmennafélög nálgast þessa jafnréttisáætlun og gert að sinni áætlun, ekki bara Fyrirmyndarfélög ÍSÍ. Jafnréttisstofa og ÍSÍ hvetja félögin til að nýta sér það. Einnig er rétt að benda á að Jafnréttisstofa sinnir, auk eftirlits, fræðslu og ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna og þar eru íþróttafélögin velkomin.
Jafnréttisstofa og ÍSÍ hvetja alla sambandsaðila ÍSÍ til að tryggja öllum einstaklingum óháð kyni jafnan rétt til íþróttaiðkunar og öruggt umhverfi laust við áreitni og ofbeldi.
Leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana má finna hér.
Jafnréttisstofa
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands