Ég átti erindi á Bessastaði fyrir stuttu og tók dótturson minn með, enda langaði hann að kíkja þar inn og svo vildi hann fá mynd af sér með forsetanum. Eftir að heimsókninni lauk spurði ég hann hvernig honum hefði litist á.Þetta var fínt, sagði hann, og bætti við að hann hlakkaði til að sýna skólasystur sinni myndina því hún lýsti því yfir í tíma og ótíma að hana langaði til að verða forseti.
En hvað með þig? spurði ég þá. Myndir þú ekki vilja verða forseti. Neihei, svaraði hann steinhissa á því hvað ég gæti verið mikill bjáni: Það er örugglega ekkert gaman að vera forseti.
Þegar ég var að alast upp á sjöunda áratugnum man ég ekki eftir neinni skólasystur sem langaði til að vera forseti eða sem sagði frá því. Vel má vera að þær hafi margar langað til þess arna, kannski allar en ekki þorað að segja það, enda eru ótal dæmi um það að stúlkur sem langaði að verða eitthvað annað en húsmæður hafi fengið bágt fyrir hjá kennurum sínum
Á þeim tíma datt fáum í hug að kona gæti orðið forseti, sennilega engum - það var einhvernvegin það sem karlar áttu að gera; þeir voru ráðherrar og forstjórar og fyrirmenn á meðan konur voru heima og hugsuðu um heimilið og börnin og pössuðu upp á það að börnin trufluðu ekki pabba sinn og svo náttúrlega líka að vera með matinn tilbúinn, heimilið hreint og snyrtilegt og konan vel til höfð.
Þetta hljómar eins og karlaparadís og víst heyrir maður eftirsjá eftir þessum blómatíma karlmennskunnar í skrifum þeirra sem amast við því hvað konur eru að vilja upp á dekk; á milli þess sem þeir kenna auknum rétti kvenna um allt sem miður hefur farið í samfélaginu - það fór eiginlega allt til fjandans þegar konur fengu kosningarétt, kveinka þeir sér yfir þeim réttindum sem konur hafi en karlar ekki - enginn opnar dyr fyrir mér, rakst ég á á netinu um daginn og líka: Af hverju þurfa karlarnir alltaf að borga fyrir matinn?
Það kemur ekki á óvart að þeir sem setið hafa að völdum í samfélaginu snúist til varna þegar að þeim er sótt og beita ýmsum meðulum. Ein baráttuaðferð er að ná valdi á orðræðunni, að snúa orðum og hugtökum upp á andskotann og ná þannig að stýra umræðunni.
Við sem erum gömul í hettunni þekkjum slíkt og þvílíkt frá því Rauðsokkur birtust á Íslandi fyrir 45 árum. Þær voru svo ljótar að enginn karl vildi þær, þær hötuðu karlmenn og þess vegna vildi enginn þær, eða kannski hötuðu þær karlmenn vegna þess að enginn vildi þær, ég man það ekki alveg.
Nýlegt dæmi um það er svo hvernig það er orðið skammarlegt að vera femínisti, sérstaklega ef viðkomandi er kona, því þá er hún ekki bara femínisti heldur öfgafemínisti, femínasisti eða femínistabelja.
Umræða um kynjakvóta er annað dæmi um öfugsnúna umræðu og algengt að karlar býsnist yfir því því óréttlæti að konur séu teknar fram yfir karla bara fyrir það að þær séu konur, en láta sér í léttu rúmi liggja að í þúsundir ára hafa karlar gengið fyrir um öll helstu, ábyrgðarmestu og best launuðu störf vegna þess að þeir voru karlar.
Þegar valinn var forstjóri eða frambjóðandi, ráðherra eða ráðuneytisstjóri, formaður eða framkvæmdastjóri völdum við karla hafa karlar nánast alltaf orðið fyrir valinu vegna þess að okkur var innrætt að treysta körlum frekar, að taka frekar mark á þeim og finnast þeir merkilegri – vegna þess að þeir eru karlmenn.
Í þessu ljósi blasir augljóslega við að kynjakvótar eru ekki til að hjálpa konum - þeir eru til að hjálpa körlum – til að forða körlum frá því að vera valinn í starf eða veitt brautargengi bara vegna kynferðis.
Við erum hér stödd að fagna afmælis Jafnréttisstofu og í nafni þeirrar merku stofnunar er einmitt þriðja dæmið um það hvernig þeir sem óttast að missa völd snúa útúr hugtökum og heitum.
Þannig verður jafnréttisbarátta að baráttu fyrir ægivaldi kvenna og Jafnréttisstofa verkfæri til að kúga karla, ekki barátta fyrir jafnrétti heldur barátta fyrir forréttindum kvenna og gott ef það er ekki fyrir auknum forréttindum kvenna.
Sannleikurinn er aftur á móti sá að jafnréttisbarátta er ekki bara barátta um jafnan rétt kvenna gagnvart körlum heldur er hún ekki síður barátta fyrir rétti karla og lykilatriði í því að losa karla undan úreltum kröfum karlmennskunnar.
Það er löngu vitað að það hallar á karla í skólakerfinu og víða í þjóðfélaginu almennt. Samanborið við konur glíma þeir við fleiri vandamál; verða frekar fíklar, lenda frekar í slysum, fremja fleiri afbrot og sitja frekar inni, eru líklegri til að beita aðra ofbeldi og eins líklegri til að svipta sig lífi.
Ég hef séð því haldið fram á prenti að ofangreind vandræði karla hafi hafist um það leyti sem konur tóku að sækjast eftir jafnrétti, um svipað leyti og fengu kosningarétt. Skýringin er þó önnur, hennar er að leita í því karlasamfélagi sem við búum í með þeim skökku og skældu gildum sem haldið er að drengjum og ungum karlmönnum og þeir sækja í umhverfi sitt.
Aukið frelsi kvenna hefur aukið frelsi karla - konur hafa losnað úr hlutverkum sem þær voru þvingaðar og um leið hafa hafa karlar líka losnað úr prísundum. Jafnréttisbarátta er kvennabarátta og hún er líka karlabarátta, barátta fyrir því að stelpur getir orðið forsetar og eins að karlar þurfi ekki að verða forsetar.
Í bókinni Sérherbergi ræðir Virginia Woolf um heilann og veltir því fyrir sér hvort ekki séu tvö kyn í heilanum líkt og í lífinu; að í konum ráði kvenhluti heilans yfir karlhlutanum, en því sé öfugt farið í karlakollum. Niðurstaða hennar er að best fari á því þegar hlutarnir renna saman, starfa sem einn, því þá sé hugsunin frjóust og sköpunin mest.
Takk fyrir mig.
Erindi flutt í tilefni 15 afmælis Jafnréttisstofu 15. september 2015