KONUR OG HEILSA

Sigrún Sigurðardóttir skrifar

KONUR OG HEILSA

Líkaminn tjáir það sem við komum ekki í orðHeilsufar okkar og heilsufarsleg vandamál geta sagt mikla sögu, sögu um það sem við upplifum á lífsleiðinni sem markar spor í líðan okkar og heilsufar. Rekja má mjög marga sjúkdóma og heilsufarsleg vandamál kvenna til fyrri sálrænna áfalla eða erfiðleika í lífinu, áföll og erfiðleika eins og ofbeldi. Þessi saga getur verið sérstaklega mikilvæg ef erfið lífsreynsla er bæld niður til margra ára, jafnvel marga áratugi, ekki sagt frá og ekki unnið úr þeim tilfinningum sem geymdar eru innra. Þá tekur líkaminn að sér að „segja frᓠmeð því að þróa alls konar einkenni út frá sársaukafullu reynslunni og bældu minningunum.

Til að skilja betur hvað gerist í líkamanum þegar erfiðleikar og áföll dynja yfir hugsum við okkur unga stúlku sem verður fyrir alvarlegu sálrænu áfalli eins og kynferðislegu ofbeldi eða einelti eða býr við heimilisofbeldi eða alkóhólisma svo eitthvað sé nefnt. Hún getur ekki rætt um það við neinn, hún byrgir inni mikinn ótta, vanmáttarkennd og reiði. Þar með er vandamála snjóboltinn byrjaður að rúlla og ef ekki er gripið inní stækkar hann bara. Hún hættir að sofa á nóttunni út af áhyggjum og til að vera á varðbergi gagnvart ofbeldinu, líkaminn stífnar upp og nær ekki að hvílast, út frá því kemur vöðvabólga og útbreiddir verkir, einnig kvíði og depurð. Líkaminn er stöðugt í viðbragðsstöðu, viðbragðskerfi líkamans nær ekki að slaka á og líkaminn þolir ekki slíkt til langs tíma. Álagið fer að hafa áhrif á hjarta- æða- og hormónakerfi sem hefur síðan áhrif á öll önnur kerfi líkamans.

Ef tekið er dæmi um heilbrigðisvandamál sem hefur herjað sérstaklega á konur síðustu ár má nefna vefjagigt. Þegar skoðuð eru einkenni vefjagigtar má sjá að það eru sömu einkenni og fram koma við langvarandi álag. Við getum því spurt okkur hvar liggja orsök og afleiðingar sjúkdóma sem konur eru að glíma við í dag og þróa með sér. Er vefjagigt sjúkdómur nútímans eða er það spegill sálar, líkama og samfélagsins eins og það snýr að konum í dag. Sjúkdómavæðing getur haft þau áhrif að konur eru ekki að fá þau úrræði sem þær þurfa, úrræði til að vinna úr erfiðum áföllum og tilfinningum sem hafa grafið um sig til langs tíma og eru orðin að „sjúkómi“ sem leiðir jafnvel til örorku með öllum þeim kostnaði sem það er fyrir manneskjuna sjálfa, fjölskylduna og þjóðfélagið.

Varhugavert er að tala um heilsufarsvandamál sem „bara“ sálræn eða „bara“ líkamleg því allt spilar þetta saman. Hver mannvera er ein heild, líkami og sál, það sem brýtur niður sálina brýtur niður líkamann og öfugt. Sálin, taugakerfið og ónæmiskerfið eru öll nátengd og „tala“ stöðugt saman. Þegar við bregðumst við atburði eða aðstæðum gerum við það sem ein heild vegna þess samskiptanets sem er milli heila og taugakerfis, innkirtla og ónæmiskerfis. Við verðum því að líta á okkur heildrænt. Margar konur óttast að vera stimplaðar sem andlega vanheilir og leita því ekki hjálpar við tilfinningalegri vanlíðan heldur leita þær til heilbrigðiskerfisins eingöngu með líkamleg einkenni. Er það mikið til vegna fordóma í samfélaginu, heilbrigðiskerfinu og hjá einstaklingum sjálfum.

Rannsóknir sýna að sálræn áföll í æsku geta haft mjög víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar og líðan, einkenni geta komið fram strax eftir áfallið eða mörgum árum seinna og þróast yfir í einkenni áfallastreituröskuna með margþættum einkennum.
Einkenni sem komið hafa fram eftir alls kyns ofbeldi eru alls kyns meltingarfæravandamál, öndunarfærasjúkdómar, kynfærasjúkdómar, útbreiddir og langvinnir verkir, svefnörðugleikar, skjálfti, dofi, svimi, yfirlið, átraskanir, vefjagigt, langvinn þreyta, alls kyns hjarta- og æðakerfisvandamál, brenglun á innkirtlastarfsemi, sogæðakerfisvandamál, taugaáfall, sykursýki, orkuleysi, síþreyta, sjóntruflanir, flogaveiki, þvagleki, lömunartilfinning, þunglyndi, kvíði, fælni, lélegt sjálfsmat, skömm, sektarkennd, sjálfskaðandi hegðun, áfengis- og vímuefnamisnotkun, reiði, hryggð, depurð, vonbrigði, persónuleikaröskun, áfallaröskun, ofvirkni, athyglisbrestur, félagsfælni, einangrun, fæðingarþunglyndi, sjálfsvígshugsanir og tilraunir.

Oft finnst ekki læknisfræðileg skýring á einkennum þrátt fyrir ítrekaðar rannsóknir og innlagnir á sjúkrahús. Þess vegna er svo mikilvægt að auka umræðuna um líðan og tilfinningar í tengslum við heilsufar svo konur geti leyft sér að tala um það sem þeim liggur á hjarta, án þess að óttast að vera ekki trúað eða að óttast að vera dæmdar af samfélaginu.




Höfundur: Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur,
M.S.í heilbrigðisvísindum, Ph.D. nemi í lýðheilsuvísindum við HÍ.