- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem samþykkt voru fyrr á þessu ári, er kynbundið ofbeldi skilgreint sem ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þolenda. Einnig teljast hótanir um slíkt ofbeldi, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis á grundvelli kynferðis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi, til kynbundins ofbeldis.
Íslenska skilgreiningin er byggð á einni fyrstu opinberu skilgreiningunni á kynbundnu ofbeldi, sem var sett fram árið 1993 í yfirlýsingu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Þar kemur fram að hugtakið ofbeldi gagnvart konum nái yfir ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Ákvæðið um kynbundið ofbeldi í íslenskum lögum er kynhlutlaust, sem þýðir að það nær jafnt yfir ofbeldi gegn konum og körlum, svo framarlega sem ofbeldið er á grundvelli kynferðis. En þó að konur og karlar geti orðið fyrir kynbundnu ofbeldi, sýna flestar rannsóknir að konur verði í mun meiri mæli en karlar fyrir slíku ofbeldi. Konur verða oftar fyrir kynferðislegu ofbeldi en karlar, þær eru oftar beittar líkamlegu ofbeldi í nánum samböndum og þær eru líklegri en karlar til þess að vera myrtar af maka sínum eða fyrrverandi maka.
Í samantekt á rannsóknum sem gerð var fyrir sérfræðinganefnd Evrópuráðsins í jafnréttismálum árið 2006, kom fram að allt að fjórðungur kvenna í hinum ýmsu Evrópulöndum hafði orðið fyrir líkamlegu ofbeldi að minnsta kosti einu sinni á ævinni og meira en ein af hverjum tíu hafði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem fól í sér beitingu valds. Alls höfðu allt að 45% kvenna í rannsóknunum orðið fyrir einhverri tegund ofbeldis, og allt að 15% kvennanna höfðu eftir 16 ára aldur verið í nánu sambandi sem var ofbeldisfullt.
Evrópuráðið er alþjóðasamtök 46 ríkja í Evrópu og var það stofnað árið 1949. Evrópuráðið stóð fyrir herferð til að berjast gegn ofbeldi gegn konum sem hófst í nóvember 2006 og lauk í júní 2008. Markmið herferðarinnar var ekki síst að auka vitund almennings um að ofbeldi gegn konum væri brot á mannréttindum. Einnig var lögð áhersla á það að fá aðildarríki ráðsins til þess að beita sér fyrir upprætingu ofbeldis gegn konum.
Eitt af því sem herferðin leiddi í ljós var að meira en helmingur aðildarríkja Evrópuráðsins hefur tekið upp hina svokölluðu austurísku leið, sem felur í sér að heimilt er að fjarlægja ofbeldismann af heimili til þess að vernda annað heimilisfólk. Þing Evrópuráðsins samþykkti í október 2007 ályktun sem skilgreindi sjö lágmarksskilyrði fyrir fullnægjandi lagasetningu vegna ofbeldis gegn konum, en eitt af þeim skilyrðum er einmitt að hægt sé að fjarlægja ofbeldisfullan maka af heimili. Þessi leið hefur ekki verið lögfest hérlendis.
Í skýrslum sem unnar voru fyrir áðurnefnda herferð Evrópuráðsins, kom fram að nokkuð skortir á að Ísland uppfylli skilgreind lágmarksskilyrði. Hér eru færri pláss í kvennaathvörfum en viðmiðunartölur Evrópuráðsins gera ráð fyrir og talsvert skortir á að söfnun tölulegra upplýsinga um kynbundið ofbeldi sé fullnægjandi. Samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis, sem samþykkt var árið 2006, er fyrirhugað að auka upplýsingaöflun á þessu sviði.
Í haust fór af stað símakönnun á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins meðal kvenna á aldrinum 18-80 ára til að afla upplýsinga um ofbeldi gegn konum. Auk símakönnunarinnar er ætlunin að gera viðtalskannanir meðal starfsmanna félagsþjónustu, barnaverndar, leikskóla, grunnskóla, heilbrigðiskerfis, félagasamtaka og lögreglu. Rannsóknirnar eru hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, en þeim er ætlað að varpa ljósi á það hvernig sé hægt að efla núverandi þjónustu og ekki síður að leiða í ljós hvaða úrræða sé þörf til að aðstoða konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi.
Ljóst er að mikið verk er enn óunnið í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi sem annars staðar, þó að margt hafi áunnist. Ákvæði í nýjum jafnréttislögum, aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og auknar rannsóknir á tíðni kynbundins ofbeldis eru allt skref í rétta átt. Þróunin í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi er hröð og Íslendingar mega ekki dragast aftur úr öðrum Evrópuþjóðum á þessu sviði.
Sérstaklega er mikilvægt að standa sérstaklega vörð um mannréttindi kvenna í efnahagskreppunni sem nú ríður yfir, því að vitað er að efnahagsþrengingar geta haft í för með sér aukið ofbeldi gegn konum. Nú þegar hefur aðsókn í Kvennaathvarfið aukist og mikilvægt er að niðurskurður bitni ekki á þessum málaflokki. Það getur aldrei talist ásættanlegt að helmingur mannkyns eigi sérstaklega á hættu að vera beittur ofbeldi eingöngu vegna kynferðis. Sextán daga átakið er nauðsynlegt til þess að minna okkur á þessa staðreynd.