Á hverjum degi upplifum við líkama okkar í mismunandi rýmum án þess að hugsa mikið út í þær almennu reglur sem gilda í hverju rými fyrir sig. Persónulega hafði ég ekki hugsað mikið um það fyrr en ég las um þetta innan kynjafræðinnar, t.d. að hið almenna rými og hið persónulega eru algjörlega sitthvor hluturinn, ef hlut má kalla.Hér ætla ég að deila með ykkur nokkrum hugleiðingum hvað varðar þessi rými og þá sérstaklega hvernig við komum fram við mismunandi líkama, t.d. óléttan líkama í þessu samhengi.
Hver einstaklingur hefur rétt á yfirráðum yfir líkama sínum og því persónulega rými sem í kring um hann er, alla vega álítum við það svo í mannréttindaþjóðfélagi. Við kennum börnunum okkar að það megi enginn snerta ákveðna staði án leyfis en með almennum samskiptum kennum við þeim líka að það eru ákveðnar reglur sem gilda um snertingar við aðra. Við föðmum og kyssum þá sem okkur þykir vænt um, heilsum með handabandi til að sýna almenna kurteisi og virðingu, bjóðum upp í dans þeim sem okkur langar til o.s.frv. Flest höfum við þörf fyrir snertingu og finnum löngun til þess að snerta þá sem okkur þykir vænt um. Það eru þó ekki allir sem kæra sig um líkamlegar snertingar og það ber að virða, sumir verða vandræðalegir og margir gera sakir enn verri með vandræðagangi -ég kyssti einu sinni mann á ennið af því að við vorum bæði jafn vandræðaleg yfir hvernig við ættum að heilsast og þetta endaði svona kjánalega!
Við ráðum þó ekki alltaf almennilega við staðsetningu líkama okkar í hinu almenna rými eða snertingar við hann, við snertum fólk í strætó, sitjum þétt í leikhúsi eða í heita pottinum. Við ráðum heldur ekki miklu um það hvernig hann er túlkaður. Líkamar kvenna hafa löngum verið túlkaðir sem meiri kyntákn og markaðsvara heldur en líkamar karla. Fjölmargar kenningar eru til um kyngervi okkar og líkama og að sjálfsögðu misjafnar eins og þær eru margar. Kennimenn eins og Judith Butler vilja ekki taka líkamann eins mikið inn í persónumótun okkar eins og Simone de Beauvoir og svo mætti halda áfram.
Fyrir nokkrum árum kom upp mikil umræða í Svíþjóð sem og á öðrum norðurlöndum um ber kvenmannsbrjóst og hvers vegna konur mættu ekki fara berar að ofan í sund. Alls konar rök voru sett fram en afar veikar lagastoðir liggja þar að baki t.d. að þetta snúist um hreinlæti eða öryggi. Það virðist vera sem ber brjóst á ströndinni séu í lagi en ekki í sundlaugum, það er í lagi að það sjáist í bert hold þegar verið er að gefa barni brjóst, sem er jú tilgangur brjóstanna, en ekki undir öðrum kringumstæðum. Þarna stangast aftur á almenn rými og nánari/persónulegri rými, ströndin er opið almennt rými en potturinn í sundlauginni býður upp á meiri nálægð. Það er í lagi að liggja berbrjósta á sólbekk á sundlaugarbakkanum en ekki að stökkva svoleiðis út í laug og synda nokkrar ferðir. Stundum eru ber brjóst óviðeigandi og stundum ekki, það fer eftir aðstæðunum eða því rými sem við erum í. Það mætti telja fjölmörg dæmi þar sem við skynjum muninn á almennu og einkarými, við göngum um á heimili okkar á náttfötum/nærfötum en myndum ekki fara svoleiðis útí búð o.s.frv.
En hvað með óléttu líkamana? Hvaða rými tilheyra þeir? Það virðist nefninlega vera þannig að það er ekki bara líkami hinnar óléttu konu sem tekur breytingum, heldur myndast ákveðið flakk á milli rýma. Líkaminn sem áður var kyntákn, verður meira tengdur við móðureðlið og heimilið og þá kannski tengdur meira inn í einkarýmið heldur en það almenna. Rannsókn sem gerð var á óléttum konum í Bandaríkjunum sýndi að þeim fannst almenn rými eins og verslunarmiðstöðvar, skemmtistaðir ofl. ekki vera álitnir viðeigandi fyrir óléttar konur,og nokkrar tóku fram að svo virtist sem kaup á kynæsandi undirfatnaði væri í hæsta máta óviðeigandi – sem er í raun svolítið sérstakt ef við hugsum til þess að þessir líkamar bera þess einmitt skýr merki að vera kynferðislega virkir.
Síðan er það óléttukúlan sjálf sem virðist allt í einu teygja sig út úr persónulega rými líkamans og inn í hið almenna rými. Konum er klappað á bumbuna, sagt hvað þær eru myndarlegar, orð höfð um frjósemi og allt það, allt mjög vel meint enda ætla ég það engum að vilja óléttum konum neitt illt. En athugið það að sumum líkar þessi snerting illa og finnst þetta óþægilegt. Ég spurði manninn minn að því um daginn hvort einhver hefði klappað honum á punginn og hrósað honum fyrir frjósemi. Svarið var nokkuð augljóslega nei enda fannst honum spurningin frekar fyndin. Þar sem ég er í augnablikunu ákaflega framstæð og vel á mig komin, rifjuðust upp þessar pælingar um rýmin, sem ég skrifaði aðeins um í námi mínu í kynjafræði. Af hverju er þessi partur af líkama mínum kominn í almennt rými þar sem aðrar reglur gilda?
Málið er þó að sjálfsögðu ekki svart og hvítt því flestum þeim sem klappa mér á bumbuna hef ég boðið inn í mitt persónulega rými, ég hitti vinkonu og faðma hana, hef þar með boðið upp á vissan aðgang að líkama mínum og snertingu við hann. Hitt er síðan annað mál með þá sem ég hef ekki mikil persónuleg samskipti við, er ekki á „snertigrundvelli“ við en sjá sér samt þörf til að snerta á mér magann án þess að hugsa út í það frekar. Þessi tilhneiging virðist vera til staðar og er ég þar sjálf ekki undanskilin, að teygja sig fram og fá aðeins að klappa þessum flottu konum. Það er eitthvað svo sérstakt og fallegt við óléttar konur. Það er samt svo margt fallegt við líkama fólks án þess að við breytum framkomu okkar. Ef karlmaður fer í ræktina og þjálfar upp flotta magavöðva, er honum klappað á magann af hverjum sem er og hrósað fyrir það hvað hann er glæsilegur? Anný Mist íþróttakona, sem nýlega var í fréttum með beran vöðvastæltan magann á íþróttaæfingu, er henni klappað og strokið um magann? Lendir maginn bara í almennu rými ef það er barn innanborðs, því það er allt í lagi að klappa og stjúka barninu þegar það er komið í heiminn ef það er barnið sem verið er að snerta.
Líkaminn tilheyrir persónulegu rými, þó hann sé oft og iðulega staddur í almennu rými. Það er eiginlega ekki hægt að setja ákveðinn part af líkamanum inn í annað rými, því hver einstaklingur þarf að bjóða þér með einhverjum hætti inn í sitt persónulega rými og þið setjið ykkar reglur. Að taka í hendina á einhverjum sýnir ákveðna fjarlægð, að faðma einhvern þýðir meiri nálægð. Við skynjum flest þessar reglur og þurfum ekki að tala um þær. Við viljum virða hvert annað. Lokapunkturinn í þessum hugleiðingum er að við stoppum aðeins við áður en við bjóðum okkur sjálfum inn í persónulegt rými fólks, að við fáum einhver boð eða samþykki áður en við leyfum okkur aðgang að líkama annarra.