Jafnréttislög í 40 ár

Annáll 2016

Árið sem leið var viðburðaríkt að venju hvað varðar jafnrétti kynjanna. Á árinu lagði Jafnréttisstofa mikla áherslu á innköllun jafnréttisáætlana enda eru þær mikilvægt tæki á vinnumarkaði til að ýta undir kynjajafnrétti. Samkvæmt lögum ber öllum fyrirtækjum, samtökum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri að hafa jafnréttisáætlun. Undanfarin tvö ár hefur verið kallað eftir áætlunum allra sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum, fjármálafyrirtækja og nú síðast allra opinberra stofnana. Einnig hefur verið kallað eftir skýrslum sveitarfélaga um stöðu og þróun jafnréttismála. Jafnframt hefur Jafnréttisstofa lagt áherslu á hvers kyns fræðslu víða um land, fundi og ráðstefnur, ráðgjöf við einstaklinga og fyrirtæki, útgáfu talnaefnis og dagatals o.fl. 

Víkjum þá að viðburðum ársins. Í janúar gaf Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð út dagatal sem helgað var 40 ára afmæli jafnréttislaganna en fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976. Í febrúar bar helst til tíðinda að stofnað var félag kvenna í vísindum en rannsóknir hafa sýnt að nokkuð hallar á konur hvað varðar styrkveitingar til rannsókna o.fl.

Alþjóðlegur baráttu dagur kvenna

Í mars var haldið upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars og var það í 105. skipti sem minnt var á réttindabaráttu kvenna um allan heim. Þennan dag var haldinn fundur á Akureyri um „Uppeldi barna í anda jafnréttis“ í samvinnu Zontaklúbbanna í bænum og Jafnréttisstofu. Í Reykjavík var haldinn fundur undir yfirskriftinni „Örugg í vinnunni“ þar sem fjallað var um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að mjög mikið er um slíka áreitni ekki síst í veitingahúsageiranum og reyndar víðar. Í tengslum við fundinn var gefinn út fræðslubæklingur um kynbundna og kynferðislega áreitni sem hægt er að nálgast á netinu. Þennan dag var einnig haldinn fyrirlestur um stöðu kvenna innan Alþýðusambands Íslands en sambandið hélt upp á 100 ára afmæli sitt á árinu. Í mars gaf Jafnréttisstofa í samvinnu við Hagstofuna út bæklinginn „Konur og karlar 2016“, bæði á íslensku og ensku. Þessi bæklingur hefur verið gefinn út í níu ár, jafnan í tengslum við fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Istanbúlsamningurinn

Í apríl efndu Mannréttindaskrifstofa Íslands og Jafnréttisstofa til málþings um Istanbúlsamninginn og ýmislegt honum tengt. Istanbúlsamningurinn er samningur Evrópuráðsins um baráttu gegn ofbeldi sem konur eru beittar og heimilisofbeldi. Á málþinginu var m.a. flutt erindi um hatursorðræðu á netinu en afar erfitt er að draga netdólga fyrir dóm því síðurnar sem þeir nota eru yfirleitt vistaðar í fjarlægum löndum, t.d. Panama. Lög, t.d. hér á landi, ná ekki til fyrirtækja í öðrum löndum (nema að sérstakir samningar komi til) og því er víða til umræðu hvernig hægt er að koma lögum yfir netglæpi. Því miður hefur dregist að Ísland fullgildi Istanbúlsamninginn sem var undirritaður í maí 2011. Vonandi rætist fljótt úr því. Þessi samningur verður mjög mikilvægt tæki í baráttunni við kynbundið ofbeldi.

Jafnréttismál í sveitarfélögum

Í apríl boðuðu Samband íslenskra sveitarfélaga og Jafnréttisstofa til málþings og námskeiðs um jafnréttismál í sveitarfélögum landsins. Tveir sérfræðingar frá Svíþjóð fjölluðu um kynjasamþættingu og tóku dæmi af verkefnum sem unnin hafa verið þar í landi, t.d. greiningum á útivistarsvæðum, tómstundastarfi, almenningssamgöngum o.fl. Mikið er til af efni um kynjasamþættingu í Svíþjóð og má margt af því læra.

Jafnréttislög í fjörutíu ár

Í maí var komið að afmæli jafnréttislaganna en þau voru samþykkt 18 maí 1976. Þessi lög voru sett í kjölfar fyrstu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Mexíkó 1975 en þar var skorað á ríkisstjórnir að setja slík lög. Jafnréttislögin hafa verið endurskoðuð margsinnis, síðast árið 2008.  Í júní var að vanda haldið upp á kvenréttindadaginn 19. júní með kvennasögugöngu á Akureyri. Að þessu sinni var gengið um Brekkuna og kom í ljós að þar var að finna margar merkilegar sögur af konum. Í Reykjavík var í fyrsta sinn tilkynnt um úthlutanir úr nýjum Jafnréttissjóði en hann fær 100 millj. kr. í fimm ár. Sjóðurinn er sannarlega góð búbót fyrir kynjarannsóknir og ýmis verkefni sem unnið er að. Jafnréttisstofa fékk þriggja milljóna króna styrk til verkefnis um kynskiptan vinnumarkað og staðalmyndir kynjanna. Í júní var haldinn fundur á Akureyri til að kynna starf stýrihóps um aðgerðir gegn ofbeldi og til að leita samráðs við heimamenn. Hópurinn vinnur að aðgerðaáætlun gegn ofbeldi á breiðum grundvelli. Síðar á árinu voru haldnir fundir á Egilsstöðum, Stykkishólmi og á Blönduósi. Á nýju ári verður haldið áfram að funda utan höfuðborgarsvæðisins. Þessir fundir sem margir aðilar hafa komið að hafa verið mjög fróðlegir og ljóst að víða þarf að taka til hendi í baráttunni við ofbeldið ekki síst ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisofbeldi.

Námskrá fyrir þá sem fræða um jafnréttismál

Í júní lauk verkefninu „Train the trainer in Gender Equality“ sem Jafnréttisstofa hefur tekið þátt í ásamt jafnréttisskrifstofunni í Niederösterreich (héraðið umhverfis Vínarborg) og félagasamtökum frá Króatíu og Litháen. Verkefnið gekk út á að semja nýja námskrá fyrir þá sem fræða, t.d. opinbera starfsmenn, um jafnréttismál. Því lauk með stórri ráðstefnu í St. Pölten sem er höfuðborg héraðsins Niederösterreich. Í ágúst kom svo námsskráin út á ensku og má finna hana á vef Jafnréttisstofu.

Landsfundur og ofbeldi

Júlí er sumarleyfismánuður en í ágúst hófst vinna að nýju, m.a. með jafnréttisnámskeiðum fyrir kennara. Í september samþykkti Alþingi nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Í henni er að finna 21 verkefni sem snerta svið eins og stjórnsýsluna, vinnumarkaðinn, kyn og lýðræði, kynbundið ofbeldi, jafnrétti í skólastarfi, karla og jafnrétti og loks alþjóðastarf. Í september brá jafnréttisstýran undir sig betri fætinum og hélt til Krítar ásamt þeim Öldu Hrönn Jóhannsdóttur og Halldóru Gunnarsdóttur til að fræða fólk þar um baráttu gegn ofbeldi. Þetta var afar fróðleg ferð.  Grikkir eiga við mikinn vanda að stríða, bæði vegna lélegs efnahags og vegna mikils flóttamannastraums. Slíku fylgir gjarnan vaxandi ofbeldi. Um miðjan september var boðað til landsfundar sveitarfélaga um jafnréttismál á Akureyri og jafnframt var haldin afmælisráðstefna Jafnréttisstofu sem helguð var 40 ára afmæli jafnréttislaganna. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Stundin er runnin upp“ eða með öðrum orðum, það er ekki eftir neinu að bíða hvað varðar aðgerðir til að tryggja jafnrétti kynjanna. Bæði ráðstefnan og landsfundurinn voru afar vel sótt og umræður fjörugar, vekjandi og málefnalegar.

Launajafnrétti strax

Október er að jafnaði mikill jafnréttismánuður og það brást ekki árið 2016. Boðað hafði verið til alþingiskosninga 29. október og fannst kvennahreyfingum landsins kjörið að minna rækilega á launamisréttið á kvennafrídaginn 24. október. Ný könnun VR sýndi að launamunurinn var óbreyttur 14,2% meðal þeirra félagsmanna og að það yrði ekki fyrr en 2042 sem launajafnrétti kæmist á með sama áframhaldi. Boðað var til funda um allt land og var sérlega glæsilegur útifundur í Reykjavík sem sendi skýr skilaboð til frambjóðenda til Alþingis sem og landsmanna allra. Á Akureyri boðuðu Jafnréttisstofa og Akureyrarbær til fundar undir yfirskriftinni „Launajafnrétti strax“ og var m.a. útvarpað beint frá fundinum í hádegisfréttum RÚV. Fleiri fundir voru haldnir þennan dag og Jafnréttisráð afhenti fjölmiðlaverðlaun. Nokkrum dögum síðar kom sú frétt að enn eitt árið væri Ísland efst á lista World Economic Forum um kynjajafnrétti sem þýðir að samkvæmt mælingu þessara samtaka er kynjabilið minnst á Íslandi áttunda árið í röð.

Konur aldrei fleiri á Alþingi

Kosningar til Alþingis fóru fram 29. október og urðu þau tíðindi að kynjabilið minnkaði verulega á hinu háa Alþingi. Konur urðu 47,8% þingmanna og hafa aldrei verið fleiri.  Í byrjun nóvember opnaði Kvenréttindafélag Íslands nýja vefgátt á ensku um jafnréttismál og eru upplýsingarnar m.a. ætlaðar fjölmiðlafólki, fræðafólki og öðrum áhugasömum. Þann 25. nóvember hófst árlegt 16 daga alþjóðlegt átak Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Að venju stóð Jafnréttisstofa fyrir viðburðum. Þórunn Elísabet Bogadóttir flutti erindi um ábyrgð fjölmiðla þegar kemur að kynferðisbrotamálum og María Rún Kristinsdóttir kynnti þá vinnu sem fram fer í innanríkisráðuneytinu við að bæta meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Átakinu lauk á mannréttindadaginn 10. desember.

Viðburðaríkt ár

Það var því margt á dagskrá árið 2016. Nú er nýtt ár gengið í garð með nýrri ríkisstjórn og nýjum ráðherra jafnréttismála. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvaða skref verða stigin í jafnréttismálum á næstunni. Það er brýnt að við sækjum fram, höldum stöðu okkar meðal hinna skástu og nýtum þekkingu okkar til að miðla og styðja þær þjóðir sem verr búa. Þar er af nógu að taka allt frá þeim löndum Evrópu þar sem ríkisstjórnir þrengja að réttindum kvenna og minnihlutahópa, til stríðshrjáðra landa þar sem ofbeldið er yfirþyrmandi. Að lokum þakka ég starfsfólki Jafnréttisstofu fyrir vel unnin störf og samstarfsfólki okkar um land allt fyrir góðar umræður, ráðstefnur, fundi, vinnu og spjall. Í lok ársins lét Anna Hallgrímsdóttir af störfum sem rekstrarstjóri en hún hóf störf á Jafnréttisstofu árið 2000 þegar stofan tók til starfa. Við sem vinnum á Jafnréttisstofu óskum henni gæfu og gengis í framtíðinni og þökkum henni samstarfið þau ár sem við höfum verið hér.  Megi nýja árið gefa okkur öllum góðan byr og aukið jafnrétti fyrir alla.

Kristín Ástgeirsdóttir