Réttu upp hönd ef...

Hjálmar G. Sigmarsson skrifar

Réttu upp hönd ef...

Um daginn sat ég umræðufund í tilefni 16 daga átaksins gegn kynbundnu ofbeldi og þegar leið á fundinn lagði einn frummælandinn fyrir salinn eftirfarandi spurningu: „Réttið upp hönd, ef þið hafið nokkurn tíma verið hrædd um að vera nauðgað."Í salnum voru rétt rúmlega tuttugu manns, þar af réttu nærri allar konurnar í salnum upp hönd og þeir karlmenn sem voru í salnum gerðu það ekki. Ekki var þetta vísindaleg úttekt, en þetta fékk mig til hugsa til þess sem ég hef oft rætt við karlkyns félaga mína í jafnréttisbaráttunni, að karlmenn upp til hópa lifa ekki við þennan ótta. Þá er ég ekki að meina að karlmenn verði ekki fyrir nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi, heldur er frekar hægt að segja að karlmenn þurfi ekki, að mestu leyti, að hugsa hvort þeir verði fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi.

Talandi af minni reynslu, þá hef ég aldrei upplifað þennan ótta og verið hræddur um að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að vera einn og mæta einhverjum úti á götu og hafa áhyggjur af því að viðkomandi áreiti mig eða jafnvel ráðist á mig og reyni að nauðga mér. Heldur hef ég ekki orðið fyrir því að spjalla við einhvern á ölkelduhúsi og þurft síðan að hafa áhyggjur af því að viðkomandi gerist áleitinn við mig og snerti mig á óviðkomandi hátt. Ekki hef ég orðið fyrir því að úti á götu sé kallað á eftir mér, eitthvað á þessa vegu „Vá vá, ég væri alveg til í að…" Og ekki hef ég þurft að hafa áhyggjur af því að einhver sem ég þekki og tel mig geta treyst, noti ölvað ástand mitt til að misnota mig. Ekki hef ég orðið fyrir neinu af þessu og mörgu öðru sem ég taldi ekki upp.

Staldra þarf við

Þó að ég hafi ekki orðið fyrir neinu af þessu þýðir það ekki að þetta komi mér ekki við. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að benda á og ræða þá þætti í reynslu kvenna sem margir kynbræður mínir átta sig ekki á, gera sér ekki grein fyrir og jafnvel sumir gera lítið úr. Það er óhætt að segja að umræða og vitund um kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi hafi aukist töluvert undanfarin ár. Samt sem áður er enn töluvert rými í fjölmiðlum og netheimum til að gera lítið úr, gera grín að og jafnvel lýsa því yfir að jafnréttisumræðan sé á „villigötum". Þess vegna skora ég á þá sem ætla að gera lítið úr reynslu kvenna af kynferðisofbeldi, t.d. með „gríni", efasemdum um að viðkomandi hafi orðið fyrir því eða með því að halda því fram að um misskilning hafi verið að ræða, staldri aðeins við, setji sig í spor þolanda og hugsi um hvað þeir vita ekki.

Til þess að takast á við kynbundið ofbeldi, er ekki nóg að segja að þetta sé ógeðslegur eða svívirðilegur glæpur og afgreiða þá sem nauðga sem „skrímsli". Slík afstaða gefur engan veginn rétta mynd af raunveruleikanum og hjálpar engan veginn við að takast almennilega á við kynferðisofbeldi. Til þess að takast á við vandann þurfum við að kafa dýpra og sýna meiri skilning. Í mínum huga snýst átak eins og 16 daga átakið ekki bara um að vekja athygli á því að kynbundið ofbeldi eigi sér stað og að lýsa því yfir að við séum öll á móti því, heldur er svona átak tækifæri fyrir okkur öll, konur sem karla, til þess að fá aukna þekkingu og skilning á öllu sem viðkemur kynbundnu og kynferðisofbeldi.
 
Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2012 í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.