- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Sú efnahags- og peningamálastefna sem rekin var linnulaust á árunum 19952007 er gjaldþrota. Það er staðreynd. Hvað gerir þjóð sem er næstum því gjaldþrota? Það sama og öll heimili í landinu við svipaðar aðstæður, hún skoðar í hvern krók og kima og leitar nýrra lausna og nýrra tækifæra. Gleymum því ekki að það leynast tækifæri til að endurskapa og leyfa sér að hugsa upp á nýtt við svona aðstæður.
Rithöfundurinn Margaret Drabble sagði á einum stað: When nothing is sure, everything is possible, sem útleggst á íslensku: Þegar ekkert er á hreinu er allt mögulegt. Við þurfum að innleiða nýtt gildismat, gildismat sem byggir m.a. á umburðarlyndi, áhættumeðvitund og gegnsæi í allri ákvarðanatöku. Núna horfum við upp á að verið er að gefa upp á nýtt m.a. í fjármálakerfinu og þar er mikilvægt að allt sé uppi á borðum og það sé gegnsæi í öllum ákvörðunum sem varða fyrirtæki og einstaklinga, að allir hafi sömu möguleika og leikreglurnar séu þekktar fyrir fram.
Það þarf að lofta út úr bakherbergjum karlanna og setja nýtt fólk til valda, fólk með aðra sýn og annað gildismat. Það gildismat sem ég er að tala um er auðvitað mun kvenlegra en hið gamla og kannski er hreinlega kominn tími til að konur komi meira að rekstri landsins en hingað til. Það þarf að hugsa allt upp á nýtt. Við skuldum heimilunum í landinu það að leggja gömlu gildin, viðmiðin og leikreglurnar til hliðar. Við þurfum að breyta öllu sem var viðtekið. Þess vegna þarf að skoða það vandlega að færa niður lán heimilanna, því að það er hræðilegt ef fjölskyldur fara í fjöldagjaldþrot.
Önnur leið sem ég vil líka láta skoða til þrautar er sú að þeir einstaklingar og fjölskyldur sem eiga einhvern viðbótarlífeyrissparnað geti innleyst þá fjármuni og notað þá til að greiða niður skuldir. Margar aðrar leiðir eru færar en til þess að koma með nýjar lausnir þarf nýtt fólk með annað gildismat sem hugsar öðruvísi en þeir sem hingað til hafa ráðið för.
Ég hef lagt það til að skipaður verði hópur kvenkynssérfræðinga sem fái það verkefni að koma með tillögur hið snarasta. Við megum engan tíma missa. Nóg er af klárum og flottum konum, t.d. í fjármálastofnuninni Auður Capital, sem er reyndar eitt af fáum fjármálafyrirtækjum í landinu sem ekki eru í kröggum. Það eru konur innan raða Félags kvenna í atvinnurekstri og innan háskólasamfélagsins sem hæglega gætu unnið slíkan pakka.
Þjóðin sem átti fyrsta kvenforsetann á heimsvísu og bauð fram fyrsta kvennalistann til þings á nú að sýna umheiminum að við höfum kjark og þor til að horfast í augu við mistök og gjaldþrot karlakapítalismans og setja konur til verka. Þannig eru líkur á að við endurheimtum traust og komum fram með tillögur til úrbóta fyrir heimilin.
Ég vil endurtaka tilvitnunina í rithöfundinn hér á undan og bæta hana og segja: Þegar ekkert er á hreinu er allt mögulegt, jafnvel kynjajafnrétti.
Höfundur er alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri.