Ástin hefur lengi verið mér hugleikin enda hef ég orðið ástfangin nokkrum sinnum sem gerir mig að alveg sérlegum sérfræðingi í ástinni. Til þess að kafa aðeins dýpra ákvað ég að gera mastersritgerð um ástina sem hlýtur að gera mig að meistara ástarinnar. Maðurinn minn er alveg sáttur.Af öllu gamni slepptu þá hef ég hef tekið eftir því í gegnum tíðina að ástin hefur ekki í miklum mæli verið viðfangsefni fræðimanna í félagsvísindum. Innan mannfræði, svo dæmi sé tekið, þá hefur reiði verði heilmikið rannsökuð en ástin mjög lítið. Það sama er víst upp á teningnum þegar litið er til raunvísinda. Mér hefur verið tjáð, af fólki sem kann eitthvað fyrir sér í þeim fræðum, að reiði og ógeðstilfinning hafi verið meira rannsakaðar en ástin.
Ástin skiptir hins vegar marga máli og fræði eiga að fást við það sem stendur hjarta fólks nærri. Það er einmitt svo skemmtilegt og kraftmikið við kynjafræði að hún lætur sig hið persónulega varða. Það skiptir líka máli að skoða hvort ástin, þessi tilfinning sem við lítum á sem afar einstaklingsbundna og oft yfir allt hafna, sé í raun slitin úr tengslum við það umhverfi sem við lifum og hrærumst í.
Ég vildi, í minni rannsókn, kanna var hvort orðræðan um ástina væri kynjuð, hvort kynin tjáðu sig með mismunandi hætti um ástina og hvort að ástin væri lituð af ríkjandi hugmyndum um kyngervi. Til glöggvunar á hugtakinu kyngervi þá er skilgreining Þorgerðar Þorvaldsdóttur hjálpleg: „Kyn vísar til líffræðilegs kyns en kyngervi er notað um þá menningarbundnu merkingu sem samfélagið leggur í hið líffræðilega kyn til að mynda væntingar um karlmennsku og kvenleika. Þannig hefur hvert samfélag ákveðnar væntingar um hvað það þýði að vera karl eða kona, um verksvið og skyldur kynjanna og það hvernig konur og karlar eiga að líta út og hegða sér“. (Þorgerður Þorvaldsdóttir, 2000, sótt 7. Júní 2011 af http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=1084).
Ef rannsóknin leiddi í ljós að ástin væri kynjuð þá sýndi það að mínu mati hversu ríkjandi staðalmyndir kynjanna væru í okkar samfélagi.
Rannsóknin
Rannsóknin var viðtalsrannsókn byggð á eigindlegri aðferðafræði. Tekin voru viðtöl við átta einstaklinga og viðtölin greind. Viðmælendur voru af báðum kynjum og bæði sam- og gagnkynhneigðir. Í greiningunni var skoðað hvaða þættir eða þemu væru ríkjandi í lýsingum viðmælenda á ástinni.
Í þessari grein er fjallað mjög stuttlega um það sem fram kom í rannsókninni með það í brennipunkti hvort hugmyndir okkar um kynin og ríkjandi staðalmyndir um þau hafi áhrif á upplifun okkar á ástinni og það hvernig við tjáum okkur um hana.
Hvaða sess hefur ástin í samfélaginu?
Annars vegar er ástin yfir og allt um kring. Hún er rauði þráðurinn í kvikmyndum, skáldsögum og í fréttum af frægu fólki. Hins vegar virðist hún þögguð. Allir viðmælendur kvörtuðu yfir því að ástin væri lítið til umræðu. Hvað ástin væri, hvað hún snérist um, hvernig hún lýsti sér, hvernig fólk upplifir hana væri ekki rætt.
Í stuttu máli sagt þá litu viðmælendur á ástina sem eitthvað alveg einstakt og einstaklingsbundið fyrirbæri og leituðust við að fjalla um hana alveg óháða umhverfinu þótt það reyndist þeim oft erfitt. Viðmælendur reyndu að fjalla um ástina óháð öðru t.d. samfélaginu og valdastrúktúr þess. Bjartur, einn viðmælandinn, fangaði þetta vel þegar hann sagði:
„Þetta hugtak, sko ástin, er einhvern vegin svo stór að hún er bara skilin eftir. Við náum ekki utan um hana. Náum kannski utan um einhverjar birtingamyndir hennar en ekki einhvern veginn hugtakið sjálft“.
Viðmælendur leituðu stöðugt eftir því að ná því að tala um hina „hreinu“ ást eins og ástin væri yfir allt hafin og alveg aðskilin frá því samfélagi sem við búum við. Ein viðmælendanna talaði um að hún reyndi stöðugt að nálgast þessa „pjúra“ tilfinningu þegar ekkert annað væri að trufla. Kannski er þessi nálgun tilraun viðmælenda til að losa ástina úr fjötrum kyngervis og frá valdatengslum sem ganga í berhögg við hugmyndina um ást byggða á jafnræðisgrundvelli.
Áherslan á það hversu einstaklingbundin ástin væri kom oft fram. Salka, einn viðmælenda minna sagði:
„Ég held að karlar elski eins og þeir eru margir og konur eins og þær er margar. Ástin er svo einstaklingsbundin“.
Það birtist enginn kynjamunur í þessari nálgun en hann birtist þegar ég spurði viðmælendur um það hvort þeir ræddu sín ástarmál við vini og vinkonur. Konurnar sögðust oft ræða ástarmál við vinkonur eða vini og hjá þeim kom ekki fram neinn ótti í þá veru að þær sýndu með því á sér veikan blett. Hræðslan birtist hins vegar hjá karlmönnunum sem óttuðust að gefa höggstað á sér. Sólon útskýrði þetta með eftirfarandi hætti:
„Maður vill halda statusnum, maður vill ekki að fólk fái vopn í hendur. Þess vegna held ég að fólk ræði ekki mikið svona hjartans mál eða svona einlægt.“
Ástin eða það að ræða um ástina virtist því vera í andstöðu við karlmennskuna. Að tala um persónuleg málefni eins og ástina getur leitt til stöðumissis karlmannsins á meðan konurnar virtust ekki óttast það.
Konur virtust í viðtölunum vanari að tjá sig um ástina en karlar sem ætti ekki að koma á óvart miðað við það sem hér hefur komið fram. Þær tóku ýmis dæmi úr eigin lífi en vísuðu einnig í kvikmyndir, bækur og reynslu annarra. Karlmenn tóku dæmi úr eigin lífi en ekki í sama mæli og konur og þeir vísuðu sjaldan í reynslu annarra og aldrei í kvikmyndir eða bækur. Einn viðmælandi vísaði nokkrum sinnum til náttúrulífsþátta til útskýringar máli sínu.
Ef orðræðan um ástina er skoðuð þá virðumst við tala um ástina eins og við stjórnum henni ekki heldur líkjum við henni við náttúrhamfarir. Við erum ástfangin, við erum fangin af ástinni eða fangar hennar – hún stjórnar okkur en ekki við henni. Við notum náttúrulýsingar þegar við tölum um tilfinningar, við brennum af ást og erum að springa af ást svo að dæmi séu tekin. Viðmælendur vísuðu oft til náttúrunnar í viðtölunum. Ástina þarf að rækta – hún er eins og blóm og hún vex ekki nema að henni sé hlúð voru líkingar sem komu fram í tali þeirra.
Sherry B. Ortner hefur fært fyrir því haldbær rök að í vestrænni menningu sé litið svo á að konur standi nær náttúrunni en karlar menningunni. Ýmislegt bendir til þess að tilfinningar i okkar menningu teljist meira tengdar náttúrunni en rökhyggja tengist meira menningunni. Þar sem orðræðan um ástina tengist náttúrunni sem aftur tengist konum þá er orðræðan kvenkennd. Orðræðan skiptir máli því hún er valdatæki og hefur áhrif á að hvernig fólk skilur samfélagið og hefur áhrif á afstöðu þess til ýmissa hluta. Orðræðan um ástina virðist byggja á tungutaki sem í okkar menningu tengist konum og því kvenlega en ekki því röklega, menningunni, sem tengist karlmanninum. Þetta leiðir hugan að tvennu; hvort karlar eigi þess vegna erfiðara með að nálgast ástina og ræða um hana en konur, hún sé kvennamál og hvort ástin sé jafn þögguð og raun ber vitni því hún er ekki mikið rædd af körlum sem stjórna orðræðu samfélagsins í meira mæli en konur.
John Berger og félagar greina hvernig konur hafa í gegnum aldirnar birst sem viðfang í myndlist. Ekki aðeins það heldur er þeim á lérefti og ljósmyndum stillt upp með þeim hætti að þær horfa með kvenlegum sjarma á karlmennina sem eru að horfa á þær. Berger og félagar telja að þetta hafi áhrif á það hvernig fólk upplifi sig og leiði til þess að „menn geri en konur birtist“ og ekki einungis það heldur „sjái konur sig með augum áhorfandans sem er karlmaður“. Karllæga augnaráðið birtist í viðtölum við konurnar. Konur sjá sig og upplifa sig með augum áhorfandans sem er karlmaður. Helga lýsir þessu svona:
„..einhvern veginn fór [ég] að sjá mig með hans augum og maður fór einhvern veginn líka að elska sjálfan sig. Þannig að mér fannst ég líka, ég vera æðisleg“.
Karlmennirnir tóku ekki þennan pól í hæðina. Þeir lýstu tilfinningunni ástinni með því að tala um sína líðan við þær aðstæður en ekki í gegnum augnaráð ástkonunnar eða ástmannsins. Salka talaði um þetta og á þeim nótum að þetta augnaráð kalli fram vilja og þörf hjá henni til að ganga í augun á einhverjum sem er kannski að horfa.
“…ég veit kannski af einhverjum sem hugsanlega situr þarna og framhjá og reyni að sýna mitt besta í því að vera sexý“.
Er eitthvað vit í að rannsaka ástina?
Það er mín skoðun að það sé goðsögn að ekki sé hægt að rannsaka ástina. Kannski er það goðsögn sem virkar sem yfirbreiðsla á allar þær mótsagnir sem felast í henni, mótsagnir sem felast m.a. í því að við ætlumst til þess að ástarsambönd séu byggð á jafnræði en búum í samfélagi sem er gegnsýrt af kynjamismunun.
Helstu niðurstöður
Umræða um ástina í sinni hversdagslegu mynd sem nánd, girnd, hlýja, traust, kraftur, eigingirni, ótti væntumþykja og svo má lengi telja upp þau hugtök sem birtust í viðtölunum virðist ekki eiga upp á pallborðið. Í þau stöku skipti sem ástin er til umræðu þá virðist það vera á þann veg að strípa hana af þeim mótsögnum sem virðast vera hluti af henni og setja hana fram sem eitthvað yndislegt, heilsteypt og krúttlegt. Eins og viðmælendur ræddu allir um þá er lítið um alvöru umræðu um ástina.
Niðurstöður mínar benda til þess að orðræða um ástina sé kynjuð þar sem hún tengist náttúrunni sem við í okkar menningu tengjum meira konunni en karlinum. Konum er einnig tamara að ræða um ástina en körlum. Viðtölin við þær urðu lengri og þær sögðust ræða meira um sín ástarmál en karlarnir gerðu.
Ef ástin er kynjuð þá vekur það upp spurningar þess efnis hvort kynin hafi ólíkan skilning á ástinni. Mitt svar er að án einhvers sameiginlegs skilnings á ástinni þá færu öll ástarsambönd færu í vaskinn. Hugmyndir okkar um hvað það þýðir að vera karl eða kona og hvernig við eigum að haga okkur samkvæmt því eru hins vegar að lita ástina.
Við þurfum að ræða um ástina með öllum þeim mótsögnum sem hún getur búið yfir, við eigum að gefa körlum og konum það rými sem þarf til að elska án þess að vera hneppt í fjötra kyngervis. Við þurfum að horfast í augu við að ástarsambönd eru ekki undanskilin þeim valdatengslum sem eru ríkjandi í okkar samfélagi hvort sem um er að ræða mismunandi völd kynjanna eða stéttarmun. Þegar horfst er í augu við þessa þætti þá held ég að það komi í ljós að kynin eru ekki gjörólík, þau koma ekki frá sitt hvorri plánetunni. „Ólíkindin“ er goðsögn sem samfélag okkar hefur búið til sem breiðir yfir misrétti, misrétti sem stendur okkur, konum og körlum og ástinni fyrir þrifum.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér efni ritgerðarinnar eða heimildir sem ég nefni þá er ritgerðina að finna á skemman.is