- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ávarp Kristínar Ástgeirsdóttur 8. mars 2011
Í ár er haldið upp á 100 ára afmæli alþjóðlegs baráttudags kvenna víða um heim. Hér á landi hefur oftast verið miðað við árið 1910 en þá var ákveðið á heimsráðstefnu kvenna úr sósíalistaflokkum að gera 8. mars að alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Árið 1911- fyrir 100 árum - var haldið upp á daginn í fyrsta sinn og því má búast við fréttum í dag af kröfugöngum, baráttufundum eða gleðskap um víða veröld.
Árið 1911 var merkisár í réttindabaráttu íslenskra kvenna því þá voru samþykkt stórmerk lög sem veittu konum rétt til alls náms, embætta og styrkja. Þar með urðu íslenskar konur þær fyrstu í heiminum til að njóta slíkra réttinda. Lögin tengdust því m.a. að fyrsti íslenski háskólinn var að taka til starfa og strax um haustið settist fyrsta konan þar á skólabekk, Kristín Ólafsdóttir, sem síðar varð læknir. Það var þó fyrst og fremst barátta Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem skilaði þessum árangri.
Ári síðar fóru konur í fyrsta sinn í verkfall hér á landi svo vitað sé. Það voru fiskverkakonur í Hafnarfirði sem kröfðust launahækkunar. Aftur kemur Bríet við sögu því blað hennar Kvennablaðið er aðalheimild okkar um verkfallið. Árum saman höfðu kvenréttindakonur, erlendir ferðamenn og nokkrir blaðamenn hneykslast á því opinberlega að konur unnu sömu störf og karlar í verkamannavinnu, báru kola- eða saltpoka á bakinu eða börur með saltfiski á móti karlmanni en höfðu allt að helmingi lægri laun.
Staðan var þannig í Hafnarfirði 1912 að konur fengu 15 aura á tímann en karlar 30 aura. Krafan var hækkun upp í 18 aura eða 60% af launum karla. Verkfallið stóði í einn dag og náði krafan fram að ganga, svo mikilvægt var vinnuframlag kvenna þótt lágt væri launað.
Hvers vegna var launamunurinn svona mikill? Í fyrsta lagi er svarið það að þannig hafði það verið frá örófi alda. Konur voru taldar þurfa minni mat en karlar, minni klæði og störf þeirra voru einfaldlega til færri fiska metin, þær voru neðar en karlar í þjóðfélagsstiganum.
Á næstu árum eftir verkfallið stofnuðu konur víða um land sín eigin verkakvennafélög, það fyrsta í Reykjavík 1914 og enn var Bríet þar að verki ásamt fleiri konum. Um áratugaskeið voru konur áberandi í forystu verkalýðshreyfingarinnar vegna stéttarfélaga kvenna sem náðu einnig til afgreiðslustúlkna í mjólkurbúðum og þvottakvenna auk kvenna í opinberri þjónustu eins og ljósmæðra og hjúkrunarkvenna. Það er vert að spyrja hversu sýnilegar þær eru nú?
Ástæðan fyrir sérstökum verkalýðsfélögum kvenna var sú að þær voru hreint ekki velkomnar inn í félög karla sem annars vegar óttuðust samkeppni um vinnuna sem oft var af skornum skammti, hins vegar var það ríkjandi skoðun að konur ættu að vera heima til að annast börn og bú.
Áratugum saman snérust kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að ein laun ættu að duga til framfærslu fjölskyldu þótt veruleikinn væri allur annar. Draumur margra karla var að geta séð fjölskyldu sinni farborða, vera eina fyrirvinnan en fyrir fátækt fólk var það bara draumur. Hugmyndin um karla sem fyrirvinnu heimilisins hefur verið ótrúlega lífseig.
Það er staðreynd að stór hluti giftra kvenna hér á landi hefur unnið utan heimilis frá því að slík vinna tók að bjóðast með vaxandi sjávarútvegi. Vinna þeirra var bara ekki skráð, því allt var skrifað á eiginmanninn, föðurinn eða heimilið í heild. Giftar konur, eins og aðrar konur, breiddu út saltfisk á sumrin og tóku hann saman, vöskuðu fiskinn yfir veturinn að ekki sé minnst á síldarvinnuna sem færði björg í bú. Börnin hjálpuðu gjarnan til frá því að þau gátu. Um slíka vinnu má t.d. lesa í bók Kristínar Mörju Baldursdóttur: Karitas á titils.
Eftir síðari heimsstyrjöldina tók fiskvinnslan mikið stökk og þá fór eftirspurn eftir vinnuafli kvenna vaxandi þótt ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins væri enn sú að konur ættu að vera mæður og húsmæður og búa sig undir það með því að fara í húsmæðraskóla sem spruttu upp eins og gorkúlur. Þeir urðu alls 12 talsins í landinu.
Það gleymdist í umræðunum að um það bil 10% kvenna giftust ekki og að ætíð var til staðar hópur af ekkjum og einstæðum mæðrum sem urðu að vinna fyrir sér og sínum. Margar konur unnu í frystihúsum ýmist í hlutastarfi eða tímabundið og auðvitað líka í fullu starfi, hvers kyns iðnaður fór vaxandi, auk þess sem konum í röðum opinberra starfsmanna fjölgaði jafnt og þétt, t.d. kennurum og hjúkrunarkonum eftir því sem þjóðinni fjölgaði, skólar stækkuðu og heilsugæsla óx.
Árið 1948 fannst verkalýðsforingjanum Hannibal Valdimarssyni sem þá var orðinn þingmaður tími til kominn að konur fengju sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu enda var það orðin krafa verkalýðshreyfingarinnar. Þingmenn voru hins vegar algjörlega ósammála og felldu frumvarp Hannibals með þeim rökum að það væri óþarft.
Hannibal lét þó ekki deigan síga og flutti frumvarpið nokkrum sinnum án árangurs síðast árið 1960 en þá var hann orðinn forseti Alþýðusambands Íslands. Í ræðu hans það ár kom fram að tímakaup verkakvenna var komið upp í 78% af tímakaupi karla. Frá 1912-1960 eða á 48 árum fór hlutfallið úr 60% í 78%. Í ræðu Hannibals kom fram að sumarið áður höfðu náðst samningar um að greiða karlmannskaup við alla síldarvinnu á Norðurlandi þannig að verið var að stíga skref hér og þar.
Krafa verkakvennafélaganna var að sögn Hannibals sú að tímakaup kvenna almennt kæmist upp í 90% af tímakaupi karla, það átti að ná jöfnum launum í áföngum.
Þegar hér var komið sögu voru sex ár liðin frá því að kveðið var almennt á um launajafnrétti kynja meðal opinberra starfsmanna en slíkt hafði gilt miklu lengur um ákveðna hópa, t.d. kennara.
Árið 1961tóku þingmenn þáverandi stjórnarflokka málið upp og var það samþykkt það ár eða fyrir 50 árum. Þá hafði Ísland fyrir nokkru staðfest jafnlaunasamþykkt Alþjóða vinnumálastofnunarinnar ILO og þurfti að sýna einhvern vilja til að framfylgja henni.
Alþýðuflokksmaðurinn Jón Þorsteinsson var fyrsti flutningsmaður tillögunnar um launajafnrétti árið 1961 og sagði hann m.a.: Sterkustu rökin fyrir launajafnrétti eru hins vegar þau, að það er jafn kostnaðarsamt fyrir konur sem karla að lifa í þessu landi. Konur geta ekki búið við sömu lífskjör og karlar nema hafa sömu laun. Þær njóta engra lögbundinna forréttinda um útgjöld eða framfærslu. Þetta var ný hugsun miðað við þá eldgömlu skoðun að konur þyrftu minna en karlar. Þó var þetta nú ekki alveg rétt hjá þingmanninum því árið 1957 var samþykkt að veita giftum konum skattaafslátt, m.a. í þeim tilgangi að hvetja þær til þátttöku í atvinnulífinu en einnig til að létta á heimilunum. Einstæðar mæður þurftu að telja allar sínar tekjur fram til skatts en giftar konur aðeins helming.
Rökin voru sannarlega tímanna tákn, því talið var að heimili þar sem konur væru í launavinnu yrðu þar með af vinnu þeirra á heimilunum eða með öðrum orðum heimilin yrðu að kaupa vinnu úti í bæ, t.d. þvotta. Það kom auðvitað ekki til mála að karlar legðu sitt af mörkum í heimilisstöfunum. En hvað áttu einstæðu mæðurnar og ekkjurnar sem unnu fullan vinnudag að gera? Hver átti að vinna heimilisstörfin fyrir þær og á hverju höfðu þær efni? Þegar Rauðsokkahreyfingin kom til sögu 1970 gekk hún í það verk að útrýma þessu himinhrópandi misrétti milli hópa kvenna.
Jón Þorsteinsson taldi árið 1961 að eina leiðin til að tryggja launajafnrétti væri lagasetning þar sem konur ættu erfiðara með að taka þátt í verkalýðsbaráttu en karlar vegna þess að þær væru að auki með heimilin á sínum herðum en svo sagði hann: Konur hafa líka minni áhuga á kjaramálum almennt en karlar, þar sem þær reikna flestar með að taka ekki þátt í atvinnulífinu nema um nokkurra ára skeið, en að því loknu helga sig algerlega húsmóðurstörfunum.
Húsmæðrahugmyndafræðin var enn ríkjandi en réttlæti skyldi komið á. Þess var skammt að bíða að atvinnuþátttaka kvenna tæki stökk. Árið 1963 var hún 36% en árið 1975 var hún komin upp í 60% sem þætti mikið í sumum löndum nú til dags. Nú er atvinnuþátttaka kvenna 77% en karla 85% en hafa verður í huga að miklu fleiri konur eru í námi en karlar.
Lögin sem samþykkt voru 1961 kváðu á um árlega lögbundna launahækkun kvenna í öllum fjölmennustu atvinnugreinum þjóðarinnar á næstu 6 árum uns fullum launajöfnuði yrði náð 1. janúar 1967. Þegar þarna var komið sögu var tímakaup verkakvenna 78% af tímakaupi karla eins og áður sagði, kaup iðnverkakvenna var 76,5% af kaupi karla og kaup afgreiðslustúlkna í verslunum 73,5% af kaupi karla.
Hver er svo staðan 50 árum síðar?
Því miður er launamunur kynjanna enn til staðar og gengur hægt að útrýma honum.
Hér verðum við að hafa tvennt í huga þegar við tölum um launamun kynjanna. Annars vegar þá staðreynd að störf stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta eru enn lægra metin til launa en störf karla, t.d. í heilbrigðisþjónustu, kennslu og hvers kyns umönnun. Hins vegar er það sem við köllum kynbundinn launamun, þ.e. þegar um er að ræða launamun fólks í sömu eða sambærilegum störfum sem eingöngu verður skýrður með kyni.
Viðamikil könnun sem gerð var 2008 fyrir hrun mældi 16,3% kynbundinn launamun í landinu öllu. Kynbundinn launamunur á landsbyggðinni mældist 38% sem þýðir að hann var miklu minni á höfuðborgarsvæðinu!
Mjög stór könnun Hagstofunnar sem unnin var fyrir ASÍ og SA árið 1910 og náði til hátt á annað hundrað þúsund starfsmanna mældi 7% kynbundinn launamun en hún náði nánast eingöngu til höfuðborgarsvæðisins auk þess sem fleiri breytur voru notaðar en í fyrrnefndri rannsókn frá 2008. Það er því ástæða til að kanna launamuninn á landsbyggðinni sérstaklega.
Nýjustu mælingar sem við höfum sýna samkvæmt skattaframtölum fyrir árið 2009 að konur hafa að meðaltali 67,7% af atvinnutekjum karla en árið áður var sambærileg tala 63,7%. Að teknu tilliti til vinnutíma voru konur árið 2009 með 88,3% af tímakaupi karla en sambærileg tala árið 2008 var 82,2%. Aldrei áður frá því mælingar hófust hefur dregið jafn mikið saman. Enn er tímakaupið þó ekki jafnt að meðaltali en kreppan er að hafa þau áhrif að launamunur minnkar.
Hvað skyldi það standa lengi ef ekki verður gripið til aðgerða?
Góðir fundargestir.
Ísland mælist nú í efsta sæti í heiminum samkvæmt mælikvarða World Economic Forum um kynjajafnrétti. Stofnunin skoðar pólitísk völd kvenna, menntun, heilbrigði og stöðu á vinnumarkaði þar með talið hlut kvenna í stjórnum og við stjórnun fyrirtækja.
Við stöndum okkur vel hvað varðar menntun og heilbrigði og undanfarin ár hafa pólitísk völd kvenna stóraukist. Við erum þó enn að njóta þess að hér var kvenforseti í 16 ár, því mælingin nær langt til baka. Í framtíðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kallast 2020 er sett það það markmið að halda fyrsta sætinu og ná einkunninni 0,9 en við erum nú með rúmlega 0,8. Hæst er hægt að fá 1,0. Ef þetta markmið á að nást þurfum við heldur betur að taka okkur tak hvað varðar vinnumarkaðinn en hann er veikasti hlekkurinn.
Árið 2013 ganga í gildi lög sem skylda hlutafélög og einkahlutafélög með 50 starfsmenn eða fleiri til að tryggja minnst 40% hlut hvors kyns um sig í stjórnum félaganna. Því miður eru engin viðurlög við brotum og því þarf að sannfæra fyrirtækin um að þau hafi allt að vinna. Margítrekaðar rannsóknir sýna að fyrirtæki þar sem bæði kyn halda í stjórnartauma skila meiri hagnaði, vinnuandi er betri og ímyndin batnar. Það þarf sérstaka aðgerðaáætlun til að fá fyrirtækin með í þessa vinnu. Við höfum ekki efni á illa reknu atvinnulífi, það er nóg komið af því.
En hvað um launajafnréttið hvernig náum við því?
Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku er nýbúið að gera miklar úttektir á launamisrétti þar á bæ sem er svipað og hér. Þar er fullyrt að meginorsök launamunarins sé kynskiptur vinnumarkaður og ríkjandi mat á störfum kvenna. Það er því lögð mikil áhersla á að brjóta upp kynjaskiptinguna og ýta undir bæði konur og karla ekki síst karla - að losna undan valdi staðalímyndanna og velja sér menntun og störf í samræmi við hæfileika og löngun í stað fyrirframákveðinna hugmynda um hvað er við hæfi.
Mikilvægast er þó að endurmeta störf hefðbundinna kvennastétta þannig að þau njóti þeirrar virðingar sem þeim ber. Hvað er mikilvægara hverju samfélagi en að búa vel að börnum, undirbúa framtíð einstaklinga og þjóðar í skólum landsins og annast sjúka og aldraða. Þau hlutverk eru á ábyrgð þjóðfélagsins alls ekki kvenna einna og á að launa vel. Ekkert nútíma samfélag sem vill standa undir nafni getur gengið án öflugrar velferðarþjónustu. Hún er grundvöllur réttlætis, kynjajafnréttis og jafnaðar, hún er grundvöllur þess að atvinnulífið gangi snurðulaust og þróist, hún er undirstaða góðs fjölskyldu- og einkalífs og hún er undirstaða þess að taka á vandamálum samtíma og framtíðar.
Það þarf að fara fram starfsmat hjá ríkinu sem á að ganga á undan með góðu fordæmi og leiðrétta kynbundinn launamun. Það hefur verið gert hjá þó nokkrum sveitarfélögum með þeim árangri að kynbundinn launamunur hefur minnkað verulega.
Það þarf að gera samninga við fyrirtæki og stofnanir um að þau fari í gegnum launabókhald sitt og leiðrétti launamuninn líkt og gert var í Svíþjóð þar sem þúsundir starfsmanna fengu leiðréttingu á launum sínum. Umbun fyrirtækjanna eru bættur starfsandi og bætt ímynd sem skilar sér í meiri viðskiptum.
Það þarf að huga að sérstökum launapottum sem ætlaðir eru til að leiðrétta laun ákveðinna hópa, ekki potta í umsjón forstjóra til að hygla einstökum starfsmönnum. Síðast en ekki síst væri vert að huga aftur að þeirri leið sem átti að fara 1961 að lögbinda launahækkanir til ákveðinna stétta með tímaáætlun og fylgja henni fast eftir.
Aðrar stéttir geta ekki sett sig upp á móti réttlætinu og langþráðu launajafnrétti, eða hvað?
Takk fyrir.