Í kjölfar kosninga, 29. maí síðastliðinn, eru konur nú 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Breytingin milli kosninga 2006 og 2010 nemur því fjórum prósentustigum. Árangurinn telst viðunandi áfangi á leið til þess að tryggja jafnari þátttöku kynja í ákvarðanatöku. Með samþykkt þingsályktunartillögu í október 2009 var Jafnréttisstofu falið að vinna að auknum hlut kvenna í sveitarstjórnum. Mikilvægt var talið að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga væri beitt markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ein leið að því marki var að fela Jafnréttisstofu, sem býr yfir sérþekkingu á stöðu kynja í samfélaginu, að annast slíkar aðgerðir. Í því augnamiði stóð Jafnréttisstofa m.a. að útgáfu kynningar- og fræðsluefnis sem og auglýsingaherferð.
Hlutur kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi hefur hægt og bítandi aukist síðastliðna hálfa öld. Á tímabilinu 1958 til 1978 jókst hlutur kvenna í sveitarstjórnum, frá því að vera 1% til þess að vera 6%. Með aukinni umræðu um mikilvægi þátttöku beggja kynja í ákvarðanatöku í samfélaginu m.a. í tengslum við tilurð sérstakra kvennaframboða varð nokkur stígandi í þátttöku kvenna í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi. Konur voru 13% kjörinna fulltrúa árið 1982 og 19% árið 1986. Árið 1990 varð hlutur kvenna í sveitarstjórnum 22%, árið 1994 25% og 1998 voru konur 28% fulltrúa í sveitarstjórn. Árið 2002 eru konur orðnar 32% og eftir kosningar árið 2006 voru konur 36% kjörinna fulltrúa. Þannig hefur hlutur kvenna í sveitarstjórnum aukist jafnt og þétt síðustu áratugi.
Framboðin
Alls voru 185 listar í framboði til sveitarstjórna í kosningunum 29. maí síðastliðinn. Í 54 sveitarfélögum, af 76, var haldin hlutbundin kosning. Í 18 sveitarfélögum var haldin óbundin kosning og í fjórum var sjálfkjörið í sveitarstjórn. Á listunum áttu sæti 2846 einstaklingar, 1330 konur og 1516 karlar. Hlutfall kvenna og karla meðal frambjóðenda var því nokkuð jafnt, eða 47% konur og 53% karlar. Þegar litið er til þess hvort karlar eða konur leiddu framboðslistana kemur í ljós skýr mismunur. Af 185 framboðslistum voru 139 leiddir af körlum en einungis 46 listar voru með konur í forsvari. Hlutfall kvenna í forsvari framboðslista var þannig einungis 25%, meðan karlar leiddu 75% allra framboðslista. Ef skoðað er hlutfall karla og kvenna meðal efstu tveggja frambjóðenda, jafnast hlutur kynjanna nokkuð. Í fyrstu tveimur sætum skipa karlar 56% sæta, meðan konur skipa 44% sæta. Konur eru því oftar en karlar í öðru sæti á framboðslista, eða í 62% tilvika.
Kosningar
Í sveitarstjórnarkosningunum hlutu 512 einstaklingar kosningu þar af 308 karlar og 204 konur. Konur eru því í dag 40% allra kjörinna fulltrúa í íslenskum sveitarstjórnum og í meirihluta í 16 sveitarstjórnum af 76. Aðeins eitt sveitarfélag hefur enga konu meðal fulltrúa í sveitarstjórn (Akrahreppur), en eftir kosningar 2006 átti slíkt við um alls fimm sveitarfélög. Þessi þróun ber því vott um framför í jafnréttismálum sem Jafnréttisstofa fagnar sérstaklega.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar fyrir sveitarfélög eftir staðsetningu þeirra á landinu, þ.e. hefðbundinni skiptingu eftir átta landsvæðum, kemur í ljós að þrjú af fjórum fjölmennustu landsvæðunum standa sig verst. Á Höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Norðurlandi eystra eru konur ennþá undir 40% kjörinna fulltrúa.
Eins og flestir þekkja er mikill munur á íbúafjölda sveitarfélaga. Niðurstöður um hlut kynja í sveitarstjórnum á Íslandi tekur eingöngu mið af fjölda fulltrúa, en ekki stærð sveitarfélags. Í ljósi þess hversu ólík íslensk sveitarfélög eru er áhugavert að skoða hlut kvenna í sveitarstjórnum á Höfuðborgarsvæðinu í samanburði við Vestfirði. Á Höfuðborgarsvæðinu eru konur 26 í átta sveitarstjórnum en á Vestfjörðum eru 26 konur í tíu sveitarfélögum. Á Höfuðborgarsvæðinu búa um 200 þúsund manns en á Vestfjörðum eru rúmlega sjö þúsund íbúar. Jafnréttislög, lög nr. 10/2008, gera ekki greinarmun á sveitarfélögum eftir stærð. Jafnréttisáætlanir þurfa að vera til staðar, og þeim sannanlega framfylgt, hvort heldur sveitarfélaga hefur 100.000 eða nokkra tugi íbúa.
Þegar kynjaskipting er skoðuð útfrá stærð sveitarfélaga, og þeim skipt í flokkana; minni en 3000 íbúar, 3000 til 10.000 íbúar og fleiri en 10.000 íbúar, kemur í ljós að kynjaskipting er mjög svipuð. Ennfremur kemur í ljós að minnstu sveitarfélögin, þau sem hafa íbúafjölda undir 500 íbúa standast ágætlega samanburð við þau sem stærri eru.
Karlar oftast í fyrsta sætinu
Niðurstaða kosninganna 2010, þegar horft er til stöðu kynja, er sú að karlar skipa í miklum meirihluta tilvika efsta sæti á framboðslitum. Eftir því sem horft er til fleiri frambjóðenda á listunum jafnast hlutur kynjanna nokkuð. Konur og karlar hafa í dag jafnari stöðu í sveitarstjórnum en áður og þróunin er í átt til jafnari skiptingu og jafnari áhrifa.
Til þess að tryggja konum ennþá betra aðgengi að ákvarðanatöku á sveitarstjórnastigi þarf að jafna hlut karla og kvenna í forystu framboðslista. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá framboðunum sjálfum sem og hjá stjórnmálaflokkum sem geta sett leiðbeinandi reglur. Það getur vart talist viðunandi að konur leiði einungis fjórðung allra framboðslista og skipi í meirihluta tilvika annað sæti á lista. Í því eru fólgin skilaboð sem eru ekki í samræmi við þau markmið sem íslenskt samfélag hefur sett sér í jafnréttismálum.
Nánari greiningu á niðurstöðum og upplýsingar um einstök sveitarfélög er að finna á heimasíðu Jafnréttisstofu www.jafnretti.is. Í haust mun Jafnréttisstofa jafnframt birta niðurstöður Jafnréttisvogarinnar, verkefnis sem hefur það að markmiði að meta stöðu jafnréttismála innan sveitarfélaga.
(Þessi grein birtist áður í Sveitarstjórnarmál, 5. tbl, 70. árgangi
2010)