Prófkjör, fyrirgreiðslustjórnmál og lýðræðisþróunÍ þessum fyrirlestri mun ég fjalla um þróun stjórnmálaþáttöku kvenna á Íslandi í norrænum samanburði og varpa fram spurningum um tengsl valdakerfa, ríkjandi pólitískra hugmynda og kynjajafnréttis í íslensku samfélagi fyrir og eftir efnahagshrunið. Nú þegar haldið er upp á 35 ára afmæli hins heimsfræga íslenska kvennafrídags og um það bil 100 ár eru liðin frá því konur hlutu fyrst kjörgengi og kosningarétt á Norðurlöndum er vert að líta um öxl og skoða kynbundin valdakerfi í stjórnmálum og spyrja hvar við stöndum í samanburði við hin Norðurlöndin. Á þeim 100 árum sem konur hafa haft kjörgengi og kosningarétt á Norðurlöndum hafa þær eins og áður sagði náð þeim árangri að vera 30-47% kjörinna fulltrúa á þingi og bæjar- og sveitarstjórnum. Á Íslandi eru konur um þriðjungur sveitarstjórnarmanna og 43% þinmanna en hér hefur gengið hægar að fjölga konum í stjórnmálum en á hinum Norðurlöndunum.
Ég mun hér fjalla um sérstöðu Íslands og leita skýringa á því af hverju íslenskar konur voru lengur að brjóta sér leið gegnum hið svokallaða glerþak en konur á hinum Norðurlöndunum. Ég mun halda því fram að framboðsaðferðir stjórnmálaflokka, fyrirgreiðslustjórnmál og sterk staða hægri sjónarmiða og frjálshyggjuhugmynda hafi ráðið mestu um þróunina hér á landi.
Árið 2009 tók ég ásamt Auði Styrkársdóttur og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur þátt í samnorrænu rannsóknaverkefni um kyn og völd í stjórnmálum og efnahagslífi sem unnið var fyrir atbeina Norrænu ráðherranefndarinnar. Efni fyrirlestrarins byggir að hluta á niðurstöðum íslensku rannsóknarinnar og greiningum norræna fræðikvenna á stöðu mála á Norðurlöndum. Þar styðst ég helst við skýringar og kenningar danska stjórnmálafræðingsins Drude Dahlerup en lokagreinar og skýrslur verkefnisins eru aðgengilegar á vef norrænu kynjafræðinistofnunarinnar NIKK. Grein okkar Auðar og Guðbjargar Lindu um niðurstöður íslenska hlutans munu birtast í desemberhefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla.
Byrjum á því að skoða tölur um stjórnmálaþátttöku kvenna á heimsvísu og veltum fyrir okkur áhrifum afskiptaleysis, sértækra aðgerða og kynjakvóta á fjölda kvenna á þjóðþingum. Tölurnar eru teknar af heimasíðu Alþjóðasamtaka þjóðþinga, www. ipu.org.
Ísland skipar nú fimmta sæti á lista Alþjóðasamtaka þjóðþinga yfir hlutfall kvenna meðal kjörinna fulltrúa. Hlutfall kvenna hefur vaxið mjög á Alþingi síðustu áratugina eða frá því að vera aðeins um 2% þegar fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 í 43% eftir kosningarnar sem haldnar voru í skugga efnahagshruns árið 2009 þegar Ísland hljóp upp 13. sæti á þessum lista. Þau fjögur lönd sem eru fyrir ofan Ísland á listanum eru Rúanda, Svíþjóð, Kúba og Suður-Afríka. Athygli vekur að Norðurlöndin sem fyrir aðeins 10-15 árum röðuðu sér í efstu sæti listans, auk Hollands, eru í dag eftirbátar þróunarríkja og landa sem nýlega hafa glímt við vopnuð átök eða stjórnarfarsbreytingar. Finnland skipaði lengi fyrsta sæti listans, síðan Noregur og síðast Svíþjóð þegar hlutfall kvenna náði 47% eftir þingkosningarnar árið 2006 en það lækkaði um 2% þegar Svíþjóðardemókratarnir náðu lágmarksfylgi í nýliðnum kosningum.
Fyrir tíu árum voru karlar 87% þingmanna á heimsvísu en þær eru nú um 81% sem vissulega er hægt að túlka sem framför en um leið endurspegla þessar tölur hversu hæg þróunin er og hefur verið. Helst má merkja breytingu í viðhorfum til aðgerða til að fjölga konum í stjórnmálum. Ef eingöngu er litið til þeirra landa þar sem nýlega hafa verið kosningar er þróunin mjög jákvæð á sama tíma og munur milli heimssvæða verður sífellt minni. Taflan sýnir í fyrsta lagi að Rúanda, Argentína, Mósambík og S-Afríka, öll lönd frá suðurhveli jarðar, hafa náð 30% markinu og nálgast hratt árangur Norðurlandanna hvað varðar hlut kvenna á þingi. Í öðru lagi sýnir taflan að flest þeirra landa sem eru ofarlega á listanum búa við kosningakerfi sem byggir á hlutfallskosningu og í þriðja lagi má lesa úr upplýsingunum að mörg þeirra landa sem skipa efstu sætin beita einhverskonar kynjakvótum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum.
Danski stjórnmálafræðingurinn Drude Dahlerup hefur rannsakað þessa þróun og segir að þó Norðurlöndin séu vissulega enn í fararbroddi hvað varðar fjölda kvenna í stjórnmálum séu þau ekki lengur fyrirmynd annarra landa í jafnréttismálum hvað varðar aðgerðir eða leiðir til að auka völd og áhrif kvenna. Dahlerup segir Norðurlöndin hafa valið að feta hægfara slow track leið að markmiðinu um aukin áhrif og völd kvenna. Þar hafa frjálslyndar hugmyndir um að fullkomið kynjajafnrétti væru einungis tímaspursmál verið ríkjandi. Einkennandi fyrir þá hugmyndafræði er sú staðfasta trú að jöfn tækifæri og aukin menntun og atvinnuþátttaka kvenna muni að lokum tryggja fullt jafnrétti kvenna og karla.
Ýmis þróunarlönd og ríki sem eiga að baki borgarastyrjaldir og/ eða stjórnarfarsbreytingar hafi valið svokallaða hraðleið fast track með íhlutandi aðgerðum eins og lögbundnum kynjakvóta til að fjölga konum í stjórnmálum. Þau vilji ekki bíða í hundrað ár eftir að konur verði 30-40% kjörinna fulltrúa. Í dag er almennt viðurkennt að til þess að skapa þjóðareiningu og sátt í kjölfar hörmunga eins og þjóðarmorðs eða borgarstyrjaldar sé nauðsynlegt að auka sýnileika og áhrif kvenna. Í Rúanda, sem skipar fyrsta sætið á lista Alþjóðasamtaka þjóðþinga, voru ýmis kvennasamtök þátttakendur við gerð nýrrar stjórnarskrár og voru kynjakvótar lögbundnir með stjórnarskrárbreytingum. Án þátttöku kvennasamtaka og grasrótarhreyfinga hefur hins vegar reynst erfitt að ná varanlegum árangri með lögbundnum kvóta eða aðgerðum að ofan eða fyrir atbeina alþjóðastofnana eins og sannast hefur í Írak og Afganistan. Auk Rúanda eru Suður-Afríka og Úganda dæmi um lönd þar sem tekist hefur að virkja konur til þátttöku á opinberum vettvangi fyrir tilstilli alþjóðastofnana sem byggja íhlutun sína á ákvæðum Alþjóða kvennasáttmálans CEDAW eða Peking framkvæmdaáæltuninni um nauðsyn sérstækra aðgerða til að tryggja völd og áhrif kvenna.
Í dag er ekki hægt að tala um þróun stjórnmálaþátttöku kvenna án þess að fjalla um spurninguna um kynjakvóta. Þegar lögbundnir kvótar eru notaðir til að fjölga konum í stjórnmálum eru ýmist stjórnarskrárbundnir (þannig að jákvæðar skyldur stjórnvalda til að bæta stöðu kvenna eru færðar í stjórnarskrá) eða þeir eru bundnir í kosningalög eða í lög um stjórnmálaflokka. Á Norðurlöndum hafa kynjakvótar í stjórnmálum aldrei verið bundnir í landslög en stjórnmálaflokkar hafa beitt þeim við val á frambjóðendum á framboðslista. Spurningin um kvóta eða íhlutandi aðgerðir er spennandi rannsóknaspurning vegna þess að hún snertir kjarna lýðræðiskenninga og femíniskra kenninga.
Við getum spurt þeirrar einföldu spurningar af hverju stjórnmálaþátttaka kvenna sé mikilvæg í lýðræðisríki? Femíniskir stjórnmálafræðingar á borð við Anne Phillips hafa bent á að jafnrétti þurfi að skilgreina með jöfn tækifæri og jafna útkomu í huga. Þannig sé stjórnmálaþátttaka og almenn fæð kvenna í áhrifastöðum (en ekki kosningarétturinn) réttur mælikvarði á lýðréttindi þeirra. Sterkustu rökin fyrir stjórnmálaþátttöku kvenna séu réttlætisrökin það er að það sé fjarstæðukennt og óréttlátt að karlmenn einoki pólitískar stöður fulltrúalýðræðisins og að aðkoma kvenna auki gæði stjórnmálanna og lögmæti fulltrúastofnana. Í dag er erfitt að finna yfirlýst lýðræðisríki þar sem ráðamenn telja það vandkvæðalaust að mikill meirihluti fulltrúa þeirra séu karlar. Þá staðreynd má rekja til samþykktar framkvæmdaáætlunnar Sameinuðu þjóðanna í Peking frá árinu 1995 sem fól í sér hvatningu til aðildaríkjanna að vinna að jöfnu hlutfalli kynjanna meðal stjórnmálamanna með sértækum aðgerðum ef þörf krefði. Hvatningin var róttæk þar sem í textanum er tekið fram að ekki nægi að treysta því að hlutföllinn lagist með tímanum og það nægi ekki að fjölga konum heldur eigi að stefna að jöfnu hlutfalli kynjanna. Þar með breyttist frasinn fleiri konur í stjórnmál í slagorðið jöfn kynjahlutföll og stjórnvöldum aðildaríkjanna voru kynntar raunhæfar leiðir að markmiðinu. Enn bera þó fræðileg og opinber umræða um konur og stjórnmál þess merki að ekki ríki einhugur um hvort og þá hverju þátttaka kvenna breyti fyrir skipulag og inntak stjórnmálanna.
Talsmenn sértækra aðgerða eins og kynjakvóta segja að aukin þátttaka kvenna muni til lengri tíma draga úr áhrifum kynferðis á skipulag stjórnmálanna sem hafi hingað til frekar þjónað hagsmunum karla en kvenna. Fjölgun kvenna sé þannig upphafið að réttlátara fulltrúalýðræði þar sem póltísk þýðing mismunar hefur verið viðurkennd. Ástæðuna fyrir sterkri andstöðu við sérstækar aðgerðir á sviði stjórnmálanna segir Anne Phillips byggja á þeirri staðreynd að þær gangi gegn helstu rökum frjálshyggjunnar um frelsi einstaklingsins og banni við mismunun. Til að mynda sé það talið stríða gegn vali kjósendans að breyta röðun á lista eftir að forval eða prófkjör stjórnmálaflokka heftur farið fram til að mæta kröfum um jöfn kynjahlutföll.
Stjórnmálaöfl frjálshyggjunnar hafa hins vegar verið tilbúin að viðurkenna að óheft, markaðshagkerfi sem eingöngu lúti lögmálum hinnar frjálsu samkeppni muni leiða til félagslegs mismununar eða misskiptingar milli ríkra og fátækra þar sem hinir fyrrnefndu muni sjálfkrafa vera í sterkari stöðu. Þess vegna samþykkir frjálshyggjan ríkisafskipti, reglur um viðskipti og efnahagsmál í vestrænum velferðarsamfélögum sem vinna að því að draga úr óæskilegum fylgifiskum frjáls markaðshagkerfis. Látum við stjórnmálakerfið óafskipt er líklegt að það muni endurspegla félagslega mismunun kynjanna og hygla körlum sem festir ójafnréttið enn frekar í sessi. Nauðsynlegt sé að viðurkenna ofangreint því sértækar aðgerðir byggi á samþykki okkar á að grípa þurfi inn í til að breyta kynjahlutföllum í stjórnmálum.
Samkvæmt töflu Alþjóðasamtaka þjóðþinga, eru Norðurlöndin enn sá hópur ríkja þar sem þátttaka kvenna í stjórnmálum er mest en konur eru að meðaltali 43% norrænna þingmanna. Norðurlöndin hafa einnig verið leiðandi afl á sviði jafnréttismála á alþjóðavettvangi og hefur þátttaka kvenna í stjórnmálum haft mikil áhrif á þróun norrænna samfélaga.
Ef við skoðum töflu um þróun stjórnmálaþátttöku kvenna á Norðurlöndunum sjáum við að Ísland var aðeins á eftir hvað varðar hlut kvenna. Sameinuðu þjóðirnar settu í framkvæmdaáætluninni fram 30% markmið um hlut kvenna í stjórnmálum. Sé því marki náð sé þátttaka kvenna orðin að reglu og konur orðin nægilega fjölmennur hópur til þess að beita sér að hafa varanleg áhrif. Í fræðunum gegnur þetta markmið undir heitinu Critical mass sem Drude Dahlerup kynnt fyrst til sögurnnar.
Ísland náði þessu marki seinna en hin Norðurlöndin. Í bæjar- og sveitarstjórnum náðist markið á árunum 1985 (Svíþjóð) 2001 hjá hinum löndunum, en 2002 á Íslandi. Á þingum náðist 30-prósenta markið á árunum 1983 (Finnland) 1990, en ekki fyrr en 1999 á Íslandi. Íslenskar konur fengu almennan kosningarétt til Alþingis árið 1920 og fyrsta konan var kjörin á þing árið 1922. Lengst framan af var hlutur kvenna 1-2%, fór í 5% árið 1971 en árið 1983 stökk hann skyndilega í 15 prósent. Í kosningunum árið 2009 sem haldnar voru í skugga efnahagshrunsins varð hlutur kvenna á Alþingi 43 prósent. Árið 1999 urðu tímamót í stjórnmálasögu Svíþjóðar þegar Göran Person fyrrverandi forsætisráðherra skipaði 11 konur ráðherra. Hvergi höfðu jafn margar konur sitið samtímis í ríkisstjórn. Hægri maðurinn Fredrik Reinfeldt fylgdi síðan fordæmi jafnaðarmanna við stjórnarskiptin og hlutfall karla og kvenna er enn jafnt í ríkisstjórninni. Konur hafa verið um helmingur ráðherra í Noregi allt frá því að Gro Harlem Brundtland var forsætisráðherra á níunda áratugnum og hafa norskar konur gengt embætti fjármála- og varnarmála-, og utanríkisráðherra.
Árið 1970 tók fyrsta konan sæti í ríkisstjórn á Íslandi en hlutur kvenna var mjög rýr á þeim vettvangi i samanburði við hin Norðurlöndin allt fram til ársins 2007 er konur urðu 33% ráðherra. Eftir myndun ríkisstjórnar í kjölfar kosninganna í maí 2009 urðu konur 42% ráðherra, og með breytingum á ríkisstjórninni í byrjun október varð hlutur kvenna og karla jafn. Fram til ársins 2006 höfðu konur aðeins verið ráðherrar yfir félagsmálum, menntamálum og heilbrigðismálum. Árið 2006 varð kona utanríkisráðherra í fyrsta sinn, og í fyrra varð kona í fyrsta sinn forsætisráðherra. Það vekur athygli að konur hafa aldrei verið ráðherrar yfir landbúnaðarmálum, sjávarútvegi, samgöngumálum eða fjármálum.
Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur hefur sagt að framganga kvenna í íslenskum stjórnmálum hafi verið háð hamförum á hinu pólitíska sviði, sem megi jafnvel líkja við náttúruhamfarir á borð við eldgos. Hún nefnir að konur hafi fyrst komist inn í bæjarstjórn í Reykjavík af kvennalista árið 1908. Sömuleiðis var fyrsta konan kjörin á Alþingi af kvennalista árið 1922. Hlutfall kvenna í stjórnmálum var afar lágt þar til Samtök um Kvennalista kom fram í byrjun 9. áratugarins vegna útilokunar kvenna frá hefðbundnum stjórnmálaflokkum þurftu konur að stofna sérstök kvennaframboð og nú síðast þurfti efnahagshrun til þess að kona yrði forsætisráðherra og konur helmingur ráðherra.
Frá lokum seinni heimstyrjaldarinn hefur stjórnmálaþátttaka kvenna á Norðurlöndum aukist jöfnum fetum sem hefur gert það að verkum að litið hefur verið til þeirra sem fyrirmyndar í jafnréttismálum. Þrátt fyrir þessa stöðugu framþróun og mikinn árangur er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að hlutur kvenna í pólitík hefur aukist mjög hægt. Þróunin hvílir á þeirri jákvæðu barnatrú að jöfn kynjahlutföll muni nást með tímanum en þær hugmyndir hafa sömuleiðis verið ríkjandi í opinberri jafnréttispólitík á Norðurlöndunum. Þessar svokölluðu tímaspurnsmáls-hugmyndir eru sambærilegar kenningum um sögulega lýðræðisþróun sem gera ráð fyrir auknu lýðræði þegar samfélaginu tekst að yfirstíga ákveðnar hindranir eða þröskulda samfara endurnýjun kjósendahópsins. Nina Raaum hefur notað þessa makrókenningu við mælingar á auknum lýðréttindum og samfélagslegri þátttöku kvenna sem hún segir hafa aukist samfara því að hugmyndir kjósenda um konur og lýðræði verði almennari og risti dýpra í samfélaginu. Undirliggjandi í þessum kenningum sem kallast time lag theories er sú skoðun að konur þurfi fyrst að mennta sig og svo vinna sig upp innan stofnana og fyrirækja til þess að komast áleiðis í hærri stöður í samfélaginu, hvort heldur í atvinnulífinu eða í stjórnmálum. Þessar kenningar skýra ágætlega þá hægfara en stöðugu þróun sem verið hefur á fjöglun kvenna í norrænum stjórnmálum. Ég mun hér á eftir tiltaka nokkur dæmi úr íslenskri umræðu. Kenningarnar missa hins vegar marks þegar við upplifum bakslag eða stöðnun t.d á sveitarstjórnarstiginu í Danmörku og á Íslandi þar sem hlutfall kvenna fer varla yfir 30% eða þegar horft er til atvinnulífsins og háskólasamfélagsins sem er stýrt af karlmönnum þrátt fyrir stóraukna menntun og atvinnuþátttöku kvenna. Því er ljóst að tímaspurnsmáls-kenningin nægir ekki sem skýring nema að hluta til og því nauðsynlegt að leita fleirri leiða til að varpa ljósi á hina hægfara þróun.
Í norrænum samanburðarrannsóknum er einkum bent á tvo samhangandi skýringaþætti, annars vegar þýðingu pólitískrar orðræðu um kyn og völd og hins vegar styrk kynjafræðirannsókna og kvennahreyfingarinnar í hverju landi. Í orðræðunni eru margar ólíkar hugmyndir um konur í stjórnmálum svo sem að kyn frambjóðanda skipti ekki máli, fullyrðingin um að kynjajafnrétti sé náð eða hins vegar að það sé nauðsynlegt lýðræðinu að fjölga konum.
Almennt er talið að ríkjandi orðræða um stöðu kvenna í samfélaginu og í stjórnmálum sérstaklega hafi mikil áhrif á skoðanir og gjörðir stjórnmálaflokka og kjósenda. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða ríkjandi orðræðu í Danmörku og Hollandi þar sem fjölgun kvenna meðal kjörinna fulltrúa virðist hafa staðnað. Þar hefur því verið haldið fram að kynjajafnrétti hafi verið náð nema meðal innflytjenda og í báðum löndum er mikil andstaða í samfélagslegri og pólitískri umræðu gegn sértækum aðgerðum til að fjölga konum í pólitík eða meðal stjórnenda atvinnulífsins.
Þessa áhrifaþætti má nota til að varpa ljósi á þróunina á Íslandi með því að beita aðferðafræði orðræðugreiningar. Stjórnsýslufræðingurinn Carol Bacchi hefur beitt nálgun sem hún kallar Hvað er vandamálið eða Whats the problem approach á samfélagslega orðræðu um konur og stjórnmál. Áður fyrr var sú skoðun ríkjandi að konur sjálfar væru vandinn og þegar konum fjölgaði var sagt að konur hefðu loksins tekið sig saman. Í kjölfar baráttu Nýju kvennahreyfingarinnar á áttunda áratugnum varð hins vegar algegnt að skilgreina starf og pólitíska siðmenningu stjórnmálaflokkanna sem eina helstu hindrunina fyrir fjölgun kvenna í stjórnmálum. Það sé helst á valdi stjórnmálaflokkanna að fjölga konum meðal frambjóðenda.
Femíniskir fræðimenn hafa haldið því fram að stjórnmálin og þær stofnanir sem undir þau heyra búi við sjálfsforræði (autonomi). Þar megi grípa inn í með markvissum hætti ef vilji er fyrir hendi. Það gerir það að verkum að ekki þarf að bíða eftir því að konum fjölgi í lægri lögum þjóðfélagsins til þess að þeim fjölgi í efri lögunum, t.d á þjóðþingum og í ríkisstjórn. Það megi beita ýmsum beinum sértækum aðgerðum og það var gert með þeim árangri á sumum Norðurlöndunum að allt fram til þessa hafa þau verið í fremstu röð hvað varðar fjölda kvenna í stjórnmálum, einkum á þjóðþingum landanna. Þar skiptu kynjakvótarnir miklu máli en margir stjórnmálaflokkar hófu að beita þeim við val á frambjóðendum á framboðslistum sínum á 9. áratug síðustu aldar eftir að heimildaákvæði fyrir tímabundnum sértækum aðgerðum til að bæta stöðu kvenna var sérstaklega bætt við jafnréttislög (árið 1985 á Íslandi).
Hvað er öðruvísi á Íslandi:
Til að svara þeirri spurningu af hverju þróunin á Íslandi hefur verið hægari en á hinum Norðurlöndunum má nefna þrennt sem hér hefur verið öðru vísi.
Í fyrsta lagi má nefna prófkjörin sem urðu algeng upp úr 1970 og festu hér í sessi kerfi fyrirgreiðslustjórnmála á Íslandi þar sem fyrirtæki fóru að kosta framboð stjórnmálamanna og létu háar fjárhæðir renna í kosningasjóði flokkanna. Samkvæmt rannsóknum hafa prófkjörin ekki verið góður vettvangur til að fjölga konum á þingi eða í bæjar- og sveitarstjórnum þar sem miklu færri konur en karlmenn gefa kost á sér í prófkjör. Konur voru 37% frambjóðenda í prófkjörum fyrir síðustu kosningar, sem er sama hlutfall og árið 1999. Prófkjörin hafa m.a gert það að verkum að stjórnmálaflokkar hafa haft takmarkað vald á framboðsmálum og hafa torveldað íhlutun með kynjakvóta eða fléttulista.
Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur haldið því fram að flestir flokkar á Íslandi hafi alla tíð verið veikar stofnanir. Samkvæmt greiningu hans hafa þeir flokkar sem lengst hafa setið í ríkisstjórnum, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, en einnig að nokkru leyti Alþýðuflokkur, fyrst og fremst þrifist á fyrirgreiðslu (e. patronage) fremur en stefnumótun í málefnum samfélagsins með þátttöku meðlima í flokknum. Gunnar Helgi Kristinsson, hefur einnig fjallað um fyrirgreiðslu á Íslandi og staðfestir greiningu Svans og skilgreinir fyrirgreiðslu með þeim hætti að hún sé kerfisbundin dreifing gæða til einstaklinga eða hópa í skiptum fyrir pólitískan stuðning. Svanur heldur því fram að prófkjörin hafi gert flokkunum kleyft að lifa af sem kosningahópar en það hafi orðið til að draga úr sjálfsforræði flokkanna og getu þeirra til að stjórna samfélaginu. Í prófkjörum hefja frambjóðendur sama flokks kosningabráttuna með því að keppa innbyrðist. Frambjóðendur þurfa ekki að koma úr röðum flokksmanna og það ýtir undir þá vitund að þeir séu á eigin vegum í stjórnmálum en ekki á ábyrgð þess stjórnmálaflokks eða grasrótar sem veitti þeim sæti. Síðast, en ekki síst, þá veita stjórnmálaflokkarnir frambjóðendum í prófkjörum engan fjárhagsstuðning. Þeir hafa því þurft að leita á önnur mið, svo sem til einkafyrirtækja með afdrifaríkum afleiðingum eins og við þekkjum.
Rannsóknir Auðar Styrkársdóttur og Svans Kristjánssonar á konum og kosningum hér á landi hafa eins og áður sagði sýnt fram á að konur hafa verið færri en karlar í hópi frambjóðenda í prófkjörum. Í Bandaríkjunum, sem er eina vestræna ríkið utan Íslands þar sem stjórnmálaflokkar nota prófkjör, eru konur einnig mun færri meðal frambjóðenda. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að konur eigi erfiðara með að fjarmagna prófkjörsbáráttuna og það sé veruleg hrindrun í vegi þeirra. Í rannsókn Auðar og Svans frá 2001 kom fram sú skoðun kvenframbjóðenda að þeim þætti baráttan við samherja í prófkjörum mjög óþægileg. Ekki hefur verið framkvæmd rannsókn á fjárframlögum til stjórnmálamanna hér á landi en samantekt Rannsóknarnefndar Alþingis á margvíslegum styrkjum fjármálastofnana sýnir að fjölmargir stjórnmálamenn og samtök þeirra þágu styrki frá bönkunum og er enginn stjórnmálaflokkur fyllilega undanskilin. Ekki tókst rannsóknanefndinni að fá upplýsingar frá öllum fjármálafyrirtækjunum en lausleg athugun mín leiddi í ljós að konur fengu almennt ekki lægri styrki en karlar en eins og áður sagði voru þær færri í hópi frambjóðenda. Það þarf varla að taka það fram að það er alvarlegt mál í lýðræðisríki þegar þeir sem fara með stjórn samfélagsins í umboði almennings mynda fjárhagsleg tengsl með þessum hætti við fjármálafyrirtæki. Í rannsóknarskýrslu Alþingins segir Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins um þetta skipulag:
Ég held að þingmennirnir, fæstir þeirra náttúrlega skildu hvað var að gerast. Svo má ekki gleyma því að þessir menn þeir þurftu að leita til þessara peningamanna um stuðning í prófkjörum. Og flokkarnir þurftu að leita til þeirra um stuðning fyrir kosningar. Þetta er auðvitað rosalega stór partur af öllu dæminu og þess vegna stóðu þingmenn ekkert upp. Þess vegna komu þeir ekkert í þinginu og fluttu ræður í þinginu um að það væru einhver vandamál um bankana eða vandamál í efnahagsmálum. Ég held að þetta sé partur af skýringunni. Þetta er náttúrlega helsjúkt kerfi þetta prófkjörskerfi, þetta er bara hneyksli.
Við þeitta má bæta að tillögur á Alþingi um að upplýsingar um bókhald flokkanna yrðu gerðar opinberar voru margsinnis kveðnar niður, meðal annars vegna eindreginnar andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Árið 1999 skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til þess að setja lög yfir fjármál stjórnmálaflokkanna og frambjóðenda. Í ársbyrjun 2007 tóku gildi lög um fjármál flokkanna og þeim var gert skylt að skila til ríkisendurskoðunar upplýsingum um fjármál sín. Lögin tóku einnig til þátttakenda í prófkjörum og þar var jafnframt sett hámark á fjárframlög: 300.000 frá einstökum gefanda. Fyrir árið 2007 gáfu stjórnmálaflokkarnir og frambjóðendur litlar eða engar upplýsingar um hverjir veittu þeim styrki enda engin lög sem mæltu fyrir um slíkt.
Fræðimenn hafa sýnt fram á að pólitísk fyrirgreiðsla takmarki ekki aðeins völd lýðræðislega kjörinna fulltrúa heldur dragi hún einnig úr áhrifum hagsmunasamtaka og möguleikum frjálsra félagasamtaka að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Þar að auki takmarki fyrirgreiðslukerfi aðgengi ákveðinna hópa, þar með talið kvenna, að stjórnmálum.
Prófkjörin hafa torveldað íhlutun með sértækum aðgerðum eða kynjakvóta á framboðslistum þrátt fyrir góðan ásetning stjórnmálaflokkannna. Þá hafa frjálslyndar hugmyndir meðal ríkjandi stjórnmálastéttar um jafnréttismál á tímum Nýfrjálshyggjunnar ekki verið í samræmi við þá hugmyndafræði sem einkennir gildandi jafnréttislög og opinbera jafnréttisstefnu í landinu.
Árið 1999 kom út greinasafnið Likestillte demokratier sem byggir á samnorræni rannsókn um þróun og stöðu jafnréttismála á Norðurlöndunum á tíunda áratug síðustu aldar. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að á Íslandi, í Finnlandi og í Danmörku hafi jafnréttispólitíkin einkennst af ímyndarpólitík (symbolpolitik). Einkenni hennar eru tíðar yfirlýsingar og fyrirheit að hálfu yfirvalda um breytingar eða aðgerðir í tilteknum málaflokki. Fyrirheitum þessum sé hins vegar sjaldan eða ekki fylgt eftir með raunhæfum aðgerðum eða nægilegu fjármagni. Afleiðingarnar séu þær að hvorki jafnréttislögin né sértækar aðgerðir á sviði jafnréttismála nái markmiðum sínum.
Þegar fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt árið 1976 voru konur 2% þingmanna. Þá voru hefðbundnar frjálshyggjuhugmyndir, þar sem talið var nægilegt að gefa konum sömu tækifæri og körlum, ríkjandi í janfréttismálum og lágu þau til grundvallar fyrstu lögnum. Þar sagði m.a. í greinargerð að búast megi við að frumvarpið muni marka verulegt spor í þá átt að breyta ríkjandi viðhorfum og flýta fyrir því að fullt jafnrétti kynjanna náist í reynd. Kenningar og orsakaskýringar hafa tekið breytingum eftir því sem þekkingu á þessu rannsóknarefni hefur fleygt fram og reynsla hefur fengist af jafnréttisstarfi og m.a hefur verið viðurkennt að nauðsynlegt sé að heimila sértækar aðgerðir til að fjölga konum í áhrifastöðum. Með því hurfu einkenni frjálslyndisstefnu í jafnréttismálum að mestu horfið úr jafnréttislöggjöfinni. Þrátt fyrir það hefur umræða um að fullkomið jafnrétti sé eingöngu tímaspurnsmál verið mjög þrálát meða íslenskra stjórnmálamanna og forystumanna efnahagslífsins. Ummæli Davíðs Oddssonar sem var forsætisráðherra 1991-2004 eru mjög lýsandi fyrir viðhorf frjálshyggjunnar um jafnréttismál sem hér voru ríkjandi.
Aukin sókn kvenna í menntun og barátta þeirra mun skila sér í algjöru jafnrétti á næstu tuttugu árum [...] Brýnasta mál jafnréttisbaráttunnar í dag er að konur sjálfar sannfærist um að kynferði þeirra skipti ekki máli fyrir laun þeirra. (Ríkisútvarpið: 17.4.2004)
Annað skýrt dæmi um hvernig ráðamenn hafa misskilið hugmyndafræði jafnréttislaga var þegar einn af æðstu stjórnmálamönnum landsins, Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra sagði árið 2004 að jafnréttislögin væru barn síns tíma, en þá hafði kærunefnd jafnréttismála komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafn hæf eða hæfari en aðrir umsækjendur í stöðu hæstaréttardómara. Ráðherrann skipaði hins vegar frænda forsætisráðherra í embættið og sagði m.a.:
Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum. (Morgunblaðið: 7.4.2004).
Í kjölfarið varð mikil umræða um ákvæði jafnréttislaga um sértækar aðgerðir í þágu kvenna og ruglaði ráðherra jafnréttismála, Árni Magnússon saman jákvæðri mismunun sem aldrei hefur verið notuð á Íslandi og heimild til sértækra aðgerða. Leiðari eins dagblaðsins dró áhrif jafnréttislaganna stórlega í efa og varaði við skyndilausnum á borð við kynjakvóta. Ráðherra menntamála, sem þá var ein af þremur konum í ríkisstjórninni, lagði sitt til málanna í tímaritsviðtali:
Ég tel að ég nái betri árangri með skoðunum mínum og baráttuaðferðum heldur en með beitingu öfgakenndra aðferða þar sem beitt er handafli. Jafnréttið á að koma frá grunninum, rótunum og hjartanu en ekki að vera skellt inn með margs konar valdboðum sem láta konur iðulega standa berskjaldaðar og líta illa út fyrir vikið. (Skúladóttir, 2004).
Meginniðurstaða íslenska hluta verkefnisins Kyn og völd á Norðurlöndum staðfesta að þótt einkenni frjálslyndisstefnu í jafnréttismálum hafi að mestu horfið úr löggjöfinni hafa ráðandi öfl í íslenskum samfélagi ekki tileinkað sér þá hugmyndafræði sem endurspegla ný jafnréttislög.
Síðastliðin ár hafa feminískir fræðimenn bent á að nokkurt afturhvarf hafi orðið til frjálslyndrar jafnréttisstefnu, einkum vegna uppgangs nýfrjálshyggjunnar í stjórnmálum og við stjórn efnahagslífsins. Í anda nýfrjálshyggjunnar hafa ráðandi öfl talið hvers konar íhlutun hvað varðar stöðu kvenna merki um misrétti og gagnrýni á ríkjandi skipulag óþarfa þar sem hin kynhlutlausa löggjöf tryggi réttlátt jafnrétti þar sem sá hæfasti, óháð kyni, verði valinn. Eftir efnahagshrunið haustið 2008 bar þó mikið á kröfum um aukinn hlut kvenna við stjórn landsins og helstu valdastofnanir. Konum vegnaði vel í prófkjörunum árið 2009 og í kjölfarið fjölgaði þeim í hópi kjörinna fulltrúa. Konur urðu 43% þingmanna sem var veruleg aukning frá kosningunum 2007 þegar konur voru rúmlega þriðjungur.
Íslensk kvennahreyfing hefur þó verið sterkt gagnrýnisafl en hún gekk í endurnýjun lífdaga við stofnun Femínistafélags Íslands árið 2003. Eftir efnahagshrunið, haustið 2009, stofnuðu konur samtökin Neyðarstjórn kvenna sem var áberandi afl við mótmælin í Reykjavík í upphafi ársins 2009 og hélt umræðu um jafnréttismál vakandi í pólitískri umræðu. Konur sem tóku þátt í stofnun þessara félaga og héldu uppi andófi gegn andvaraleysi stjórnvalda í jafnréttismálum hafa kvatt sér hljóðs í stjórnmálum og haft þau áhrif á að kvennapólitík er aftur komin á dagskrá stjórnmálanna. Þá hafa rannsóknir sýnt að þátttaka kvenna í íslenskum stjórnmálum tengist styrk, árangri og áhrifum kvennahreyfingarinnar og sérstakra kvennaframboða sterkum böndum
Í kosningaumræðunni árð 2009 og við uppgjör á hruninu hefur borið talsvert á þeim röddum sem telja konur óspilltari en karlmenn og því væri rétt að velja þær til forystu. Konur hafi átt litla hlutdeild í íslenska efnahagsundrinu og þær höfðu ekki stjórnað þeim atuburðum sem ollu bankahruninu og því væri það skylda þjóðarinnar að gefa þeim tækifæri. Í kynjafræðilegri greiningu á Rannasóknaskýrslu Alþingis, eftir Þorgerði Einarsdóttur og Gyðu Margréti Pétursdóttur, er rakið hvernig ...samfélagslegar og menningarbundnar hugmyndir um kyn léku stórt hlutverk í umræddum atburðum. Langflestir aðalleikendur í bankahruninu hafi verið karlkyns, en einnig hafi menningarbundnar hugmyndir , þ.e kyngervi, haft mikil áhrif. Þá segir að fjármálakerfinu hafi verið stjórnað af litlum hópi einsleitra karla sem umbunuðu körlum á grundvell huglægs mats og að ráðandi karlmennskuhugmyndir hafi ýtt fjármálakerfi landsins út á ystu nöf og í raun fram af brúninni.
Konur voru ekki taldar búa yfir þeirri áhættusækni og snilld sem til þurfti. Þá sjaldan þeim var boðið til leiks var það á forsendum ráðandi afla, eins og skýrsluhöfundar hafa bent á. Tungutakið er dæmigert fyrir orðræðu nýfjrálshyggjunnar sem nærðist á karlmennskuhugmyndum um áræðni, djörfung og arðsemi. Benda má á að engin kona stýrði fyrirtæki sem skráð var í Kauphöllina árið 2007, aðeins ein kona var í hópi stjórnarformanna þessara fyrirtækja og konur voru aðeins 7% stjórnarmanna.
Athylgisvert er að skoða stöðu kvenna á Íslandi fyrir og eftir efnahagshrunið og bera þróunin saman við lýðræðivæðingu annars staðar í heiminum. Femínísku stjórnmálafræðingarnir G. Waylen and Drude Dahlerup hafa í rannsóknum sínum á stjórnarfarsbreytingum í Afríku, S-Ameríku og Austur-Evrópu sýnt fram á tengsl milli lýðræðisvæðingar og eflingar kvenna í kjölfar þjóðfélagslegra breytinga, efnahags- og stjórnmálalegri kreppu. (Dahlerup 2006, Waylen 2008).
Þorgerður Einarsdóttir hefur bent á að á Íslandi hafi á síðustu áratugum orðið til nýjar uppsprettur valds. Kvótakerfið í sjávarútvegi er ein slík uppspretta og fjármálageirinn önnur, en konur hafa staðið utan við þessar uppsprettur. Uppspretturnar bíða enn frekari rannsókna líkt og nánari athugun á hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar um konur og karla og afleiðingar hennar. Samfélagslegt uppgjör og endurmat, styrkur kvennahreyfingarinnar og fjölgun kvenna í stjórnmálum lofar góðu og hrun efnahagslífsins getur orðið vendipunktur í jafnréttismálum á Íslandi.
Rósa G. Erlingsdóttir er doktorsnemi í stjórnmálafræði og var fyrirlesturinn sá 6. í fyrirlestraröðinni "Eilífðarvélin" sem Þjóðmálastofnun og EDDA - öndvegissetur standa fyrir. Flutningur fór fram þann 22. október sl.á Háskólatorgi.