Jafnréttisáætlanir skólanna eiga að tryggja framþróun í jafnréttismálum

Allt frá setningu fyrstu jafnréttislaganna árið 1976 hafa lögin kveðið á um jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Í 23. grein laganna um menntun og skólastarf segir að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Samkvæmt lagagreininni á að tryggja að kennslu- og námsgögn séu þannig úr garði gerð að kynjunum sé ekki mismunað og í starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum eiga piltar og stúlkur óháð kyni að hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf. Í 23. grein laganna segir einnig að skólar skuli nota aðferðafræði kynjasamþættingar  í allri stefnumótun og áætlunargerð og þetta á einnig við um íþrótta- og tómstundastarf. Aðferðin felst í því að skoða alla stefnumótun með kynjagleraugum til að tryggja að ákvarðanir leiði ekki til kynjamismununar eða ýti undir hefðbundnar staðalmyndir sem takmarka tækifæri kynjanna. Skólum ber einnig í samræmi við 22. grein laganna um kynbundið ofbeldi, kynbundna- og kynferðislega áreitni að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða skólum. [1]

Stofnunum og fyrirtækjum, þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri á ársgrundvelli, ber að vera með aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega setja fram markmið og gerð áætlun um hvernig  starfsmönnum eru tryggð réttindi sem kveðið er á um í 19. – 22. gr. jafnréttislaga. Þ.e. launajafnrétti, laus störf, aðgengi að sí- og endurmenntun, samræming fjölskyldu- og atvinnulífs og forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni. Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti. Jafnréttisstofa kallar reglulega inn jafnréttisáætlanir til yfirferðar og samþykktar sbr. 18. gr. laganna um vinnumarkað.

Skólar þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri  á ársgrundvelli falla undir ofangreinda lagagrein um aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir. Í áætlununum ber að tilgreina aðgerðir sem skólarnir hafa sett sér til að ná fram jafnréttismarkmiðum í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt jafnréttislögum. Í aðgerðaáætlunum þarf að koma fram hver þessi jafnréttismarkmið eru, hvernig stofnunin hyggst ná þeim, hver ber ábyrgð á því að aðgerðir séu framkvæmdar, tímaramminn séraunhæfur og hvernig eftirfylgni er tryggð.

Jafnréttisáætlanir skóla eru í raun tvíþættar,  annars vegar eiga þær að tryggja réttindi starfsfólks sbr. 19. – 22. gr. jafnréttislaga og hins vegar að sýna fram á hvernig skólarnir uppfylla 22. og 23.gr. laganna gagnvart nemendum.  22. gr. fjallar um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni og 23. gr. um menntun og skólastarf sem fyrr hefur verið greint frá.

Jafnréttisstofa kallaði á árunum 2013-2015 eftir jafnréttisáætlunum frá öllum skólastigum á Íslandi sem og tónlistarskólum og bauð viðkomandi skólum á sama tíma upp á fræðslu um skyldur þeirra samkvæmt jafnréttislögum, um aðferðafræði kynjasamþættingar og gerð jafnréttisáætlana. Lögð var áhersla á gildi jafnréttisáætlana sem tækis sem gæti stutt við innleiðingu jafnréttisstoðarinnar sem er ein af grunnþáttum menntunar í námskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla en þar segir m.a. að „í öllu skólastarfi og öllum samskiptum skulu ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi“.

Innköllun jafnréttisáætlana gekk ágætlega, skólar þurftu töluverða aðstoð þar sem flestir skólanna voru að vinna slíkar áætlanir í fyrsta sinn en mikill meirihluti skólanna skilaði áætlunum sem voru samþykktar af Jafnréttisstofu. Haustið 2015 þegar innköllun lauk höfðu 96% grunnskóla skilað umbeðnum gögnum. Um 80% leikskóla skiluðu Jafnréttisstofu fullnægjandi jafnréttisáætlunum og/eða umbeðnum gögnum. Þeir skólar þar sem færri en 25 manns starfa skila Jafnréttisstofu aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig skólarnir ætla að tryggja að farið sé að 22. gr. og 23. gr. jafnréttislaga.

Haustið 2015 tilkynnti Jafnréttisstofa grunnskólunum að skólaárið 2016-2017 yrði kallað eftir skýrslum um framgang mála, þ.e. hvernig skólunum hafi gengið að vinna á grundvelli sinna aðgerðaáætlana en þetta er gert í samræmi við 3. mgr. 18. gr. jafnréttislaga.

Til að auðvelda skólunum vinnuna útbjó Jafnréttisstofa vefkönnun í stað þess að kalla eftir ofangreindri skýrslu og voru skólastjórnendur beðnir að svara þeirri könnun í síðasta lagi 15. mars 2017. Könnunin samanstóð af 17 spurningum sem byggja á þeim lagaákvæðum sem skólum ber að framfylgja skv. jafnréttislögum.

Tæplega helmingur grunnskóla í landinu svaraði könnun Jafnréttisstofu vorið 2017 eða 87 af 175 grunnskólum landsins. Níu skólar svöruðu einungis fyrstu tveimur spurningum könnunarinnar um jafnréttisáætlun og jafnréttisnefnd. Fjöldi þeirra skóla sem tóku þátt í könnun Jafnréttisstofu er því miður ekki viðunandi en, eins og áður sagði, höfðu skólarnir fengið vitneskju um innköllun Jafnréttisstofu á upplýsingum um eftirfylgni með áætlunum með rúmlega árs fyrirvara. Þessi dræmu svör skólanna gefa ákveðnar vísbendingar um að lítið hafi farið fyrir eftirfylgni í skólunum sem ekki svöruðu könnuninni. Einnig gefa niðurstöður könnunarinnar sterkar vísbendingar um að þeir skólar sem svara könnuninni eigi töluvert starf óunnið þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, notkun kynjasamþættingar við stefnumótun og ákvarðanatöku og ýmsu sem lýtur að námi nemenda.

Svör skólanna sýna að skólastjórnendur telja að þeir tryggi starfsfólki sinn lögbundna rétt og sömu tækifæri þegar kemur að launajafnrétti, samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og endurmenntun og að reynt sé að jafna kynjahlutföll í hópi starfsmanna. Það sem vantar helst upp á þegar kemur að réttindum starfsfólks er að víða er ekki tryggt með sérstökum ráðstöfunum að starfsfólk verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni- eða kynferðislegri áreitni.

Þegar litið er til lögbundins hlutverks skólanna hvað varðar jafnréttisfræðslu og dæmi um notkun kynjasamþættingar eru svör í mörgum tilfellum ekki fullnægjandi. Svör skólanna sýna m.a. að ekki er markvisst verið að sinna lögboðinni jafnréttisfræðslu. Oft er leitað til utanaðkomandi sérfræðinga til að vera með innlegg um jafnréttismál, dæmi eru um að hjúkrunarfræðingar sjái um slíka fræðslu en algengast er að námsráðgjafar sinni þessari fræðslu og þá með sérstakri áherslu á náms- og starfsval. Jafnréttisfræðsla er í örfáum tilfellum samþætt annarri kennslu eins og aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir. Tímaleysi og niðurskurður í skólum eru gjarnan nefnd sem hindrun þegar kemur að jafnréttisfræðslu, eftirfylgni með aðgerðum í jafnréttisáætlunum og notkun kynjasamþættingar. Ákveðins misskilnings virðist gæta gagnvart hugtakinu kynjasamþætting og eins leggja ekki allir stjórnendur sama skilning í ákvæði jafnréttislaga um að tryggja skuli að námsgögn mismuni ekki kynjunum, en þá er átt við að námsefnið endurspegli ekki neikvæðar staðalmyndir kynjanna eða viðhaldi þröngri og hefðbundinni sýn á hlutverk kynjanna.

Það verður því að segjast að jafnréttisáætlanir skólanna, sem eru vel unnar og vandaðar, virðast heldur máttlitlar þegar kemur að framkvæmd, sér í lagi þegar kemur að því að uppfylla skyldur er lúta að skipulagi menntunar um jafnréttismál en einnig þegar kemur að því að tryggja að starfsfólk og nemendur verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni- og kynferðislegri áreitni.

Á komandi hausti mun Jafnréttisstofa kalla eftir jafnréttisáætlunum grunnskóla í annað sinn og bjóða fræðslu um gerð þeirra þannig að þær séu raunhæfar og eftirfylgni sé tryggð. Jafnréttisstofa hvetur fræðsluyfirvöld um allt land til að tryggja að skólarnir uppfylli lagalegar skyldur sínar. Ef áhugi, vilji og jákvæð viðhorf fræðsluyfirvalda, stjórnenda og starfsfólks til kynjajafnréttis eru til staðar komast jafnréttismálin á dagskrá. Setjum jafnréttismenntun á oddinn og í þann farveg sem lög og skólanámsskrá kveða á um!

 

[1] Sambærilegar skyldur er að finna í reglugerð 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum (www.vinnueftirlit.is)