- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Árið 2008 voru sett ný jafnréttislög með auknum verkefnum og skyldum og hækkuðu framlög úr ríkissjóði um 22.5 millj. vegna nýrra verkefna sem lögin kváðu á um. Starfsfólki fjölgaði um tvo. Um haustið varð hrunið með miklum verðhækkunum en framlag ríkissjóðs hækkaði aðeins um 3,1 millj. í krónum talið milli 2008 og 2009. Árin 2010-2012 voru öllum erfið enda lækkaði framlag ríkisins þau ár nokkuð þrátt fyrir verðhækkanir og mikið af verkefnum.
Þegar fjármál Jafnréttisstofu eru skoðuð verður að hafa í huga að stofnunin heldur utan um verkefnið „Karlar til ábyrgðar“ sem er meðferðarúrræði fyrir karla sem beita maka sína ofbeldi (rúmlega 9 millj. á þessu ári). Það mikilvæga verkefni hefur orðið fyrir niðurskurði eins og annað. Þá greiðir stofnunin mjög háa húsaleigu á Borgum (um 12 millj. á þessu ári eða um 4300 kr. á fermetra). Árið 2007 var húsaleigan samtals 7.664.203 kr. en var komin upp í 11.308.267 kr. árið 2013. Þetta er hækkun upp á 47,5% á sex árum niðurskurðarins. Þegar búið er að draga þessa tvo stóru liði frá dugar framlag ríkisins varla fyrir launum. Mín stefna hefur verið sú að halda í störfin og komast hjá uppsögnum sem hefur tekist hingað til. Jafnréttisstofa er búin að segja húsnæðinu upp og verða flutningar um áramót sem vonandi lækkar leiguna verulega.
Það sem haldið hefur Jafnréttisstofu á floti eru sértekjur sem hafa þó verið mjög sveiflukenndar eins og taflan ber með sér. Þær skýra töluverða sveiflu í útgjöldum. Árið 2009 sker sig úr en það ár fór Ísland með formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni. Þá fóru tæpar 100 millj. í gegnum Jafnréttisstofu mestmegnis í erlendum gjaldeyri. Minnst af því kom í hlut Jafnréttisstofu heldur fóru peningarnir í að halda ráðstefnur og eitt stórt rannsóknarverkefni um fæðingar- og foreldraorlof á Norðurlöndunum. Það var því unnið að því að afla gjaldeyris á erfiðum tímum og hann skilaði sér til hótela, flugfélaga, ráðstefnuskrifstofa og vísindamanna. Þá hefur Jafnréttisstofa verið iðin við að sækja um styrki í Progresssjóð Evrópusambandsins sem hafa fengist og bjargað miklu. Það skal tekið fram að Íslendingar borga í Progresssjóðinn og eiga því rétt á styrkjum úr honum ef umsóknir standast skoðun. Þeir peningar fara meira og minna út í þjóðfélagið. Sértekjurnar eru ekki komnar úr ríkissjóði (nema einstaka styrkir til ákveðinna verkefna), heldur koma þeir mestmegnis utan frá. Flest árin hefur afgangur verið fluttur milli ára enda peningarnir bundnir ákveðnum verkefnum. Árið 2011 var okkur afar erfitt, þá var lítið um sértekjur og í fyrsta sinn í sögu Jafnréttisstofu var hún rekin með halla sem þó var ekki nema um tvær millj. kr.
Þeir sem fara með fjárveitingarvaldið ættu að vera glaðir yfir því hve ríkisstofnanir hafa staðið sig vel við að afla sértekna ekki síst í erlendum gjaldeyri (þær sem það geta). Kynjajafnrétti er eitt þeirra verkefna sem íslenska ríkinu ber að sinna samkvæmt Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna (staðfestur af Alþingi 1985), Pekingáætluninni frá 1995, fjölmörgum samþykktum Evrópuráðsins og samkvæmt nokkrum tilskipunum Evrópusambandsins sem heyra undir EES samninginn. Íslensk stjórnvöld hafa svo gegnum tíðina átt frumkvæði að merkri stefnumótun og ákvörðunum sem vakið hafa heimsathygli, svo sem óframseljanlegt fæðingarorlof feðra.
Framundan er annasamt ár – árið 2015 - með 100 ára kosningaréttarafmælinu, 20 ára afmæli Pekingsáttmálans sem leggur okkur margvíslegar skyldur á herðar og 15 ára afmæli Jafnréttisstofu. Jafnframt þeim verkefnum mun starfsfólk Jafnréttisstofu að sjálfsögðu sinna því eftirlits-, fræðslu- og ráðgjafarhlutverki sem okkur ber lögum samkvæmt, safna og greina upplýsingar, afla og miðla þekkingu, gefa einstaklingum ráð og vinna með stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum að kynjajafnrétti. Þótt Ísland hafi vermt efsta sæti lista World Economic Forum í fimm ár er svo sannarlega verk að vinna hér á landi. Það verður að sinna afmælisárinu og öllu jafnréttisstarfi með sóma innanlands sem erlendis þar sem rödd Íslands þarf að heyrast í heimi misréttis, ófriðar og misskiptingar jarðargæða. Jafnréttisstarf er ekki ókeypis fremur en annað starf á vettvangi ríkisins. Það er brýnt, hagkvæmt og gott fyrir allt samfélagið, drengi og stúlkur, konur og karla, unga sem aldna, meirihluta- sem minnihlutahópa.