Er launamunur kynjanna náttúrulögmál?Fjörutíu ár eru síðan lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976 voru samþykkt frá Alþingi. Þar segir: „Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla.“ Þessi texti er í samræmi við 65 gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Því er spurt hvað er jafnrétti kynja? Getum við 40 árum síðar sagt að konur og karlar á Íslandi hafi jafna stöðu í samfélaginu? Merkti jöfn staða eða jafnrétti eitthvað annað fyrir 40 árum en núna?Fjörutíu ár eru síðan lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976 voru samþykkt frá Alþingi. Þar segir: „Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla.“ Þessi texti er í samræmi við 65 gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Því er spurt hvað er jafnrétti kynja? Getum við 40 árum síðar sagt að konur og karlar á Íslandi hafi jafna stöðu í samfélaginu? Merkti jöfn staða eða jafnrétti eitthvað annað fyrir 40 árum en núna?
Frá því umrædd lög voru sett fram hafa komið aðrir lagatextar um sama efni og nú gilda lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Þar segir: „Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.“ Í 18. gr. laganna segir: „Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.“
Við sem skrifum þessa grein komum úr jarðvegi stéttarfélaga og okkur þykir við hæfi að fjalla um þau mál er varða jafna stöðu kvenna og karla í samfélagi okkar á þessum tímamótum. Er það þannig í raun að konum og körlum bjóðist jöfn tækifæri í samfélagi okkar? Eru sambærileg laun fyrir sömu vinnu? Eru ævitekjur sambærilegar? Einhverjir vilja svara því til að kynin séu ólík og vart raunhæft að ná fram neinum samanburði af viti. Er það virkilega svo? Hvað var átt við þegar stjórnarskráin var skrifuð og jafn réttur kynjanna samþykktur?
Þegar jafnréttismál ber á góma er oft stutt í umræðu um barnauppeldi og samvistir við þau. Við viljum gjarnan að foreldrar taki jafna ábyrgð á uppeldi barna og heimilisstörfum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var meðalfjöldi unninna klukkustunda í maí 2016 44,4 hjá körlum en 37,3 hjá konum. Þessar tölur endurspegla annan veruleika en þann sem við sjáum fyrir okkur. Það er styttra en margir halda síðan menntun stóð bæði konum og körlum til boða á Íslandi. Nú þykir það sjálfsagt.
Köllum eftir aðgerðum
Það er staðreynd að ómenntaðar konur hafa að jafnaði síðri tekjumöguleika en ómenntaðir karlar og er það væntanlega ein skýring þess að fleiri konur en karlar sækja sér háskólamenntun. Kjarakannanir BHM og Aðgerðahóps um launajafnrétti varðandi launamun karla og kvenna frá 2015 staðfesta að háskólamenntaðar konur hafa að jafnaði síðri tekjumöguleika en háskólamenntaðir karlar. Þarna er talað um kynbundinn launamun sem vísbendingar eru um að fari aftur vaxandi á Íslandi. Launamunurinn jafngildir því að konur vinni frítt einn mánuð á ári.
Er launamunur kynjanna náttúrulögmál eða getum við upprætt hann? Við getum tekist á um aðferðafræði kannana og orsakir vandans en staðreyndin er hins vegar sú að einhver skekkja er innbyggð í samfélagið og hana þarf að laga. Við köllum því eftir markvissum aðgerðum sem skila árangri en ekki einungis fleiri rannsóknum á stöðu mála. Innleiða þarf Jafnlaunastaðalinn á sem flesta vinnustaði, endurreisa fæðingarorlofskerfið til að tryggja þátttöku beggja kynja í umönnun barna, gefa ungmennum tækifæri á að velja sér starfsvettvang óháð staðalmyndum kynjanna, uppræta launamun kynjanna og þannig munu allir njóta þeirra réttinda sem hin 40 ára löggjöf lofar okkur.
Greinin er fyrsta greinin af þremur um jafnréttismál.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 14. september 2016.
Höfundar eru: Alda Hrönn Jóhannsdóttir formaður Stéttarfélags lögfræðinga Bragi Skúlason formaður Fræðagarðs Hugrún R. Hjaltadóttir formaður Félags íslenskra félagsvísindamanna Ragnheiður Bóasdóttir formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins Sigrún Guðnadóttir formaður Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga.