Áfram stelpur standa á fætur, slítum allar gamlar rætur, þúsund ára kvennakúgunar." Við þennan og fleiri baráttusöngva kvennabaráttunnar ólst heil kynslóð upp. Baráttuandi var í lofti, konur lögðu niður störf og fylktu liði út á götur til að sýna mikilvægi sitt í samfélaginu. Mikilvægi sem öllum ætti að vera ljóst án beinna aðgerða.
Þrjátíu og fimm árum síðar hafði samfélagið náð þeim árangri að konur lögðu niður störf 25 mínútum síðar, þar sem út frá launum metið höfðu þær tosast upp um einhver störf miðað við karlana.
Óskiljanlegt er að jafn miklum tíma, krafti og peningum þurfi að eyða í jafnréttismál og raun ber vitni. Enn óskiljanlegra er að það skuli ekki bera meiri árangur. Kynbundinn launamunur eykst, konur eru enn mun færri í ábyrgðarstöðum og væntingar ungra stúlkna til framtíðarinnar mótast æ meira af því samfélagi sem þær lifa í; þær eiga að halda kjafti og vera sætar.
Fjölmiðlar bera gríðarlega ábyrgð í þessum efnum. Í fyrra voru konur 28 prósent viðmælenda í fjölmiðlum. Hefðbundin afsökun er að erfiðara sé að ná í konur til viðtals en karla, og vel má vera að svo sé, en setur það þá ekki einfaldlega aukna ábyrgð á herðar fjölmiðlamönnum? Jafnt þess sem hér skrifar og annarra. Er það virkilega óeðlileg krafa og tilefni varnarbaráttu fjölmiðlamanna að þeir endurspegli samfélagið allt?
Það er einfaldlega ekki boðlegt að annar helmingur þjóðarinnar sitji ekki við sama borð og hinn. Verra er þó að þeirri skoðun virðist vera að vaxa fiskur um hrygg að ekki megi grípa til sértækra aðgerða til að taka á því vandamáli. Hugtakið öfgafemínismi hefur skotið upp kollinum, líkt og það sé hægt að vilja öfgajafnrétti. Annaðhvort aðhyllist fólk jafnrétti eða ekki, flóknara er það nú ekki. Kynjakvótar eru úthrópaðir sem mismunun, sem og aðrar þær aðgerðir sem eiga beinlínis að auka hlut kvenna. Og já, á kostnað karla. Öðruvísi verður ekki leiðrétt. Bætt kjör verkafólks á síðustu öld þýddu minni auð atvinnurekanda. Eðlilega.
Kúgun þúsunda ára gufar ekki upp af sjálfu sér, alveg sama hvað menn treysta á hæfileika einstaklinga. Til þarf samstillt átak fólks sem þorir og einhverjir verða að sætta sig við breyttar forsendur.
Vandamálið er kannski fyrst og fremst hvað karlar eru frekir til fjörsins og leyfa sér að taka þátt í samfélagi sem kúgar. Því þarf að breyta.