Ljósberarnir okkar

Inga Dóra Pétursdóttir skrifar

Ljósberarnir okkar



Dagurinn 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur  gegn kynbundnu ofbeldi. Líkt og undanfarin ár stendur UN Women fyrir Ljósagöngu sem verður farin í kvöld klukkan sjö. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks til að vekja athygli á hinum ólíku birtingarmyndum kynbundins ofbeldis og afleiðingum þess. Átakinu lýkur 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi. Það er vissulega dapurlegt  að við þurfum enn að hafa sérstakan dag tileinkaðan baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og hamra á þeirri illþyrmilegu staðreynd að ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreiddasta mannréttindabrot í heimi. 

Mér fallast stundum hendur yfir gengdarlausu ofbeldi sem konur og stúlkur verða fyrir um heim allan. Það er mikilvægt að hafa í huga að kynbundið ofbeldi er hluti af samfélagslegu meini; ójafnri stöðu kynjanna. 

En stundum verð ég líka orðlaus fyrir samtakamættinum sem við getum sýnt. Þann 14. nóvember tóku yfir eitt þúsund Íslendingar höndum saman og komu af stað fiðrildaáhrifum á Fiðrildafögnuði UN Women, og lögðu þar sitt af mörkum til að bæta stöðu kvenna og stúlkna um allan heim. 

Þrátt fyrir að við þurfum að leysa mörg vandamál hér á Íslandi, þá getum við sem samfélag verið stolt yfir stórstígum framförum í átt að jafnrétti undanfarna áratugi. Alþjóðaefnahagsráðið? hefur undanfarin fimm ár sagt að Ísland sé það land þar sem best er að fæðast sem stúlka og búa á sem kona. En í besta landi í heimi berast lögreglu tilkynningar um kynferðisbrot á hverjum einasta degi, þolendur nauðgana leita á neyðarmóttöku og í Kvennaathvarfinu dvelja konur og börn allan ársins hring sem hafa flúið ofbeldi á heimili sínu. Við eigum ekki að hætta baráttunni fyrr en að Kvennaathvarfið og neyðarmóttakan eru óþörf. 

14. nóvember 1981 komu saman nokkur hundruð kvenna á Hótel Borg. Þær vissu ekki að þær komu af stað fiðrildaáhrifum sem enn sér ekki fyrir endann á. Konurnar sem boðuðu til fundarins á Hótel Borg vildu kanna hug kvenna til að bjóða sig fram til borgarstjórnar. Út frá þessum fundi varð til Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn.

Þegar Kvennalistinn bauð fram til alþingiskosninga árið 1983 voru einungis 5% þingmanna konur en eftir kosningar varð hlutfall kvenna 15%. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að fyrir þann tíma höfðu aðeins 12 konur setið á Alþingi á sextíu árum. 

Kvennalistakonum var ekki einungis umhugað að koma konum til valda, heldur lögðu þær ríka áherslu á samfélagsmál og bætta stöðu kvenna og barna. Í fyrsta skipti á Alþingi var fjallað um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, réttindi samkynhneigðra, fæðingarorlof og dagvistar- og skólamál. 

Kvennaframboðið átti frumkvæði af því Kvennaathvarfið var sett á fót og Kvennalistakonur börðust fyrir því að rannsókn og meðferð nauðgunarmála yrði bætt og neyðarmóttakan var stofnuð. Þrátt fyrir að aðeins séu 30 ár síðan Kvennalistakonur komust inn á þing, hafa fyrir tilstuðlan þeirra unnist stórir sigrar í jafnréttismálum. 

Við stöndum í mikilli þakkarskuld við Kvennalistakonur og allar aðrar baráttukonur á Íslandi. Þær eru ljósberar íslensks samfélags. Því munu stofnendur Kvennalistans verða ljósberar í Ljósagöngunni í kvöld. Höldum baráttunni áfram; kraftur, þor, von og barátta er það sem mun skila okkur betra samfélagi. Sjáumst í Ljósagöngunni!