Þær umræður sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði um ofbeldi í íslensku samfélagi, ekki síst kynferðisofbeldi, sýna og sanna að mikil þörf er á umræðum, vakningu og aðgerðum. Það verður aldrei rætt nógu mikið um kynferðisofbeldi og þær afleiðingar sem það hefur bæði á sál og líkama þeirra sem fyrir því verða.Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi boðar Jafnréttisstofa til málþings 4. desember ásamt Háskólanum á Akureyri og Aflinu þar sem sjónum verður sérstaklega beint að landsbyggðunum. Málþingið verður haldið að Borgum við Norðurslóð á Akureyri og hefst kl. 12.45.
Það gefur auga leið að konur og börn sem einkum verða fyrir alvarlegu ofbeldi í nánum samböndum sem og kynferðisofbeldi eiga því erfiðara með að leita sér aðstoðar því fjær sem þau búa frá höfuðborgarsvæðinu. Það getur verið mjög langt á næsta sjúkrahús eða heilsugæslustöð og hvað á þá að gera? Ef kona þarf að leggja á flótta undan ofbeldismanni vandast málið heldur betur. Eina kvennaathvarf landsins er í Reykjavík og þangað þurfa konur að komast ef niðurstaðan verður sú að leita þangað
Ofbeldið er lýðheilsumál
Svíar gerðu mikla úttekt á ofbeldismálum hjá sér og lauk henni árið 2014. Meginniðurstaðan var sú að kynbundið ofbeldi væri lýðheilsumál sem þyrfti að nálgast frá mörgum hliðum. Löggjöfin þarf að vera öflug, lögreglan í stakk búin til að taka á málum, heilbrigðisþjónustan í viðbragðsstöðu, félagsþjónustan með margs konar úrræði og barnaverndin með blikkandi ljós. Þá er mikil þörf á bættri menntun fagstétta, rannsóknum og stöðugri fræðslu til almennings. Af þessu getum við mikið lært því víða er pottur brotinn hér á landi.
Það má segja að íslensk stjórnvöld hafi fremur valið þá leið að styrkja frjáls félagasamtök til að vinna með þolendum ofbeldis fremur en að byggja upp opinbera þjónustu. Spurningin er hvort við þurfum ekki hvort tveggja. Kvennaathvarfið, Stígamót og systursamtök þeirra hafa unnið frábært starf í áratugi en betur má ef duga skal. Við erum að glíma við aldagamla og djúpstæða ofbeldismenningu, kynjakerfið og átök þar sem einstaklingar koma við sögu.
Hver ber ábyrgðina?
Hvernig er staðan á landsbyggðinni? Á Ísafirði starfa samtökin Sólstafir við að aðstoða konur sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi og á Akureyri er Aflið. Undirrituð hefur fylgst með störfum Aflsins undanfarin ár og það má fullyrða að þær konur sem standa að Aflinu vinna gríðarlegt starf. Þær aðstoða brotaþola kynferðisofbeldis og virka sem kvennaathvarf, því þær skjóta oft skjólshúsi yfir konur á flótta. Engu að síður eru styrkir til þeirra skornir niður við trog og eru ekki í neinu samræmi við þörfina.
Hver ber ábyrgð á þjónustu við brotaþola? Hver er ábyrgð ríkisins, t.d. hvað varðar heilbrigðisþjónustu, sálfræðiaðstoð, aðgerðir lögreglu, menntun fagstétta, vitnavernd og fræðslu fyrir almenning, að ekki sé nú minnst á fræðslu fyrir dómara? Hver er ábyrgð sveitarfélaga þegar kemur að félagslegum úrræðum, aðstoð við börn, tilkynningaskyldu og stuðning við félagasamtök sem veita brotaþolum jafningjaþjónustu? Hvernig reynast þau úrræði sem standa til boða, t.d. samvinna lögreglu og félagsmálayfirvalda sem kenndar hafa verið við Suðurnesjaleiðina? Hverju er verkefnið Karlar til ábyrgðar að skila en það býður upp á meðferð fyrir karla sem beita maka sína ofbeldi og nú síðast hefur verið boðið upp á sambærilega þjónustu fyrir konur. Þarf ekki að efla þjónustu við þolendur ofbeldis í heimabyggð?
Allt þetta þarf að ræða en síðast en ekki síst þurfum við að innleiða Istanbúlsamninginn sem fjallar um baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi og vinna samkvæmt honum. Hann leggur ríkar skyldur á hendur yfirvalda og þeim þarf að sinna strax. Sýnum ofbeldismenningunni enga linkind heldur kveðum hana niður.