Munur á atvinnutekjum kynjanna snarminnkar

Ingólfur V. Gíslason skrifar

Munur á atvinnutekjum kynjanna snarminnkar

Efnahagskreppan sem Íslendingar hafa verið að takast á við hefur haft margvísleg áhrif á stöðu og samspil kynjanna. Sum þessara áhrifa eru líklega tímabundin en önnur eru komin til að vera og móta íslenskt samfélag næstu áratugi.Sú staðreynd að karlar hafa verið atvinnulausir í mun ríkari mæli en konur eftir hrun, er vel þekkt. Þrátt fyrir nokkuð stöðugar spár allt frá hruni um viðsnúning og aukið atvinnuleysi kvenna, hefur slíks ekki orðið vart enda ekki náttúrulögmál að opinberir aðilar þurfi að segja upp starfsfólki. En það eru fleiri hliðar á stöðu kynjanna á vinnumarkaði sem ástæða er til að vekja athygli á. Einn þeirra er þróun atvinnutekna.
 
Munur á atvinnutekjum kynjanna hérlendis hefur lengi mælst verulegur og fjölmargar ráðstefnur, þing og málstofur hafa verið haldin til að reyna að finna leiðir til að minnka þennan mun og helst útrýma honum með öllu. Kreppan virðist hafa fært okkur verulega nær því takmarki. Á mynd 1 má sjá þróun þessara mála frá 1991 til 2009.

Mynd 1. Vinnumarkaðstekjur kvenna sem hlutfall af vinnumarkaðstekjum karla 1991 - 2009


Heimild: Eigin útreikningar byggðir á gögnum frá Hagstofu Íslands

Neðri línan sýnir þróunina varðandi heildaratvinnutekjur karla og kvenna eins og þær birtast í skattframtölum. Efri línan sýnir sömu tekjur en nú að teknu tilliti til vinnutíma. Eins og sjá má þarf ekki nema 2-3 kreppuár í viðbót til að þetta vandamál sé úr sögunni, haldi þróunin áfram með þessum hætti.

En hvað er hér að baki? Er það bara atvinnuleysi og tekjumissir karla? Já og nei.

Vissulega er það svo að tekjumissir karla útskýrir þetta að verulegu leyti en það er áhugavert að sjá að konur auka atvinnutekjur sínar bæði hrunárin sem hér eru undir. Aukning atvinnutekna karla frá 2007 til 2008 var 3,83%. Konur hins vegar juku atvinnutekjur sínar um 7,95% á sama tíma. Frá 2008 til 2009 lækkuðu svo atvinnutekjur karla um 5,73% en konur héldu áfram að auka sínar þó nú væri það aðeins um 0,26%.

Þessum breytingum er ekki jafnt dreift á öll aldursbil. Á mynd 2 má sjá samdráttinn í tekjum karla og kvenna skipt á 5 ára aldursbil. Hér er ekki tekið tillit til vinnutíma.

Mynd 2. Tekjumunur eftir aldri

Heimild: Eigin útreikningar byggðir á upplýsingum frá Hagstofu Íslands

Svo sem sjá má er það fyrst og fremst í yngri aldurshópunum, fram að 45 ára aldri sem bilið hefur minnkað. Hugsanlegur skýringarþáttur er að þetta er aldurshópurinn þar sem menntunarbylting kvenna er hvað greinilegust. Nýlega birtar tölur Hagstofunnar um menntunarstig þjóðarinnar sýndu þannig m.a. að meðal Íslendinga yngri en 74 ára hafa 28,8% kvenna lokið háskólaprófi en 21,7% karla. Í aldursflokknum 25-29 ára hafa hins vegar ríflega 41% kvenna lokið háskólaprófi en innan við 23% karla.
Hér gæti líka stutt við breytinguna að þetta er sá aldurshópur sem líklegastur er til að hafa notið góðs af þeim breytingum sem gerðar voru árið 2000 á lögum um fæðingarorlof. Rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til þess að þær breytingar hafi orðið til þess að jafna nokkuð stöðu kynjanna á vinnumarkaði og innan veggja heimilanna.

Að lokum er svo rétt að vekja athygli á því að þessar breytingar eru mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Bilið á atvinnutekjum kynjanna minnkaði um 8% á höfuðborgarsvæðinu en um 3% utan þess. En innan höfuðborgarsvæðisins er einnig mikill munur. Á landsvísu eru konur með 67,7% af atvinnutekjum karla ef ekki er tekið tillit til vinnutíma. Í hverfinu í Reykjavík með póstnúmer 105 eru konur á sama mælikvarða með 80,5% af tekjum karla en í 112 aðeins 70,9%. Í öllum hverfum Reykjavíkur er bilið þó minna en landsmeðaltalið.

Árið 2009 voru eiginkonur með hærri atvinnutekjur en eiginmenn þeirra á 22,3% heimila landsins. Sambærileg tala á höfuðborgarsvæðinu var 23,9%.