- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þegar ný kynjajafnréttislög voru sett á Alþingi snemma sumars árið 2000 var jafnframt samþykkt að setja á laggirnar sérstaka ríkisstofnun, Jafnréttisstofu, sem hefði eftirlit með framkvæmd laganna og sæi m.a. um fræðslu og veitti ráðgjöf um jafnréttismál. Stofnunin tók formlega til starfa 15. september það ár og heyrði undir félagsmálaráðuneytið.
Meginmarkmið laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 hefur haldist óbreytt þrátt fyrir lagabreytingar árið 2008, en það er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni Jafnréttisstofu hafa því tekið mið af þessu markmiði.
Á tuttugu árum verða eðlilega töluverðar samfélagsbreytingar og það á svo sannarlega við um jafnréttismál. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að staða Íslands í alþjóðlegum samanburði í jafnréttismálum er góð á mörgum sviðum. Þar spilar inn í aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum, mikil atvinnuþátttaka kvenna sem og almennur og jafn aðgangur kynjanna að heilbrigðisþjónustu og menntun. Enn er þó ýmislegt óunnið, t.a.m. sem snertir kynbundið náms- og starfsval, staðalímyndir, kynbundið ofbeldi og launajafnrétti.
Haustið 2018 bættust tvenn ný lög við íslenska jafnréttislöggjöf. Þetta eru annars vegar lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og hins vegar lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018. Þar með jókst hlutverk Jafnréttisstofu sem nú hefur einnig eftirlits-, fræðslu- og ráðgjafarhlutverk í samræmi við gildissvið laganna. Um svipað leyti færðist stofnunin undir forsætisráðuneytið.
Síðastliðið ár hefur staðið yfir umfangsmikil vinna við endurskoðun kynjajafnréttislaga og gera má ráð fyrir að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi í vetur. Þau drög sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda í sumar gera ráð fyrir nýjum verkefnum hjá Jafnréttisstofu sem fyrst og fremst tengjast jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Þá er jafnframt gert ráð fyrir sérstökum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.
Framundan eru því fjölbreytt og spennandi verkefni og ljóst er að ekki má slaka á kröfunum um að farið sé eftir þeim ákvæðum sem jafnréttislög setja jafnt opinberum aðilum, einkafyrirtækjum sem einstaklingum. Ábyrgðin er mikil og ávinningurinn eftir því.