- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Í síðustu viku var haldin ráðstefna í Helsinki í Finnlandi á vegum Evrópuráðsins, finnska þingsins og utanríkisráðuneytis Finnlands til að kynna samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og ofbeldi á heimilum.Þátttakendur komu frá ríkjum í norðanverðri Evrópu en sambærilegar ráðstefnur verða haldnar á öðrum svæðum álfunnar. Annars vegar voru haldin erindi um inntak samningsins, hins vegar greindu fulltrúar einstakra ríkja frá því hvað væri verið að gera til að undirbúa gildistöku samningsins sem og aðgerðum sem gripið hefur verið til í þeirra heimalöndum. Það er ástæða til að hvetja fólk til að kynna sér samninginn sem er mjög viðamikill og tekur á ótal þáttum þar með talið ýmsu sem fengið hefur litla umræðu hér á landi. Þar má t.d. nefna eltihrella (e. stalking) og þvinguð hjónabönd sem eru ótrúlega algeng jafnvel í Evrópu.
Í opnunarræðu Phillippe Boillat sem er mannréttindastjóri Evrópuráðsins kom fram að 25 af 47 aðildarríkjum ráðsins hafa undirritað samninginn en hann var lagður fram á fundi í Istanbúl 11. maí. 2011. Þann dag undirritaði Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra samninginn fyrir Íslands hönd og er nú unnið að innleiðingu hans. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands yfirfór samninginn og kortlagði hvaða breytingar þyrfti að gera á lögum, reglum og starfsemi hér á landi svo hægt væri að uppfylla skilyrði samningsins. Tíu lönd verða að uppfylla ákvæði samningsins til þess að hann öðlist gildi og vinna mörg ríki að því verki. Eitt af því sem Philippe Boillat nefndi til rökstuðnings því að efla baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (ofbeldi í nánum samböndum) var sá gríðarlegi kostnaður sem því fylgir.
Talið er að kostnaður í ríkjum Evrópuráðsins sé á bilinu 9 - 555 evrur á mann eða um það bil 1530 – 94.350 kr. á hvern íbúa á ári. Það er erfitt að meta kostnaðinn auk þess sem ofbeldi er mismikið og missýnilegt í einstökum löndum. Kostnaðurinn kemur fram hjá lögreglunni, í heilbrigðiskerfinu, hjá félagsþjónustunni, barnaverndaryfirvöldum, kvennaathvörfum og víðar. Þetta er gríðarlegur kostnaður þótt andlegur og líkamlegur kostnaður einstaklinganna vegi auðvitað þyngst. Bent er á kostnaðinn til að vekja athygli á því að kynbundið ofbeldi er samfélagsmein sem er öllu samfélaginu mjög dýrt.
Þingmaðurinn Mendes Bota frá Portúgal er mikill baráttumaður gegn kynbundnu ofbeldi og fer fyrir samstarfsneti þingmanna í Evrópuráðinu sem vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Hann nefndi í sinni ræðu að hægt væri að innleiða samninginn þótt eitthvað stæði út af og sagði að á síðasta ári hefðu 40 konur verið myrtar í Portúgal af ofbeldisfullum mökum eða fyrrverandi mökum. Það vantaði áhættumat fyrir þessar konur og það kostaði þær lífið.
Prófessor Christine Chinkin frá London School of Economics fjallaði um inntak samningsins og benti á að hann næði bæði til mannréttinda- og hegningarlaga. Í fyrsta sinn í alþjóðasamningi er kveðið á um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (e. gender identity) og bann við heiðursmorðum (honour killings) er nefnt sérstaklega. Í samningnum koma sjónarmið brotaþola mjög sterklega fram enda er megintilgangurinn að vernda þá og kveða ofbeldi gegn konum niður, m.a. með því að binda endi á það refsileysi (e. impunity) sem nú viðgengst til dæmis í nauðgunarmálum. Það mikilvægasta er að þau ríki sem innleiða samninginn verða að grípa til aðgerða.
Fulltrúi UN Women Lakshimi Puri ávarpaði ráðstefnuna og sagði að þessi merki samningur væri mikilvæg fyrirmynd sem ætti eftir að breiðast út um heiminn og birtast í löggjöf fjölda ríkja. Hún lagði áherslu á forvarnirnar sem samningurinn kveður á um og kallaði eftir heildstæðri stefnu hvað þær varðar. Kynjajafnrétti kostar peninga og barátta gegn ofbeldi kostar líka peninga, sagði Puri. Hún lagði áherslu á baráttu gegn skaðlegum siðvenjum og nefndi að búið væri að skrásetja um 3000 slíkar í Afríku. Hér má skjóta því inn að meðal slíkra hefða eru limlestingar á kynfærum stúlkubarna og einnig það að kenna eiginkonum um dauða eiginmanna (þær hafi beitt göldrum) en það getur kostað þær lífið. Að lokum benti Puri á að afnám ofbeldis gegn konum væri ekki aðeins mannréttindamál heldur líka spurning um að sjálfbær þróun ætti sér stað auk þess að vera efnahagsmál.
Í máli fulltrúa einstakra aðildarríkja Evrópuráðsins kom margt forvitnilegt fram. Stjórnvöld í Póllandi hafa látið framleiða 4 mínútna fræðslumyndbönd fyrir kennara og nemendur. Þá eru ofbeldismálin nú á borði ákveðins ráðherra sem einnig fer með fjölskyldumál. Bent var á að þótt forvarnir væru brýnar mættu þær ekki verða til að skerða þjónustu við brotaþola, svo sem upplýsingagjöf, kvennaathvörf, neyðarlínur, ráðgjöf t.d. vegna nauðgana, heilsugæslu og félagsþjónustu. Einnig væri mjög brýnt að safna saman upplýsingum um ofbeldisbrot á markvissan og samræmdan hátt.
Norðurlöndin hafa mjög lengi glímt markvisst við kynbundið ofbeldi og gripið til ýmissa aðgerða í baráttunni gegn því. Svíar eru með sérstök lög um ofbeldi gegn konum eða rétt kvenna til að lifa án ofbeldis (kvinnofrid). Þeir hafa komið á fót ofbeldisvarnarráði og sérstakur tengill vinnur nú á vegum ríkisstjórnarinnar við ofbeldismálin sem á að skila af sér skýrslu 2014. Verkefni hans (sem reyndar er kona) er skilgreint mjög vítt og felst í fræðslu, menntun fagstétta, úttekt á stöðu mála o.fl. Í Svíþjóð hvílir sú skylda á sveitarfélögum að koma konum í skjól verði þær fyrir ofbeldi. Þá er verið að þróa sérstök úrræði fyrir börn sem verða vitni að ofbeldi á heimilum. Mikil áhersla er lögð á að þróa og bæta áhættumat og að sjá til þess að upplýsingar berist á milli stofnana og þeirra aðila sem koma að ofbeldismálum.
Í Noregi hefur verið lögð mikil áhersla á úrræði fyrir börn sem eru beitt kynferðisofbeldi og þar eru barnahús (að íslenskri og sænskri fyrirmynd) orðin 8. Í Noregi verða sveitarfélög að reka kvennaathvörf. Í Noregi styðst lögreglan við sérstakt áhættumatskerfi sem búið er að þróa þar í landi.
Halla Gunnarsdóttir aðstoðarmaður innanríkisráðherra flutti erindi fyrir Íslands hönd og vakti m.a. athygli á klámvæðingunni og áhrifum hennar á hugmyndir um kynin og kynhegðun þar með talið beitingu ofbeldis. Vakti umfjöllun hennar mikla athygli en ekkert er minnst á klám í samningi Evrópuráðsins. Það er enn mjög viðkvæmt efni sem sumir tengja við tjáningarfrelsi og frelsi einstaklingsins. Það ofbeldisfulla og aðgengilega efni sem tröllríður netheimum á ekkert skylt við frelsi heldur einkennist það af niðurlægingu, ofbeldi og jafnvel pyntingum á konum.
Á heimasíðu innanríkisráðuneytisins má lesa ræðu Höllu en í kynningu segir m.a.: „Halla Gunnardóttir fjallaði í erindi sínu á ráðstefnunni um mikilvægi þess að heimilisofbeldi sé ekki lengur álitið fjölskyldumálefni einstaklinga, heldur vandi samfélags sem að feli í sér skyldur og ábyrgð stjórnvalda sem miklu skipti að axla. Í erindinu lagði hún áherslu á mikilvægi opinnar umræðu um kynferðis- og heimilisofbeldi og minnti á þrotlausa og hugrakka baráttu kvennahreyfingarinnar í þeim efnum. Hún fjallaði um samráðsferli um meðferð kynferðisbrotamála í réttarkerfinu sem innanríkisráðuneytið hefur leitt frá haustinu 2010. Þar á meðal eru lagabreytingar sem ráðist hefur verið í til þess að styrkja réttarumhverfi vegna kynferðisbrota gegn börnum vegna fullgildingar Lanzarote samningsins og viðbragða vegna heimilisofbeldis með lögfestingu austurrísku leiðarinnar. Ráðuneytið hefur einnig staðið fyrir ráðstefnum um meðferð kynferðisbrota bæði gegn börnum og konum í réttarkerfinu og um klám, en eins og kom fram í máli Höllu, hafa komið fram ítrekaðar athugasemdir um tengsl kláms og kynferðisbrota frá þeim aðilum sem vinna við rannsókn og meðferð slíkra mála.“
Fulltrúi frá dönsku kvennaathvörfunum sagði frá stöðu mála í Danmörku. Kvennaathvörfin þar þjóna um 2000 konum á hverju ári. Þar í landi hefur sjónum verið beint sérstaklega að ofbeldi í samböndum kærustupara (e. dating violence) en þar byrjar ofbeldið oft, því miður. Í þessu samhengi var spurt um athvörf fyrir fatlaðar konur og urðu margir að játa á sig þá skömm að þeim væri ekki sinnt sem skyldi og gildir það m.a. um okkur hér á landi. Eins var spurt um það hvernig tekið væri á málum kvenna sem koma ólöglega inn í lönd og eru skilríkjalausar.
Finnskur lögreglumaður sagði frá verkefni sem verið er að þróa í Finnlandi og gengur út á það að lögreglan noti samfélagsmiðla til að fræða almenning og til að gefa fólki kost á að koma með ábendingar með auðveldum hætti og þannig að trúnaðar sé gætt. Lögreglan rekur líka útvarpsstöð á netinu og hefur hún gefið góða raun. Þeir eru öflugir í fréttaflutningi og reyna að vera virkir á netinu, fylgjast með því sem þar fer fram og grípa brotamenn glóðvolga, t.d. þá sem reyna að komast í samband við börn. Af 3000 ábendingum leiddu 300 til aðgerða. Lögreglan reynir að vera sem sýnilegust og á sjálf frumkvæði að því. Erindi lögreglumannsins, sem reyndar er að skrifa mastersritgerð um reynslu og árangur af þessari aðferð, vakti mikla athygli enda um óvenjulegar aðferðir að ræða.
Margt fleira kom fram en hér skal látið staðar numið í frásögn af ráðstefnunni. Öll erindin munu birtast á heimasíðu ráðstefnunnar.