Konur í Evrópu og umheiminum

Ruth Rubio-Marín skrifar

Konur í Evrópu og umheiminum

Inngangsræða Ruth Rubio-Marín prófessorsTextinn er þýðing á ritaðri útgáfu af inngangsræðu á ráðstefnu European University Institute State of the Union” sem flutt var í Palazzo Vecchio í Flórens á Ítalíu þann 6. maí 2016. Þýðingu á íslensku annaðist Ingunn Sigríður Árnadóttir, meistaranemi í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands. Til þess að nálgast frumtextann í heild sinni ásamt heimildatilvísunum vísast til: Ruth Rubio-Marin, „Women in Europe and in the World: The State of the Union 2016“, 14 I.CON (2016).


European University Institute -The State of the Union 2016

Konur í Evrópu og umheiminum (Women in Europe and in the World)

Inngangsræða Ruth Rubio-Marín prófessors

European University Institute

Palazzo Vecchio, Flórens, 6. maí 2016

1. Inngangur

Kæru gestir, samstarfsfólk, virðulegu embættismenn og vinir, háttvirtu mæður, þar með taldar þær sem ekki eru með okkur en eiga engu að síður þakkir skildar fyrir tilvist okkar allra sem erum saman komin hér í dag, og þeir feður sem sinnt hafa þeim störfum sem mæður sinna að jafnaði, þar með talin mín eigin móðir sem er með okkur hér í dag ásamt börnum mínum Simon og Lucas. Það er mér mikill heiður að standa hér í ‘Salone del Cinquecento’, „Sal hinna fimm hundruða“, sem eitt sinn var fundarstaður Æðsta ráðs Flórenslýðveldisins (e. Grand Council of the Florentine Republic), þar sem allir 500 meðlimirnir voru karlar! Það er mér heiður að vera í hópi þess fjölda karla og kvenna sem í dag munu ræða um stöðu kvenna í Evrópu og annars staðar í heiminum.

***

Góðir áheyrendur!

Evrópa stendur í ströngu og tekst nú á við djúpstæðari og flóknari vanda en hún hefur gert frá stofnun Evrópusambandsins fyrir rúmlega 60 árum, sem fyrirbæris af efnhagslegum, stjórnmálalegum og félagslegum toga. Evrópa er að ganga í gegnum langvarandi efnahagskreppu sem hefur haft alvarleg samfélagsleg áhrif. Evrópa stendur frammi fyrir vaxandi hættu af hryðjuverkum, stigvaxandi lýðskrumi, þjóðernisstefnu sem rekin er áfram af útlendingahatri og ýmiss konar öfga- og bókstafstrú. Hættan á úrsögn Grikkja úr Evrópusambandinu er enn til staðar á sama tíma og brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu vofir yfir, hvort tveggja birtingarmynd vaxandi vonbrigða með Evrópusamstarfið. Þúsundir flóttamanna drukkna í höfunum í kringum okkur, á sama tíma og þúsundir annarra – yfir milljón manns – banka á dyr okkar og er neitað um þá mannúð og reisn sem við þó vitum að þau eiga skilið og eiga reyndar beinlínis rétt á. Við vitum það m.a. vegna þess hversu mörg forfeðra okkar og –mæðra bönkuðu á áþekkar dyr þegar þau stóðu frammi fyrir skelfingum ofsókna, stríðs og annarra afla sem ógnuðu lífi þeirra og vegna þess að fyrir ekki svo löngu síðan og í alltof mörgum tilfellum, tilheyrðum við sjálf þessum hættulegu öflum. Nú kann sú spurning að vakna meðal ykkar hvaða máli „Staða Sambandsins helguð konum“ skipti í þessu samhengi?

Á móti þá spyr ég: er einhvern tímann staður og stund til að ræða málefni og stöðu kvenna? Ef við ferðumst um það bil hundrað ár aftur í tímann þegar baráttan fyrir kosningarétti kvenna fór fram víða um Evrópu þá er auðfundinn fjöldinn allur af dæmum um hvernig konur voru beðnar um að sýna biðlund með því göfuglyndi og sjálfsfórn sem svo oft er búist við af þeim, í þágu annarra „mikilvægari“ eða „brýnni“ málefna, sem barist var fyrir í nafni frelsis og jafnréttis; stéttabaráttu, þjóðernishreyfinga, styrjalda eða baráttu fyrir því að takmarka völd kirkjunnar og einræðisins. En það sem við viðurkennum núna, en var hafnað þá, er að þátttaka kvenna í þróun lýðræðis í Evrópu var einnig nauðsynlegur liður í jafnrétti og frelsi. Ég held því fram að í dag eins og áður sé trúverðugleiki Evrópu og skuldbinding við félagslegt réttlæti í húfi, á þeim krossgötum sem við stöndum, og að afgerandi þáttur árangurs eða árangursleysis sé einmitt fólgin í því hvernig Evrópa bregst við stöðu kvenna.

En hvað felst eiginlega í spurningunni um stöðu kvenna í Evrópu í dag, nú þegar konur eiga kröfu til sömu réttinda og sama frelsis og karlar, nú þegar við höfum loks afmáð þau smánarlegu og skýru spor feðraveldisins úr réttarkerfum okkar sem í gegnum árin hafa meðhöndlað konur sem ólögráða einstaklinga? Því miður er raunveruleikinn sá í dag að þrátt fyrir að formlegu, lagalegu jafnrétti fyrir konur sé náð er staðreyndin sú að konur í Evrópu, meira en helmingur íbúa álfunnar, eru enn undirokaður hópur. Hvernig má það vera?

Heimspekingurinn Iris Young, sem lést um aldur fram, útskýrði í skrifum sínum hvernig kúgun er fólgin í hverju því kerfi sem dregur úr möguleikum fólks til þess að njóta mennsku sinnar, annað hvort vegna þess að komið er fram við það á ómennskan hátt eða vegna þess að því er neitað um tækifæri til að njóta mannlegra eiginleika sinna til hins ýtrasta, bæði andlega og líkamlega. Munum að kúgun á sér ekki aðeins stað meðal miskunnarlausra harðstjóra með illan ásetning. Kúgun getur einnig birst í vel meinandi frjálslyndum samfélögum þar sem tilteknir hópar búa við kerfislægar hindranir sem takmarka frelsi þeirra, án þess að það sé endilega gert með beinum reglum, heldur ekki síður með innbyggðum gildum, venjum og táknmyndum. Samkvæmt Young hefur kúgun fimm birtingarmyndir, nánar tiltekið: ofbeldi, misnotkun, jaðarsetningu, valdaleysi og menningarlega heimsvaldastefnu.

Dömur mínar og herrar, við getum óskað okkur sjálfum til hamingju (sem er viss þversögn) vegna þess að loksins höfum við undir höndunum rannsóknargögn sem sýna fram á að konur í Evrópu, og sumar bersýnilega í ríkari mæli en aðrar, standa frammi fyrir þessum fimm birtingarmyndum kúgunar sem hluta af hversdagslegri tilveru sinni. Þessum gögnum var safnað saman í umfangsmikilli gagnaöflun sem þróuð hefur verið á síðastliðnum árum. Meðal þessara gagna er fyrsta könnunin á ofbeldi gegn konum sem náði yfir öll ríki Evrópusambandsins og gerð var af Réttindaskrifstofu Evrópusambandsins (e. EU Fundamental Rights Agency) árið 2014, en um er að ræða skýrslu sem byggð var á viðtölum við 42.000 konur í öllum 28 aðildarríkjum ESB. Þar að auki höfum við undir höndum fyrirtaks skýrslu um jafnrétti milli karla og kvenna, sem gefin var út sama ár af framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, sem og skýrslur um kynjajafnréttisstuðulinn (e. Gender Equality Index) frá Evrópustofnun um jafnrétti kynjanna (e. European Institute for Gender Equality), en stofnunin hefur unnið að nákvæmum mælingum á kynjajafnrétti innan Evrópusambandsins og þróun þess á árunum 2005 til 2012 með því að fylgjast með kynjamun á ýmsum sviðum í samræmi við stefnu ESB, þar á meðal hvað viðkemur atvinnu, peningum, þekkingu, tíma, völdum, heilsu, ofbeldi og ýmsum sviðum þar sem ójöfnuður hlýst af fleiri breytum sem skarast.

Með hliðsjón af þessum gögnum mun ég nú útskýra hvers vegna og hvernig kúgun kvenna í Evrópu er haldið við, auk þess sem ég mun draga upp mismunandi framtíðarsýn. Ég mun skoða hvaða áhrif mismunandi sviðsmyndir eða líkön geta haft á sjálfsmynd og sjálfsskilning Evrópu sem tiltekins svæðis, bæði pólitísks og landfræðilegs, sem byggir á lýðræðislegum gildum og jöfnum rétti borgaranna. Þessi grundvallargildi tel ég eigi að vera órofa hluti sjálfs tilveruréttar Evrópusambandsins. Ég vil því byrja á því að skoða hvað þessar upplýsingar segja okkur. Hvernig endurspeglast hinar fimm birtingarmyndir kúgunar kvenna í Evrópu?

II. Birtingarmyndir kúgunar kvenna

Ofbeldi

Fyrsta birtingarmyndin og jafnframt sú versta er ofbeldi.

Ofbeldi gegn innflytjendakonum hefur verið talsvert í sviðsljósinu undanfarið, þar sem beitt er vestrænu sjónarhorni sem felur í sér hugmyndina um „hina konuna“ þar á meðal konur sem eru fórnarlömb mansals í kynferðislegum tilgangi og stúlkur sem hafa þurft að þola umskurð á kynfærum sínum. En Fundamental Rights Agency kaus að fjalla um okkur en ekki þær í skýrslu sinni. Það sem við vitum um okkur er að í dag hefur ein af hverjum þremur konum innan Evrópusambandsins orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi að minnsta kosti einu sinni frá fimmtán ára aldri, sem þýðir að þolendur eru 59,4 milljónir, og þá er gert ráð fyrir að um svipað hlutfall sé að ræða meðal stúlkna undir fimmtán ára aldri. Við vitum líka að einni af hverjum tuttugu konum, eða um það bil níu milljón konum, hefur verið nauðgað að minnsta kosti einu sinni frá fimmtán ára aldri, sem er lífsreynsla sem skilur eftir sig ótta, reiði, skömm, kvíða og minnkandi sjálfstraust. Við vitum að á milli 45 og 55 prósent kvenna í Evrópu hafa upplifað kynferðislega áreitni og að 18 prósent kvenna hafa upplifað einhvers konar áreiti eltihrella, þar sem netáreiti verður æ algengara, sérstaklega meðal yngra fólks. Ég leyfi mér þó að efast um að þessar tölur nái einnig yfir þá tegund ofbeldis sem hefur öðruvísi áhrif á sérstaklega viðkvæma hópa kvenna, þar með taldar innflytjendakonur (en staða þeirra sem innflytjenda leiðir oft til þess að þær verða sérstaklega háðar annað hvort eiginmönnum sínum eða vinnuveitendum sínum, eða báðum), hælisleitendur og flóttakonur (sem í þessum töluðu orðum eru fórnarlömb mansals og verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi opinberra starfsmanna, smyglara og annarra flóttamanna á viðkomusvæðum og móttökumiðstöðvum), eða konur með einhvers konar fötlun (sem vegna stöðu sinnar eru oft jaðarsettar bæði í samfélaginu sem og í lagalegu samhengi).

Það sem er sérstaklega sársaukafullt, dömur mínar og herrar, er sú staðreynd að ein af hverjum fimm konum upplifa líkamlegt og/eða kynferðislegt ofbeldi annað hvort af hendi núverandi eða fyrrverandi maka. Á sama tíma er það ákaflega ógnvekjandi tilhugsun að einungis 14 prósent kvenna tilkynntu alvarlegastu tilfelli ofbeldis af hálfu maka síns eða kærasta til lögreglunnar.

Sama hvað það er kallað þá þykir mér ljóst að milljónir kvenna í Evrópu búa við skelfingu og kúgun á sínum eigin heimilum, í sínum eigin skólum, nágrenni og vinnustöðum.

***

Misneyting og jaðarsetning

Þá snúm við okkur að annarri og þriðju birtingarmynd kúgunar, nánar tiltekið misneytingu og jaðarsetningu.

Um þessar mundir er hlutfall kvenna á vinnumarkaðnum 63,5 prósent og fyrir hverja evru sem karlar þéna fá konur í sama starfi og með sambærilega menntun aðeins 84 sent. Kynbundnum launamun er viðhaldið með þeirri útbreiddu framkvæmd sem felst í skorti á gegnsæi í launamálum hjá hartnær öllum atvinnurekendum. Þó veldur það enn meiri áhyggjum að munur á eftirlaunum milli kynja er 38 prósent og að ein af hverjum þremur konum fær engin eftirlaun yfir höfuð, sem gerir það að verkum að konur sem komnar eru á efri ár, ásamt einstæðum mæðrum, eru í hvað mestri áhættu á að lenda í klóm fátæktar og jaðarsetningar.

Kynskiptur vinnumarkaður heldur konum í láglaunastörfum. Konur á vinnumarkaði eru fjórum sinnum líklegri til þess að vera í hlutastarfi en karlar aðallega í þeim tilgangi að samræma ólaunuð heimilisstörf og launuð störf á vinnumarkaði. Þegar á heildina er litið kemur í ljós að misræmið í tekjum kvenna og karla, sem stafar af lægra tímakaupi, færri klukkustundum í launaðri vinnu og því að konur eru í minnihluta í hálaunastörfum er 37 prósent. Enn fremur má áætla að ástandið sé í reynd enn verra þegar kemur að raunverulegum muni á milli kynjanna þegar litið er til fjárhagsstöðu, þar sem engin gögn er að finna með upplýsingum um mismunandi stöðu kynjanna þegar kemur að annars konar efnahagslegum ávinningi, til að mynda þeim sem hlýst af verðbréfum eða fasteignum.

Karlar á vinnumarkaðnum verja aðeins níu klukkustundum á viku í ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf á meðan konur á vinnumarkaðnum verja að jafnaði 26 klukkustundum á viku í slík störf og axla því ábyrgð á nær þreföldu vinnuálagi borið saman við karlana þegar að heimilisstörfum kemur. Á meðan eru margar innflytjendakonur í láglauna „svörtum störfum“ sem barnfóstrur, ráðskonur eða við umönnun eldri borgara. Þetta gerir konum í hálaunastörfum kleift að fjölga sínum vinnustundum á vinnumarkaði án stuðnings hins opinbera; markaðstengd lausn á umönnun sem gæti virst hagkvæm til styttri tíma litið en er einfaldlega ósjálfbær til lengri tíma litið. Þetta er lausn sem sviptir þau láglaunalönd, þaðan sem innflytjendurnir eiga rætur sínar að rekja, möguleikanum á því að öðlast nokkrar tekjur fyrir að hafa staðið að uppeldi og menntun þessara einstaklinga, umfram frjálsar peningagreiðslur þeirra til heimalandsins (sem oft eru aðeins til skamms tíma) auk þess sem þetta leiðir til þess að vinnuafl til umönnunarstarfa í þessum löndum hverfur á brott.

Fyrir mér er þetta skýrt dæmi um það sem Young kallar misneytingu (e. exploitation), það er að segja sú aðferð að nýta sér vinnukrafta fólks til þess að skapa sér hagnað án sanngjarns endurgjalds og skýrt dæmi um það sem hún álítur felast í jaðarsetningu (e. marginalization): sá verknaður að ýta tiltekum hópi fólks í lakari félagslega stöðu út á jaðar samfélagsins, á stað þar sem einstæðar mæður, Eccelentissime madri, virðast lenda í vaxandi mæli, bæði í Evrópu og annars staðar.

 

***

Valdaleysi

Fjórða birtingarmynd kúgunar er valdaleysi.

Konur eru enn minna en fjórðungur stjórnarmanna í stærstu almenningshlutafélögum aðildarríkjanna þrátt fyrir að þær séu nærri helmingur vinnuaflsins. Í nóvember 2014 voru konur aðeins að meðaltali um 28 prósent kjörinna fulltrúa í þjóðþingum og ríkisstjórnum. Vissar framfarir hafa átt sér stað innan stofnana ESB þrátt fyrir að enn sé langt í land þar til jöfnuði er náð. Hlutfall kvenna í Evrópuþinginu hefur aldrei verið hærra, eða 37 prósent, þó enn vanti 13 prósentustig til þess að jöfnuður náist. Hin nýja framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins samanstendur af 19 körlum og einungis níu konum; aðeins 21 prósent dómara við Evrópudómstólinn eru konur; og í bankaráði Seðlabanka Evrópu sitja 22 karlar en einungis tvær konur.

Það er deginum ljósara að hlutfall þeirra kvenna sem hafa náð að brjóta sér leið í gegnum glerþakið og náð að halda velli innan yfirráðasvæðis, valds þeirra og ákvarðanatöku er talsvert lægra ef litið er til láglaunakvenna eða innflytjendakvenna.

***

Menningarleg heimsvaldastefna

Að lokum er það menningarleg heimsvaldastefna.

Við rætur kynjamisréttisins liggur hugmyndafræði karlveldisins, sem stjórnmálafræðingurinn Nancy Fraser skilgreinir sem kerfisbundið mynstur menningarlegra gilda sem upphefur þá þætti sem tengdir eru karlmennsku en dregur niður þá þætti sem tengdir eru kvenleika. Þessi menningarlegu mynstur birtast á mörgum sviðum réttarins, í stefnu stjórnvalda, en einnig í dægurmenningu, notkun tungumálsins og í hversdagslegum samskiptum, þar á meðal á markaði. Eða er það einungis tilviljun að allajafna er það svo að störf kvenna (fyrir utan að vera lægst launuðu störfin) eru líklegri til þess að tengjast umönnun, störf sem þó fela í sér mikla erfiðisvinnu og hafa ekki í för með sér mikla möguleika til framleiðniaukningar? Staðreyndin er sú, dömur mínar og herrar, að samfélagslegt gildi umönnunarstarfa, sem eru algjörlega nauðsynleg til að viðhalda hagkerfinu og markaðssamfélaginu, Eccellentissime madri, er ekki metið að verðleikum. Við höfum búið lengi við stigskipta tvíhyggju á milli framleiðslustarfa annars vegar og heimilis- og umönnunarstarfa hins vegar; og eins og Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz hefur bent á er fullkominn skortur á nokkurs konar samsvörun á milli hagnaðar einstaklingsins og endurgjalds til samfélagsins. Það eru félagsleg viðmið en ekki einhvers konar skýr hugmynd um hámarks framleiðni sem ákvarða laun. Takið til hugleiðingar dæmið sem höfundarnir Perrons og Plomien hafa bent á; um framkvæmdastjóra fallins banka í Bretlandi sem starfaði þó áfram í bankanum til þess að ráðleggja um enduruppbyggingu bankans og naut mánaðarlauna sem námu þremur og hálfum árslaunum starfsmanns við umönnun barna með tuttugu ára starfsreynslu.

***

Engu að síður er ljóst að hið karlmiðaða samfélag er ekki eina birtingarmynd menningarlegrar heimsvaldastefnu sem konur í Evrópu standa frammi fyrir. Gagnkynhneigt forræði (e. heteronormativity) og heimsvaldastefna sem er í senn trúarlegs og þjóðernislegs eðlis eiga einnig þátt í því að móta líf kvenna í Evrópu: Spyrjið samkynhneigða konu sem vill geta tjáð sig óhindrað um tilfinningar sínar og óskir sínar varðandi fjölskyldulíf; spyrjið Róma konu sem óskar þess að réttur hennar til kynheilbrigðis og réttur hennar til þess að ráða yfir eigin líkama sé virtur; spyrjið trans konu sem óskar lagalegrar viðurkenningar; eða fullorðna múslimska konu sem óskar þess að geta borið höfuðslæðu við nám sitt í háskóla, og þær geta sagt ykkur hver raunveruleikinn er.

III. Möguleikar framtíðarinnar: Evrópa á þýðingarmiklum tímamótum

Hvað hefur Evrópa þá lagt af mörkum og hvað er Evrópusambandið að gera í málunum? Dömur mínar og herrar, Evrópa stendur nú á þýðingarmiklum krossgötum. Leyfið mér að útskýra hvers vegna:

Evrópusambandið hefur frá upphafi stöðugt barist fyrir auknum hagvexti og félagslegri samheldni og þessi umhyggja fyrir félags- og efnahagslegum ójöfnuði og það grundvallarmarkmið að betrumbæta líf fólks þróaðist frá Rómarsáttmálanum, í gegnum Lissabonáætlunina með þeim efnahags-, félags- og umhverfisstoðum sem þar var að finna, og loks til núverandi áætlunar: Evrópu 2020, þar sem áhersla er lögð á vöxt byggðan á þekkingu, sjálfbæran vöxt og samþættan vöxt.

Leiðin að kynjajafnrétti, sem hófst með ákvæðinu um launajafnrétti í Rómarsáttmálanum og fylgt hefur verið eftir með fjöldanum öllum af tilskipunum og stefnumótun hvers konar hefur haft mikil áhrif á þessa framþróun og litið var á hana sem lykilinn að árangursríkri framkvæmd efnahagslegrar áætlunar og efnahagslegs vaxtar. Markmiðið hefur alltaf verið að veita konum jöfn tækifæri á sviði atvinnu og þjónustu auk þess að vernda konur fyrir mismunun vegna móðurhlutverksins til þess að varðveita hina gamalgrónu hefðbundnu afstöðu Evrópu til fjölskyldunnar og móðurhlutverksins, sem verið hefur við lýði frá upphafi velferðarríkisins.

Það var sérstaklega frá miðjum 10. áratugnum, í kjölfar hinnar evrópsku vinnumálaáætlunar Evrópusambandsins þar sem gert var ráð fyrir því að atvinnumöguleikar væru óþrjótandi, sem baráttan fyrir atvinnuþátttöku kvenna og kynjajafnrétti efldist og öðlaðist áður óþekkta viðurkenningu, sem setti aukinn þrýsting á aðildarríki ESB til að bæta réttindi foreldra sem og efla þjónustu við umönnun barna til þess að koma til móts við það markmið að auka hlutfall starfandi mæðra á vinnumarkaði. Auk þessara efnahagslegu atriða hófu Evrópusambandið og Evrópuráðið að leggja lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni fyrir valdeflingu kvenna sem grundvallarforsendu lýðræðis í takt við þær áhyggjur sem lýst var yfir á alþjóðavettvangi á Peking-ráðstefnunni og í Peking–framkvæmdaráætluninni. Í mörgum ríkjum varð markmiðið að koma á fót lýðræði þar sem jafnmargar konur og karlar væru í valdastöðum (e. parity democracy), sem er hugtak skapað í Evrópu.

Þegar nýleg ESB stefnuskjöl eru skoðuð út frá markmiðum og viðeigandi verkfærum, sem og umhverfið sjálft í kringum stefnumótunina, þá virðist því miður sem svo að málefni kynjanna hafi fengið enn minni athygli undanfarið en þau hafa fengið síðustu áratugi. Þessi dvínandi áhersla á hversu brýnt málefni er um að ræða í stefnumótun Evrópu er í skýrum tengslum við efnhagskreppuna og sparnaðaraðgerðir og efnahagsþrengingar í kjölfar hennar. Því miður hefur sá hugsunarháttur að efnahagskreppan hafi fyrst og fremst varðað karla gert það að verkum að umfjöllun um kynjajafnrétti hefur ekki verið liður í þeirri stefnumótun sem hefur átt sér stað í kreppunni. Í flestum ríkjum hefur raunin orðið sú að dregið hefur verið úr skuldbindingum á sviði kynjajafnréttis þar sem úrræði og framlög til kynjajafnréttis hafa annað hvort verið lögð niður eða sætt miklum niðurskurði. Hin óbeinu skilaboð með þessum aðgerðum virðast vera að slíkar stefnur eða aðgerðir séu í besta falli örlítil röskun í kreppunni sem nú stendur yfir. Þetta þýðir hins vegar ekki að enginn árangur hafi náðst á síðastliðnum árum. Mikilvægum áföngum hefur svo sannarlega verið náð, ekki síst í baráttunni gegn ofbeldi, líkt og samþykkt Istanbúl samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi frá 2011 ber vott um. Einnig ber að fagna samþykkt tilskipunarinnar um vernd og baráttu gegn mansali frá 2011, sem og tilskipunarinnar um verndum þolenda frá 2012. En að undanskildum rammasamningnum um foreldraorlof sem framlengdi orlofið úr þremur mánuðum og í fjóra, þá hafa engar aðrar tilraunir til lagasetningar með það að markmiði að vinna að frekari valdeflingu kvenna og brjóta niður hugmyndir um hlutverk kynjanna náð í gegn, þar með talin frumvörp að endurbótum tilskipana annars vegar um mæðraorlof og vinnutíma, og hins vegarum jafna stöðu kynja í yfirstjórnum fyrirtækja.

***

 

Kreppa, kreppa, efnahagsþrengingar og meiri kreppa! En hvernig hafa konur og hinn kynbundni munur komið út úr kreppu og niðurskurði? Og hvað segja þessar staðreyndir okkur um framtíðarhorfur fyrir konur í Evrópu? Sé horft til verka þeirra Karamessini og Rubery má í grundvallaratriðum draga þrenns konar lærdóm:

1. Í fyrsta lagi má nefna að þrátt fyrir gríðarlega aukningu atvinnuleysis á meðal bæði kvenna og karla í kjölfar kreppunar, þá hefur þátttaka kvenna á vinnumarkaðnum í raun aukist á þessum árum, vegna svokallaðra viðbótarvinnu áhrifa (e. added worker effect) Konur voru langt frá því að ætla sér að yfirgefa vinnumarkaðinn og þær sem misstu vinnuna héldu áfram að leita sér að vinnu, fleiri gerðust fyrirvinnur heimilisins og einhverjar stigu út á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn. Afturhvarf til þess fyrirkomulags þar sem karlmaðurinn er eina fyrirvinna heimilisins er harla ólíklegt í þróuðum hagkerfum. Það myndi krefjast endurreisnar hinna hefðbundnu fjölskyldugilda, sem byggð eru á sterkum fjölskylduböndum, öruggri atvinnu fyrir karlmenn og launa sem nægja til framfærslu á heillri fjölskyldu, en ekkert af þessu virðist vera í spilunum. Þvert á móti virðist vera almennur áhugi fyrir því að halda bæði konum og körlum á vinnumarkaðnum lengur, í takt við þá þróun að fólk nær nú hærri aldri en áður.

 

2. Í öðru lagi þá hefur kynjamisrétti á vinnumarkaðnum minnkað að einhverju leyti. Það er hins vegar að mestu til komið vegna þess að atvinnuleysi hefur aukist og tíðni hlutastarfa og starfa sem bjóða upp á sveigjanlega vinnutíma hefur aukist meðal karlmanna, þar að auki hafa komið til frysting launa, launalækkanir og skerðing vinnuskilyrða sem hafa haft víðtæk áhrif. Með öðrum orðum þá hefur átt sér stað ákveðin afturför sem hefur leitt til þess að kynjabilið hefur að einhverju leyti minnkað.

3. Í þriðja og síðasta lagi, vegna efnahagsþrenginga og mikils aðhalds í efnahagsmálum hefur komið til samdráttur hjá hinu opinbera sem er stór vinnuveitandi kvenna - að hluta til vegna þess að hið opinbera gerir þeim kleift að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf - og einnig hefur ríkið skorið niður framlög til félagslegra málefna sem birtist í niðurskurði til stuðnings við foreldra á vinnumarkaði, sem og til umönnunar aldraðra og fatlaðs fólks. Eins og hinn femíniski hagfræðingur Nancy Folbre bendir á, þá virðist sem þessi þróun leiði til þess að áherslan á kynjamisrétti sem slíkt hafi að einhverju leyti vikið fyrir „fátækravæðingu móðurhlutverksins“ og „mæðravæðingu fátæktar“ sem augljóslega hafa gjörólík áhrif á konur.

***

Svona standa mál í dag. Þegar horft er fram á veginn þá virðist sem þessi þróun geti leitt til tveggja mögulegra sviðsmynda. Ég held því fram að aðeins önnur þeirra sé samrýmanleg hinni upphaflegu sjálfsmynd og sjálfsskilningi Evrópu sem virðir skuldbindingar sínar til jafnréttis, lýðræðis og félagslegs jafnréttis.

Í fyrri sviðsmyndinni mun sú tilhneiging sem nú er uppi í átt að aukinni nýfrjálshyggju, og þær hugmyndir að efnahagskerfið og efnahagsstefnur skapi hagnað og séu árangursríkar, á meðan félagsmálastefnur séu afkastarýrar, heimti útgjöld og dragi úr vexti, haldast óbreyttar. Að áliti margra þá megum við búast við því að samfélagið færist nær því að klofna niður eftir stétt og þjóðernisuppruna ef þessi atburðarás verður að veruleika. Það er að segja, við megum eiga von á jöfnun á fjárhagsaðstæðum og starfsskilyrðum milli þeirra minna menntuðu/minna faglærðu og innflytjendakvenna og -karla og stækkun kynjabilsins í aðstæðum og möguleikum milli þeirra sem eru meira menntuð/meira faglærð, en þetta hefur nú þegar orðið að veruleika í Bandaríkjunum. Þetta ástand mun leiða til aukins misréttis á milli þessara tveggja hópa og heildarrýrnunar á stöðu og horfum bæði karla og kvenna á vinnumarkaðnum. Á sama tíma má gera ráð fyrir því að brestur á því að byggja upp framlög ríkisins til umönnunar eða skerðing á núverandi úrræðum geti leitt til ólíkra viðbragða eftir stétt og kyni. Mögulega færi aukinn tími minna menntaðra kvenna í það að sinna ólaunuðum störfum eða þær gætu farið að sinna hlutastörfum í auknum mæli; þær konur sem eru meira menntaðar færu mögulega að reiða sig meira á launaða heimilishjálp eða jafnari skiptingu ólaunaðra heimilisstarfa milli sín og maka síns. Í þessari atburðarás er ljóst að þær konur sem mest þurfa á stuðningi að halda, konur úr lægri stéttum, innflytjendakonur, ungar konur og einstæðar mæður, yrðu þær sem kæmu hvað verst út. Fæðingartíðni myndi áfram haldast í lágmarki, og íhaldssöm hugmyndafræði varðandi fjölskyldugildi og kyn gæti breiðst út sem viðbragð við þessu, sérstaklega, en þó ekki eingöngu, í sumum af hinum nýrri aðildarríkjum ESB, sem gæti ef til vill valdið enn frekari sundrung innan ESB.

Í annarri sviðsmynd, yrði hin alþjóðlega efnahagskreppa sem nú á sér stað nýtt, líkt og margir hafa barist fyrir að hún verði, sem tækifæri til þess að hverfa frá ríkjandi nýfjálshyggjustefnu í kapítalisma. Þá væri hægt að kalla skýrt eftir þróunarlíkani sem væri opnara fyrir breytingum sem, ólíkt hinni hefðbundnu vinstristefnu, myndi nú fella inn kynjað sjónarhorn og tæki tillit til virðis starfa utan markaðarins, þar meðtalinni umönnun. Þetta nýja og frelsandi líkan þyrfti að halda áfram að ögra staðalmyndum kynjanna og fyrirfram ákveðnum hlutverkum þeirra og samþætta efnahagsleg, umhverfisleg, og félagsleg málefni í nýrri samfélagsgerð. Jöfn þátttaka kvenna á við karla á sérhverju stigi ákvarðanatöku, það er „jafnaðarlýðræði“ (e. parity democracy), yrði hluti af samfélagsgerðinni en auk þess gerir þetta líkan kröfu um nýja sýn á kynjajafnrétti, bæði hvað varðar nálgun og úrræði, svo sem kynjasamþættingu við gerð þjóðhagsáætlunar og kynjaða hagstjórn. Jafnvægi milli atvinnu og einkalífs væri álitið eftirsóknarvert fyrir alla, ekki bara konur. Þetta krefst faglegrar umönnunar barna á viðráðanlegu verði, frístundaheimila fyrir skólabörn og úrræða fyrir þau sem háð eru umönnun annarra (þar á meðal fyrir eldri borgara og fatlað fólk eftir atvikum). Þetta gerir kröfu um jafnt og óframseljanlegt launað orlof fyrir bæði konur og karla. Það krefst sveigjanlegs vinnufyrirkomulags, líkt og skiptingar starfa, möguleika á að vinna heima, sveigjanlegra vinnutíma og frumlegra leiða til þess að stuðla að jafnri skiptingu vinnu og umönnunar (meðal annars með skattaívilnunum).

***

Niðurstaðan er sú að aðeins með síðari sviðsmyndinni getum við stefnt að því að loka þeim kynjamun sem enn í dag kemur fram í hinum fimm birtingarmyndum kúgunar kvenna í Evrópu, og unnið bug á ósveigjanleika þeirrar kynjahugmyndafræði sem svo margar konur og svo margir karlar hafa borið svo margvíslegan skaða af í svo langan tíma. Aðeins í þessu seinna líkani getum við vonast til þess að stöðva þá lífskjaraskerðingu sem millistéttin og lágstéttin býr við og þann ótta, öryggisleysi og þá tilfinningu fyrir missi sem henni fylgir, sem bitnar hvað verst á ungu kynslóðinni (dömur mínar og herrar, heil glötuð kynslóð?!?)Vegna þess að þessi ótti, óöryggi og missir hellir aðeins olíu á eld öfga- og bókstafstrúar, þess eðlis sem oft skilgreinir sig einmitt út frá málefnum tengdum umráðum yfir líkömum og kynvitund kvenna. Slíkt leiðir aðeins til kynþáttafordóma, útlendingahaturs og lýðskrums, og þar með helvítis á jörðu fyrir innflytjendur meðal okkar, innflytjendur sem eru okkur nauðsynlegir til þess að greiða eftirlaunin okkar, til þess að viðhalda fólksfjölda og til þess að annast börnin okkar og eldri borgara; og helvítis á jörðu fyrir hælisleitendur sem nú drukkna í höfunum í kringum okkur. Ekki heldur mun óttinn, óöryggið og missirinn hvetja evrópska karla, þar meðtalda þá ungu, til að gefa upp á bátinn þá hugmynd sem Rousseau hefði orðað sem „tálmynd húsbóndans ofar þrælnum“ (e. „illusion of the master over the slave“), það er að segja yfirráð karla, þar sem karlar gætu skynjað kynbundið stigveldi sem síðasta vígi þæginda og sjálfsvitundar þar sem karlmennska á undir högg að sækja. Það hefur í för með sér þjáningu fyrir konur sem áfram munu lifa skelfingu lostnar á eigin heimilum. Og ef þau öfl ná yfirhöndinni, dömur mínar og herrar, Eccellentissime madri, þá hefur Evrópa svo sannarlega beðið ósigur í baráttunni, ekki aðeins hvað varðar skuldbindingar sínar um jafnrétti og réttlæti, heldur einnig lýðræðislegan trúverðugleika sinn.

Nú, meira en nokkru sinni áður, er einmitt tímabært að spyrja um stöðu kvenna og vekja máls á öllum þeim málefnum sem tengjast henni. Og þessi staður, „Salone del Cinquecento“, er einmitt rétti staðurinn til þess að gera það, vegna þess að þessi salur var byggður árið 1494 í kjölfar einnar brottvísunar Medici fjölskyldunnar frá Flórens- Flórens, vöggu endurreisnarinnar og húmanismans, hreyfingar sem leitaðist við að vinna sigur á hinni margvíslegu kreddufestu miðalda. Að mörgu leyti er þessu svipað farið í dag. Ef við ætlum raunverulega að horfast í augu við og takast á við stöðu kvenna hefur það í för með sér endurskoðun á þeirru kreddufestu sem umlykur hinn markalausa, frjálsa alþjóðafjármálamarkað, ríki nýfrjálshyggju og efnahagsþrenginga, og sjálfbærni manneskjunnar. Það gæti krafist björgunar einstaklingsins, líkt og endurreisnin gerði, bæði karlsins og einnig konunnar, frá hinum ýmsu myndum harðstjórnar og kúgunar og endurtekningar þeirra.

Þakka ykkur kærlega fyrir áheyrnina.