Ný námsskrá fyrir jafnréttisfræðslu

Frá því að fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt hér á landi fyrir 40 árum hefur mikil áhersla verið lögð á fræðslu um jafnréttismál með margvíslegum hætti. Frá upphafi hefur verið kveðið á um jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum en því miður hefur verið mikill misbrestur á hvað varðar framkvæmd þessarar greinar. Það er fyrst nú á allra síðustu árum sem farið er að kenna kynjafræði á framhaldsskólastigi en reyndar er enn um valgrein að ræða. Kynjafræði hefur verið kennt í Háskóla Íslands um langt skeið en hún ætti auðvitað að vera skylda í námi í það minnsta allra kennara. Jafnréttisstofa hefur boðið upp á margs konar fræðslu í þau 16 ár sem hún hefur starfað, ekki síst um samþættingu kynjasjónarmiða inn í alla ákvarðanatöku bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Jafnréttislögin (16. gr.)  kveða á um að kyngreina skuli allar tölur við hagskýrslugerð en því miður er þetta ákvæði ekki alltaf virt. Nýlegt dæmi um það er að finna í frv. til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna en þar hefði kyngreining upplýsinga og talna skipt miklu máli. Það er sannarlega þörf á fræðslu um jafnrétti kynjanna og þau lög sem gilda í landinu. Kyn skiptir svo sannarlega máli. Jafnrétti kynanna (allra) snýst ekki aðeins um grundvallarmannréttindi heldur einnig um betra og réttlátara samfélag. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt mikla áherslu á jafnréttisfræðslu í sínum samþykktum, sáttmálum og aðgerðaáætlunum sem við erum bundin af, ekki síst fyrir þá sem vinna að stefnumótun og ákvarðanatöku. En hvað á að kenna og hvernig? Hvernig á að mennta þá sem sinna jafnréttisfræðslu? 

Hvernig á að fræða?

Undanfarin tvö ár hefur Jafnréttisstofa tekið þátt í evrópsku  verkefni um samræmda jafnréttisfræðslu. Það var jafnréttisskrifstofan í Niederösterreich, sem er eitt af héruðum Austurríkis, sem átti frumkvæði að verkefninu og fékk til liðs við sig tvö félagasamtök í Króatíu, ein í Litháen og svo Jafnréttisstofu. Ástæðan fyrir því að farið var af stað með þetta verkefni var sú að umræður komu upp í Austurríki um það hve misjöfn jafnréttisfræðsla væri, t.d. fyrir opinbera starfsmenn, fólk notaði alls konar aðferðir, ýmis hugtök og það væru engar lágmarkskröfur eða viðmiðanir til. Því var sótt um styrk í Erasmus prógramm Evrópusambandsins og reynt að fá ólíka aðila í mismunandi löndum Evrópu til að taka þátt í að búa til samræmda námskrá.

Verkefnið var þannig upp byggt að haldnir voru fundir í öllum aðildarlöndunum, stofnanir heimsóttar og leitað ráða hjá fólki sem fengist hefur við jafnréttisfræðslu. Í Litháen heimsóttum við EIGE sem er jafnréttistofnun Evrópusambandsins. Stofnunin vinnur að því að koma upp miklum gagnabanka um jafnréttismál, m.a. er þar að finna mikið efni um samþættingu kynjasjónarmiða inn í alla stefnumörkun (e. gender mainstreaming). Það er fróðlegt að skoða vef stofnunarinnar sem einnig gefur út alls konar skýrslur og fræðsluefni. Síðasti áfanginn var svo stór ráðstefna sem haldin var í St. Pölten sem er höfuðborg Niederösterreich. Þar voru flutt erindi um árangur, áskoranir og reynslu af jafnréttisfræðslu á ýmsum sviðum t.d. hjá NATO. Það er ljóst að Evrópa stendur frammi fyrir miklum vanda, t.d. straumi flóttamanna sem verður að sinna með sóma, efnahagssamdrætti og vaxandi öfgahreyfingum sem beita sér m.a. gegn áhrifum kvenna, samkynhneigðum og transfólki, sem  og flóttafólki. Því miður hafa umbrot í álfunni bitnað á jafnréttismálunum bæði fjárhagslega og pólitískt. 

Frá hugtökum til aðferða

Verkefnahópurinn safnaði dæmum um „fyrirmyndarfræðslu“, eða námskeið sem gefist hafa vel og einnig hvað beri að varast. Smátt og smátt tók námskráin á sig mynd og hefur nú verið birt á netinu. Hún er ætluð þeim sem undirbúa aðra til að stunda jafnréttisfræðslu. Þar sem um netútgáfu er að ræða er hægt að endurbæta hana ef ábendingar eða góðar hugmyndir koma upp. 

Námskráin er þannig upp byggð að fyrst er inngangur um verkefnið en síðan hefst sjálf námskráin á kafla um það hvað þeir þurfa að vita sem stunda jafnréttisfræðslu. Sagan er rakin stuttlega, m.a. út frá starfi Sameinuðu þjóðanna að málefnum kvenna en ríkin á EES svæðinu hafa öll fullgilt Kvennasáttmála SÞ og staðið að samþykkt Pekingsáttmálans og aðgerðaáætlunarinnar frá árinu 1995. Farið er yfir helstu lög og tilskipanir EU og áhersla lögð á framlag SÞ, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins til jafnréttismála. Vefir þessara stofnana geyma margvíslegt efni um kynjajafnrétti. Þá er farið yfir nokkur mikilvæg hugtök, t.d. kyngervi, kynjajafnrétti, kynjasamþættingu og nauðsyn kyngreindra upplýsinga. Næst er fjallað um verkfærin sem búið er að þróa til að vinna að kynjajafnrétti, t.d. kynjamat, kynjaða fjárlaga- og fjárhagsáætlanagerð og aðferðir sem beitt er við kynjasamþættingu. Gagnabanki EIGE er kynntur, þ.e. sá hluti þar sem staða kynjajafnréttis er mæld og borin saman milli landa (e. gender index). Næst kemur röðin að kynjahlutverkum þar sem  sjónum er beint að þeim sem sinnir jafnréttisfræðslunni og staðalmyndum kynjanna sem allir þurfa að vera vel vakandi yfir enda mjög rótgrónar í flestu fólki. Næsti kafli fjallar um góð dæmi (e. best practises) í jafnréttisfræðslu bæði hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Þá kemur röðin að aðferum, innihaldi fræðslunnar og nauðsyn þess að meta og mæla árangur. Að lokum er svo gátlisti fyrir þá sem vinna að jafnréttisfræðslu. 

Það er von okkar sem stóðum að þessu verkefni að þessi námskrá veki umræður og verði notuð, í það minnsta að hún verði leiðbeinandi fyrir þá sem vinna við jafnréttisfræðslu. Námskráin er enn sem komið er aðeins til á ensku en vonandi  verður hún fljótlega þýdd yfir á íslensku.

....

Námsskrá fyrir jafnréttisfræðslu