- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kynbundin verkaskipting er fyrir hendi í öllum samfélögum heims og alls staðar er hún ein af grundvallarskiptingum þjóðfélagsins sem markar bæði konum og körlum stöðu í lífi og starfi. Lengi vel var það hlutverk karla að vera fyrirvinnur fjölskyldunnar og hlutverk kvenna að hugsa um börn og bú.
Þau viðhorf voru ríkjandi að giftar konur ættu ekki að stunda launavinnu nema brýna nauðsyn bæri til. Tekjur eiginmanns áttu að duga til framfærslu fjölskyldunnar. ... Hjónabandið var hið eiginlega takmark sem konur stefndu að og langflestar litu sjálfar á heimilisstörf og barnaumönnun sem lífsstarf giftra kvenna (Sigríður Th. Erlendsdóttir, Veröld sem ég vil).
Fleiri konur eru nú útivinnandi en nokkurn tímann fyrr og er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna með því mesta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Á sama hátt eru karlar í auknum mæli að axla ábyrgð á heimili og börnum. Fæðingarorlof íslenskra feðra var mikið framfaraspor í jafnréttisbaráttunni en það veitti feðrum aukin réttindi til að taka þátt í uppeldi og umönnun barna sinna. En betur má ef duga skal, ennþá er töluvert í land hvað varðar kynbundinn launamun, viðhorf samfélagsins og staðalmyndir kynjanna svo eitthvað sé nefnt.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Háskólann á Akureyri bendir á að það þyki karlmennska að hafa há laun og örugglega hærri en makinn ef karlinn er í sambúð. Slíkar hugmyndir segir hann viðhalda launamun og því sem nefna mætti fyrirvinnuþrældóm og karlmönnum er alls ekki leyfilegt að kvarta undan. Karlmenn geta því setið fastir í fyrirvinnugildru.
Í nútíma samfélagi er mikilvægt að einstaklingurinn sé virkur í þróun eigin starfsferils og þar gegnir endur- og símenntun mikilvægu hlutverki. Þegar kemur að þessum þætti virðast karlarnir sofa á verðinum og eru konur mun duglegri að bæta við sig námi og / eða sinna endur- og símenntun.
Fólk sem komið er á miðjan aldur hefur flest stofnað fjölskyldu og upplifir þá stöðu oft sem hindrun í námi. Rannsóknir á fólki sem fer aftur í skóla hafa aðallega beinst að konum og því álagi sem fylgir því að samræma nám og fjölskyldulíf. En hvað með karla? Hvernig stendur á því að þeir fara síður í nám en konur?
Síðastliðið haust gerði ég litla rannsókn þar sem ég skoðaði reynslu fullorðinna karlmanna varðandi nám á fullorðinsárum. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á þær hindranir sem karlmenn á miðjum aldri upplifa varðandi nám á fullorðinsárum. Rannsóknarspurningin sem ég lagði upp með var: Hver er reynsla fullorðinna karlmanna varðandi nám á fullorðinsárum?
Megin niðurstaða rannsóknarinnar er að karlmennska kostar og jafnréttisbaráttan er ekkert einkamál kvenna. Ytri áhrifaþættir eins og uppbygging menntastofnanna, kynbundinn launamunur, fyrirmyndir og viðhorf samfélagsins koma í veg fyrir að karlmenn á miðjum aldri fari í nám. Einnig spila innri áhrifaþættir þarna með eins og lesblinda, lítið sjálfstraust og hræðsla viðmælenda við að fara aftur í skóla. Hins vegar eru ýmsir hvatar sem hægt væri að vinna með hjá einstaklingunum og stuðla þannig að aukinni þátttöku karla á miðjum aldri í endur- og símenntun.
Mig langar hér að draga sérstaklega fram tvo ytri áhrifaþætti, kynbundinn launamun og viðhorf samfélagsins. Kynbundinn launamunur er samfélaginu dýrkeyptur og bitnar bæði á körlum og konum. Ein birtingamynd launamisréttisins kemur fram í því að karlmenn á miðjum aldri fara síður í nám en konur. Þeir eru fastir í fyrirvinnuhlutverkinu og geta því ekki leyft sér að að sinna endur- og símenntun að sama skapi og konur.
... það eitthvað gengur ekki upp að konan fari út á vinnumarkaðinn og hérna fari að vinna fyrir heimilinu, hún bara hefur ekki þá tekjumöguleika ... menn eru bara í þeirri stöðu, karlmaðurinn þarf að vinna því hann hefur hærri tekjur (tilvitnun í viðmælanda úr rannsókninni).
Þennan launamun þarf að leiðrétta og um leið að vinna gegn hefðbundum staðalmyndum kynjanna. Viðhorf samfélagsins til miðaldra karlmanna og náms eru körlum ekki hagstæð. Meirihluti þeirra sem bæta við sig menntun á miðjum aldri eru konur og þar vantar körlum fyrirmyndir. Sérstakt átak þarf til að hvetja karlmenn á miðjum aldri til að fara aftur í nám og / eða sinna endur- og símenntun.
Launamunur kynjanna kemur niður á körlum sem segir okkur að jafnrétti kynjanna er ekkert einkamál kvenna. Jafnréttisbaráttan þarf líka að beina sjónum sínum að körlum og hvernig gjald karlmennskunnar getur dregið úr lífsgæðum þeirra. Ástæða er til að vekja karlmenn til meðvitundar um að jafnrétti kynjanna er líka í þeirra þágu.
Þetta er lítil rannsókn og niðurstöður hennar eru einungis vísbendingar um hvaða þættir það eru sem koma í veg fyrir að karlmenn á miðjum aldri fari í nám. Frekari rannsókna er þörf til stuðnings og staðfestingar á þessum niðurstöðum.