Orðin okkar hafa áhrif

01.02.2024 Anna Lilja Björnsdóttir skrifar

Orðin okkar hafa áhrif

Orð hafa áhrifamátt, þau geta sært, sundrað og brotið niður en þau geta einnig huggað, nært og sameinað.


Þannig hljóma skilaboðin sem Jafnréttisstofa sendir íslensku samfélagi með herferðinni Orðin okkar sem hleypt er af stokkunum í dag. Í herferðinni er spjótum beint að hatursorðræðu og mikilvægi þess að berjast gegn henni.


Hatursorðræða er tjáning fordóma eða haturs í garð tiltekinna hópa, t.d. vegna kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Með fordómum er til að mynda átt við fyrirfram mótaðar skoðanir sem byggja ekki endilega á raunverulegri reynslu. 


Hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, hópa og samfélagið allt. Þau sem verða fyrir hatursorðræðu kunna að upplifa ótta, niðurlægingu, hræðslu, kvíða, reiði, einangrun, öryggisleysi og þunglyndi. Hatursorðræða ýtir undir misrétti í samfélaginu og sé hún viðvarandi verður til jarðvegur fordóma, sem viðheldur útskúfun, jaðarsetningu og niðurlægingu.


Jafnréttisstofa leggur áherslu á mikilvægi þess að einstaklingar þekki þessar alvarlegu afleiðingar sem hatursorðræða getur haft í för með sér, að þeir segi frá og sýni þeim samstöðu sem verða fyrir hatursorðræðu.


Í góðu og heilbrigðu lýðræðislegu samfélagi þurfa fjölbreyttar raddir að heyrast. Hins vegar getur hatursorðræða haft kælandi áhrif á samfélagsþátttöku og þátttöku í opinberri umræðu og þannig skaðað lýðræðið, þar sem fólk kann að draga sig í hlé og einangrast gegn eigin vilja. Þar með fer samfélagið á mis við mikilvæg sjónarhorn og umræðan verður einsleitari en ella.


Stuðlum að auknu jafnrétti í íslensku samfélagi og berjumst gegn hatursorðræðu og rótum hennar, svo sem fordómum, neikvæðum staðalímyndum og smánun minnihlutahópa.


Anna Lilja Björnsdóttir og Katrín Björg Ríkarðsdóttir