Í Fréttablaðinu hinn 12. nóvember sl. birtist grein eftir Sigríði Hjaltested, aðstoðarsaksóknara í kynferðisbrotamálum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, undir fyrirsögninni Að horfa jafnt til sýknu og sektar". Grein Sigríðar er rituð í kjölfar þess að Fréttablaðið birti við mig viðtal undir fyrirsögninni Hljótum að vilja vernda alla", en þar gagnrýndi ég m.a. núgildandi kynferðisbrotalög. Sú gagnrýni endurómar í bók eftir mig sem kom út nú í haust og nefnist Á mannamáli. Ég vil byrja á því að þakka Sigríði fyrir greinina. Málefnaleg umræða um kynferðisbrot er af skornum skammti, og var umrædd grein gott og þarft innlegg. Hins vegar erum við Sigríður ósammála um nokkur atriði sem rakin verða hér á eftir.
Sigríður sagði: Nauðgun er því eitt af þeim brotum sem varða lengstri tímabundinni refsingu í almennum hegningarlögum, eða allt að 16 árum." Rétt er það, en mikil tregða hefur verið til þess að nýta refsirammann, sem fram til þessa hefur einungis verið nýttur til hálfs. Að vitna til hámarksrefsingar í kynferðisbrotamálum er sambærilegt við að gefa í skyn að silfurverðlaun íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum beri vitni um almennt gengi Íslendinga í hópíþróttum.
Bann við nauðgun má finna í 194. grein almennra hegningarlaga. Þar segir: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun "
Eins og sjá má á þessu orðalagi leggja lögin mikla áherslu á verknaðarlýsingu nauðgunar, fremur en hvort samræðið hafi farið fram með samþykki beggja aðila. Ég er talsmaður þess að lögunum sé breytt í þá veru að byggja þau alfarið á samþykkisskorti, fremur en ofbeldi, hótunum og nauðung. Ástæða þess er sú að í ýmsum tilfellum þurfa menn ekki að beita slíkum brögðum til að ná fram vilja sínum, en ættu engu að síður að þurfa að axla ábyrgð á gjörðum sínum.
Mótspyrna sem skilyrði Sigríður fullyrðir að mótspyrna brotaþola sé ekki skilyrði" í nauðgunarmálum samkvæmt gildandi lögum. Nýlegir dómar benda til hins gagnstæða. Ég skrifaði bókina Á mannamáli í kjölfar sýknudóms Héraðsdóms Reykjavíkur í nauðgunarmáli nr. S-839/2007. Í dómsorði stóð að óhætt væri að slá því föstu" að samræðið hefði farið fram gegn vilja brotaþolans. Þar sagði einnig: Jafnframt er sýknað á þeirri forsendu að stúlkan hafi ekki veitt viðnám eða kallað eftir hjálp." Maður nokkur var sýknaður í nauðgunarmáli fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra í máli nr. S-316/2007 með eftirfarandi orðum dómsins: Þá verður að leggja til grundvallar framburð Y þess efnis að hún hafi verið með nokkurri meðvitund meðan ákærði leitaði á hana. Að þessu virtu þykir ölvunarástand hennar og svefndrungi ekki geta skýrt það hvers vegna hún spornaði ekki við athöfnum ákærða og kallaði ekki eftir hjálp en fyrir liggur að bróðir hennar var í næsta herbergi."
Með öðrum orðum: Þar sem konan var með nokkurri meðvitund" meðan ákærði leitaði á hana var hún sjálfkrafa skyldug til að spyrna á móti. Þetta gilti burtséð frá því að ákærði játaði að hafa komið óboðinn upp í rúm til konunnar meðan hún svaf. Hann viðurkenndi jafnframt að hún hefði ekki gefið vilja til kynmaka í ljós á nokkurn hátt, né tekið þátt í athæfinu með neinu móti, en samkvæmt frásögn konunnar var hún of óttaslegin til þess að veita viðnám.
Í maí 2009 varð kona nokkur fyrir því að ókunnur maður átti við hana samræði og notfærði sér að herbergið var myrkvað og að konan skyldi telja hann vera annan mann sem hún hafði áður átt kynferðislegt samneyti við. Samkvæmt lýsingu brotaþolans voru mökin búin að standa yfir í nokkrar mínútur þegar hún sá framan í manninn og blasti þá við henni glott og ekki sama andlitið" eins og hún orðaði það í skýrslu fyrir dómi. Hún tilkynnti brotið umsvifalaust og kærði manninn fyrir nauðgun. Í dóminum sagði: verður ekki séð að sú háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru, og sannað er að hann hafi viðhaft gagnvart kæranda, falli undir brotalýsingu 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga" (Héraðsdómur Reykjavíkur, mál nr. S-676/2009.) Þótt sannað væri að maðurinn hefði ekki fengið upplýst samþykki brotaþolans fyrir kynmökunum var hann engu að síður sýknaður af nauðgun, einfaldlega því hann þurfti ekki að beita þeim aðferðum sem lýst er í núgildandi lögum. Hann var þó dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir brot gegn blygðunarsemi konunnar (sem er lágmarksrefsing fyrir blygðunarsemisbrot, en refsiramminn leyfir allt að 4 ára fangelsisvist.)
Í engu þeirra þriggja mála sem nefnd eru hér að framan fékk ákærði samþykki brotaþolans fyrir kynmökunum, og þótti það sannað. Ef íslenskum nauðgunarlögum yrði breytt þannig að þau byggðu á samþykkisskorti (líkt og gert er í Bretlandi, Írlandi og víðar), í stað núgildandi ofbeldisákvæðis, hefði ákærði sennilega verið sakfelldur í öllum málunum. En svo langt vill Sigríður ekki ganga. Hún telur að slík breyting hefði fyrst og fremst táknræna þýðingu" en þykir ólíklegt hún myndi skila sér í fleiri ákærum og sakfellingum.
Lög senda skilaboð Lög senda skilaboð. Til að mynda voru lög við lýði á Íslandi fram til ársins 2007 sem gerðu það að verkum að fella mátti niður refsingu fyrir nauðgun ef ofbeldismaðurinn og brotaþolinn gengju í hjónaband. Ákveðið var að fella þetta ákvæði niður því það þótti ekki við hæfi að lögin hvettu fólk til að vera í ofbeldissambandi. Orðalag núgildandi nauðgunarákvæðis sendir einnig ákveðin skilaboð. Þau undanskilja brotaþola sem telja sig ekki hafa verið beittir annars konar ofbeldi", hótunum" eða ólögmætri nauðung" þegar þeim var nauðgað. Hæpið er að þessir brotaþolar leiti réttar síns, þar sem glæpurinn sem framinn var gegn kynfrelsi þeirra samræmist ekki skilgreiningu laganna á nauðgun. Sigríður bendir réttilega á að í nauðgunarmálum verður að vera hægt að sanna ásetning ákærða til verksins. Hér myndi ég vilja að forsendum yrði breytt. Ef fartölva Jóns nokkurs Jónssonar er tekin traustataki þykir ekki nauðsynlegt að láta Jón sanna fyrir rétti að samþykki hans hafi ekki legið fyrir stuldinum. Gengið er út frá því að Jón vilji ekki láta stela fartölvunni sinni, og um leið að ásetningur þjófsins hafi verið að stela. Mætti ekki ganga að sama skapi út frá því að fólk vilji ekki láta hafa við sig ósamþykkt kynmök? Mætti ekki skylda fólk til þess að biðja um leyfi fyrir afnotum af skrokki annarrar manneskju, rétt eins og biðja þarf um leyfi fyrir afnotum af öðrum eigum?
Sigríður telur nauðsynlegt að starfsmenn réttarkerfisins njóti leiðsagnar skýrrar verknaðarlýsingar lagaákvæðis" við störf sín. Hún segir að erfitt myndi reynast að túlka samþykkisákvæði, væri slíkt fyrir hendi í lögum. Vert er að benda á að ekki ríkir sátt um hvernig beri að túlka ofbeldisákvæðið heldur. Nauðgunarmálið sem varð til þess að ég skrifaði áðurnefnda bók sýnir berlega þennan ágreining, en í kjölfar þess tókust Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands á um hvað væri ofbeldi og hvað ekki. Við ættum þó öll að geta verið sammála um að nauðgun, þ.e. kynmök án upplýsts samþykkis beggja aðila, er ofbeldi í sjálfu sér.
Eiga ekki lögin að vernda alla? Sigríður leggur áherslu á að íslenska réttarkerfið geri ráð fyrir sakleysi manna uns sekt þeirra er sönnuð og vísar í því samhengi í Mannréttindasáttmála Evrópu. Hér er vert að minnast þess að Ísland er einnig aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í athugasemdum um stöðu Íslands árið 2005 lýsti Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum sínum yfir miklum fjölda tilkynntra nauðgana í aðildarríkinu samanborið við fjölda lögsókna vegna nauðgunar". Við þetta tækifæri minnti nefndin á að óvissa torveldar sakfellingu en ekki lögsókn og að það er hlutverk dómstóla að ákvarða hvort sök teljist sönnuð eður ei". Með öðrum orðum á fólk rétt á því að dómstólar úrskurði um mál þeirra. Þó er yfirgnæfandi meirihluti tilkynntra nauðgunarmála hérlendis, eða 70%, felldur niður. Brotaþolarnir fá því ekki tækifæri til að leggja mál sitt undir dóm. Sigríður spyr hvort við, sem samfélag, viljum ekki vernda saklausa frá því að vera dæmdir sekir. Ég spyr á móti: Eiga lögin ekki að vernda alla, en ekki aðeins þann hluta fólks sem er sviptur kynfrelsi sínu á hátt sem samræmist ákveðnu orðalagi? Viljum við að orðalag laganna firri þá, sem leita ekki samþykkis fyrir kynmökum, ábyrgð á gjörðum sínum? Ég tek heilshugar undir með niðurlagi Sigríðar: Þegar upp er staðið hlýtur niðurstaðan ávallt að vera sú, að við viljum hafa lagareglur sem vernda alla. Höfundur er áhugakona um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.