Kvenmannslaus saga, framtíðarlandið og baráttan gegn kynbundnu ofbeldi

Undir lok ársins 2011 bárust þær fréttir að Ísland væri efst á jafnréttislista World Economic Forum þriðja árið í röð. Það er athyglisvert að Ísland bætir við sig stigum en að þessu sinni var bætt við spurningum varðandi ýmsa þætti svo sem lagasetningu, fæðingarorlof og skatta.Þetta eru ánægjuleg tíðindi sem á fyrst og fremst að nýta til að ná enn meiri árangri og krefjast enn frekari úrbóta. Að mati undirritaðrar er þessi árangur fyrst og fremst verk íslenskrar kvennahreyfingar sem haldið hefur vöku sinni áratugum saman þótt vissulega megi gagnrýna mælikvarðana. 

Árið 2011 hófst á Jafnréttisstofu með útkomu bæklingsins Réttur þinn sem unninn var í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hann er einkum ætlaður konum af erlendum uppruna og var gefinn út á sex tungumálum. Hann er þannig upp byggður að öðru megin á opnunni er textinn á íslensku en hinum megin á viðkomandi tungumáli. Hann getur því nýst til íslenskukennslu. Þar er skemmst frá að segja að mikil þörf reyndist fyrir bæklinginn og hefur þurft að prenta hann margsinnis, einkum á pólsku. Þriðja árið í röð gaf Jafnréttisstofa út dagatal sem að þessu sinni var helgað staðalmyndum eða réttara sagt nauðsyn þess að brjóta upp staðalmyndir kynjanna. 

Borgarstjórn Reykjavíkur boðaði verulegan niðurskurð á leikskólum borgarinnar með sameiningu skóla og þar með fækkun starfsmanna ekki síst yfirmanna. Viðbrögð leikskólakennara voru hörð og sá Jafnréttisstofa sér ekki annað fært en að blanda sér í málið þar sem um margfalt jafnréttismál var að ræða. Við sögu komu launamál kvenna, fækkun yfirmanna af kvenkyni hjá borginni og síðast en ekki síst aðgengi að leikskólum og leikskólauppeldið sem skiptir samfélag okkar gríðarlegu máli. Ekki er enn ljóst hver langtímaáhrifin verða en fróðlegt væri að kanna það. 

Snemma árs setti velferðarráðherra á laggir starfshóp um aukna þátttöku karla í jafnréttisstarfi og hélt hann allmarga fundi á árinu. Hann tók þátt í jafnréttisdögum Háskóla Íslands og rétt fyrir jól var boðað til opins fundar um það hvort karlamenning væri ofbeldismenning. Starfshópurinn á að skila skýrslu til ráðherra fljótlega með tillögum um aðgerðir til að virkja karla í jafnréttisbaráttunni. 

Í byrjun febrúar var haldið fjölmennt jafnréttisþing í samræmi við nýju jafnréttislögin frá 2008. Velferðarráðherra lagði fram viðamikla skýrslu um þróun mála ásamt ýmsum tölulegum upplýsingum en umfjöllunarefnin á þinginu voru fjölbreytt og má þar nefna mansal, jafnréttismál innan EU, þátttöku karla og kynbundið ofbeldi. Á þinginu var kynnt viðamikil skýrsla um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem ráðherra lagði síðar fyrir Alþingi. Því miður hefur hún ekki enn verið rædd á þinginu. Í þessu samhengi má geta þess að stofnuð var rannsóknarmiðstöð gegn kynbundnu ofbeldi við Háskólann á Akureyri.

Á árinu urðu miklar umræður um staðgöngumæðrun og er þeim ekki lokið enn. Mjög skiptar skoðanir voru um það hvort leyfa ætti staðgöngumæðrun hér á landi en hún er ekki leyfð á hinum Norðurlöndunum. Málið er nú aftur til umfjöllunar á Alþingi og verður væntanlega leitt til lykta nú á vorþingi. Jafnréttisstofa fékk mjög mörg önnur þingmál til umsagnar og fagnar því að sjálfsögðu að fá tækifæri til að leggja mat á frumvörp og þingsályktunartillögur, koma með góðar ábendingar eða gagnrýni. 

Í febrúar lauk viðamiklu norrænu verkefni um foreldraorlof á Norðurlöndum og kom lokaskýrsla út á Norðurlandamálum. Þarna er um athyglisvert verkefni að ræða sem snertir mjög þá umræðu sem nú á sér stað um alla Evrópu um lækkandi fæðingartíðni, takmarkaða atvinnuþátttöku kvenna og litla þátttöku karla í uppeldi barna en úr öllu þessu vill Evrópusambandið bæta. Það er stefnan en þess verður að geta að í nokkrum löndum EU er veruleg andstaða við aukna atvinnuþátttöku kvenna að ekki sé minnst á aukin áhrif þeirra og völd. Ákveðið var að þýða skýrsluna á ensku og kom hún út rétt fyrir jól. Hægt er að nálgast hana á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar www.norden.org. 

Um mánaðarmótin febrúar-mars var haldinn árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, Commission on the Status of Women. Á hverjum fundi eru umræðuefnin miðuð við kafla í Pekingáætluninni frá 1995. Að þessu sinni voru megin umfjöllunarefnin stúlkubarnið og möguleikar kvenna til menntunar og starfsþjálfunar. Á fundinum var lýst yfir formlegri stofnun UN Women og þar með voru fjórar stofnanir innan SÞ sem fengust við málefni kvenna sameinaðar. Haldinn var hátíðarfundur þar sem nýráðinn framkvæmdastjóri Michelle Bachelet flutti sköruglega ræðu og frægar leikkonur lögðu stofnuninni lið. 

Í hundraðasta sinn var haldið upp á 8. mars um allan heim. Jafnréttisstofa efndi til fundar á Akureyri um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði undir heitinu: Er þetta allt að koma? Í Reykjavík var m.a. haldinn fundur undir yfirskriftinni: Staða konunnar er laus til umsóknar. Samkvæmt mælikvörðum World Economic Forum er staða kvenna á vinnumarkaði veiki hlekkurinn hjá okkur ekki síst hvað varðar launamun og hlut kvenna við stjórn fyrirtækja og eign á þeim. Á næsta ári ganga lögin um kvóta í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga í gildi og þá fer landið vonandi að rísa hvað varðar þann þátt. 

Í mars samþykkti ríkisstjórnin þriggja ára áætlun  um innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Öll ráðuneyti og nokkrar undirstofnanir hafa unnið að verkefnum á sviði kynjaðrar hagstjórnar og mörg námskeið voru haldin á árinu, þar af nokkur með þátttöku erlendra sérfræðinga. Fræðslunámskeiðin tengdust Progress verkefni sem Jafnréttisstofa hefur annast og snýst um fræðslu fyrir stjórnsýsluna um kynjasamþættingu en segja má að kynjuð hagstjórn sé hluti af henni. 

Í maí undirritaði Ísland nýjan sáttmála Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Sáttmálinn felur í sér margvíslegar skuldbindingar og aðgerðir sem vonandi sér stað fljótlega hér á landi. Eftir er að þýða sáttmálann á íslensku en Evrópuráðið hefur þegar gefið út bækling á íslensku um hann. Þarna bætist enn einn bandamaður við í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi sem brýnt er að nýta. 

Í maí var svo loksins samþykkt ný og viðamikil framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Hún inniheldur alls 43 verkefni og er frábrugðin fyrri áætlunum að því leyti að verkefnin eru flokkuð eftir áherslusviðum en þau eru: stjórnsýsla, vinnumarkaður, kyn og völd, kynbundið ofbeldi, menntir og jafnrétti, karlar og jafnrétti, alþjóðastarf og loks eftirfylgni og endurskoðun. Vinna við mörg verkefnanna er þegar hafin. 

Annað árið í röð tók Jafnréttisstofa að sér að annast árlegan fræðsludag um kynbundið ofbeldi. Að þessu sinni var markhópurinn heilbrigðisstarfsfólk og var haldin vel sótt ráðstefna í Háskóla Íslands í samvinnu við velferðarráðuneytið, Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Ísland og Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri. Auglýsingar voru birtar í ríkissjónvarpinu og bæklingur gefinn út. 

Þann 19. júní var að vanda farin kvennasöguganga á Akureyri í boði Jafnréttisstofu og var hún vel sótt. Gangan tengdist ráðstefnunni Vitið þér enn eða hvað? Sem haldin var í kringum sólstöður á Akureyri. Jafnréttisstofa var með málstofu á þinginu undir heitinu: Í framtíðarlandinu. Þar var vöngum velt yfir kynjajafnrétti framtíðarinnar í ljósi loftslagsbreytinga og þess vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna hlýnunar jarðarinnar og vaxandi mengunar. 

Jafnréttisstofa nýtti sér verkefni Vinnumálastofnunar fyrir námsmenn og réði „sumarstúlku“ Kristínu Lindu Jónsdóttur sem er með masterspróf til að vinna rannsókn á kennslubókum í sögu fyrir grunnskóla en það hafði lengi staðið til. Verkefnið reyndist svo umfangsmikið að ákveðið var að taka eingöngu fyrir kennslubækur á miðstigi grunnskóla. Skýrslan sem kynnt var í september vakti mikla athygli og umræður en í ljós kom að saga Íslendinga var álíka kvenmannslaus og þegar Rauðsokkur sungu textann um kvenmannslausa sögu Íslendinga árið 1975. Nokkuð var deilt um aðferðafræði en það má ljóst vera að flestir höfundanna nýttu ekki þau tækifæri sem gáfust til að draga konur og störf þeirra fram í dagsljósið. Mennta- og menningarmálaráðuneytið tók málið til skoðunar, krafðist úrbóta og er þess að vænta að kennslubækur framtíðarinnar verði skárri. Það er eins gott að vera vakandi yfir því að bæði strákar og stelpur framtíðarinnar geti speglað sig í sögunni og að hún höfði til beggja kynja. 

Í september var haldinn árlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga, að þessu sinni í Kópavogi. Fundurinn tókst mjög vel og var afar fróðlegur að vanda. Fjallað var um jafnréttishugtakið í víðu samhengi, rætt um skyldur sveitarfélaga, áhrif Héðinsfjarðarganga á byggð og mannlíf, aðgerðaráætlanir gegn kynbundnu ofbeldi o.fl. Fjórir frumkvöðlar í jafnréttismálum úr röðum kvenna í Kópavogi voru heiðraðir  og veitt voru jafnréttisverðlaun bæjarins.
 
Á haustmánuðum gaf Jafnréttisstofa að venju út skýrslu um kynjahlutföll í nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Skylt er að minna á að 15. gr. jafnréttislaga kveður á um að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minni en 40% í öllum nefndum, stjórnum og ráðum á vegum opinberra aðila nema að hlutlægar ástæður komi í veg fyrir slíkt. Þróunin hefur verið í rétta átt og hafa sum ráðuneytin tekið sig verulega á meðan örfá virðast eiga í erfiðleikum með að fara að lögum sem auðvitað gengur ekki. 

Þann 24. október var þess minnst að 36 ár voru liðin frá kvennafrídeginum mikla 1975. Jafnréttisstofa tók þátt í ráðstefnu í Háskóla Íslands um þátttöku kvenna í stjórnmálum undir yfirskriftinni: Hernaðarlist og valdaklækir. Umræður urðu mjög fjörugar og var mikið rætt um stöðu stjórnmálaflokkanna eftir hrun, skort á trausti og hvaða möguleikar væru í stöðunni. 

Þá er aðeins eftir að nefna 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem var óvenju viðamikið að þessu sinni á Akureyri en Jafnréttisstofa tók einnig þátt í átakinu í Reykjavík. Fyrst er að nefna að haldinn var fundur í Glerárkirkju þar sem Guðrún Ebba Ólafsdóttir kynnti bók sína Ekki líta undan. Fundurinn var mjög vel sóttur og áhrifamikill. Þá komu sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson norður til að kynna verkefnið Karlar til ábyrgðar. Peningar hafa fengist til að auka þjónustuna og mun hún nú ná út fyrir höfuðborgarsvæðið. Byrjað verður á Norðurlandi en síðan er ætlunin að kynna verkefnið og koma upp þjónustu víðar um landa. Á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna kom rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir í heimsókn og las upp úr bók sinni Trúir þú á töfra? auk þess sem fjallað var um kynbundið ofbeldi og mannréttindi í tilefni dagsins. 

Margt fleira mætti nefna úr starfi Jafnréttisstofu á árinu svo sem fjölda námskeiða og fræðslufunda að ekki sé talað um vinnu í kringum jafnréttisáætlanir fyrirtækja, stofnana og skóla. Jafnréttisáætlanir eru það tæki sem við höfum til ábendinga, umbóta og eftirlits með stofnunum, þar með talið hvað varðar kynferðislega áreitni þar sem verulega skortir á verkferla og aðgerðir. Því er ekki að leyna að mikið álag er á starfsfólki en því hefur fækkað um tvo vegna niðurskurðar, úr átta í sex og munar um minna á svo lítilli stofnun. Jafnréttisstofa hefur sett sér þau markmið undanfarin ár að vera sýnileg, stuðla að fræðslu og umræðu, ýta á eftir jafnréttisáætlunum og auka þátttöku karla í jafnréttisstarfi. Það er helst það síðast talda sem gengur hægt og bítandi en hver veit hvað nýtt ár ber í skauti.