Það læra börnin sem fyrir þeim er haftÞrátt fyrir að hér á landi hafa lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verið í gildi í rúm þrjátíu ár þá er enn langt í land hvað raunverulegt jafnrétti varðar. Jafnrétti kynjanna þýðir að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil og taki þátt í opinberu- og einkalífi í jöfnum hlutföllum. Við vitum öll að veruleikinn er ekki þannig. Verulega hallar á konur þegar kemur til dæmis að stjórnmálaþátttöku, stjórnarsetu og forystu í stofnunum og fyrirtækjum. Í umönnunar- og uppeldisstörfum hallar hins vegar á karla.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Rannsókn sem félags- og tryggingamálaráðuneytið lét gera á síðasta ári sýnir að kynbundinn launamunur, ekki hvað síst á landsbyggðinni er sláandi. Það að karlar á landsbyggðinni skuli mælast með 38% hærri heildarlaun er konur er ekki hvetjandi fyrir ungar konur að leita starfa og starfsframa á landsbyggðinni. Í þessari sömu launakönnun kemur líka fram að konur óska sér að jafnaði 80% af þeim launum sem karlar óska sér. Hvers vegna meta konur sig minna en karlar?
Ef raunverulegt jafnrétti á að nást þarf hugarfarsbreytingu og henni náum við ekki nema með því að fræða börn og unglinga um jafnréttismál. Þar gegnir skólinn mikilvægu hlutverki.
Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 23. gr. Menntun og skólastarf er kveðið á um að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem meðal annars skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Sambærileg málsgrein er í 24. gr. nýju grunnskólalaganna, en ekki eru jafn ítarleg ákvæði í lögum um leik- og framhaldsskóla.
Rannsóknir sýna að kynbundið náms- og starfsval er ekki á undanhaldi og fordómar samfélagsins og lág laun koma í veg fyrir að karlar sæki í hefðbundin kvennastörf. Einn sterkasti áhrifavaldurinn þegar kemur að launamun kynjanna er einmitt kynjaskipting vinnumarkaðarins. Einnig má nefna að svo virðist sem yngri kynslóðir hafi almennt neikvæðara viðhorf til jafnréttis en þær sem eldri eru sérstaklega þegar kemur að verkaskiptingu á heimilinu.
Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum miðar að því að auka og efla jafnréttisfræðslu í leikskólum og grunnskólum landsins. Að verkefninu standa Jafnréttisstofa, félags- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Akureyrarbær, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Hafnarfjörður. Menntamálaráðuneytið styður verkefnið og leggur framkvæmd þess lið ásamt Jafnréttisráði og fjölmörgum styrktaraðilum.
Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar heimasíða sem á að vera aðgengilegur gagnabanki fyrir alla þá sem vilja fræðast og fræða um jafnréttisfræðslu og jafnrétti í skólastarfi. Síðuna má finna á slóðinni www.jafnrettiiskolum.is og hins vegar tilraunaverkefni á sviði jafnréttismála. Þátttökusveitarfélögin fimm tilnefndu öll einn leikskóla og einn grunnskóla til að sinna tilraunaverkefnum á sviði jafnréttismála skólaárið 2008 2009. Þann 26. maí síðast liðinn kynntu fulltrúar skólanna jafnréttisverkefnin á námsstefnu sem haldin var í Salnum í Kópavogi. Verkefnin eiga að geta nýst öðrum skólum til að efla jafnréttisstarf og jafnréttisfræðslu.
Verkefni skólanna eru margvísleg. Má þar meðal annars nefna heimspekisamræður með leikskólabörnum um jafnrétti kynjanna á grundvelli barnabókarinnar Þegar Rósa var Ragnar / Þegar Friðrik var Fríða. Jafnrétti kynjanna frá landnámi til vorra daga þar sem jafnréttisvitund barnanna er efld í gegnum sögukennslu. Og eitt verkefnið gekk út á að tryggja aðgengi allra foreldra að upplýsingum í leikskólanum óháð kyni.
Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum hefur fært okkur dýrmæta reynslu. Helstu hindranirnar sem kennararnir upplifðu var skortur á tíma og peningum og vöntun á kynjafræðiþekkingu. Þrátt fyrir þessar hindranir unnu þessir sömu kennarar gríðarlega gott jafnréttisstarf í sínum skólum. Kennararnir segjast núna vera meðvitaðri um jafnrétti kynjanna og mikilvægi jafnréttisstarfs í skólum.
Forsenda markvissrar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum eru vel menntaðir kennarar á sviði jafnréttis og kynjafræði. Að jafnaði hafa ekki verið sérstök námskeið í kynjafræði í kennaranáminu, þótt sums staðar hafi verið hægt að sækja valnámskeið á þessu sviði. Líklegt er að þetta valdi því að hægt gengur að samþætta kynjasjónarmið við stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi. Ein afurð verkefnisins verður námskeið og / eða starfsdagspakki fyrir starfandi kennara sem Jafnréttisstofa mun bjóða upp á frá og með næsta hausti.
Lögin eru skýr. Á öllum skólastigum á að sinna jafnréttisfræðslu. Víða í skólakerfinu er mikið verk að vinna við mótun jafnréttisstefnu í samræmi við lög og opinber markmið. Skólayfirvöld og skólastjórnendur bera ábyrgð á því að farið sé að lögum og jafnréttisstarf og jafnréttisfræðsla sé innleidd í allt skólastarf. Kennarar, nemendur og starfsfólk skólanna, sem tóku þátt í þróunarverkefninu Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum, hefur unnið ómetanlegt og óeigingjarnt brautryðjendastarf hvað jafnréttisfræðslu í skólum varðar. Verkefnin þeirra og reynsla á eftir að nýtast öðrum skólum til góðra verka í jafnréttismálum.