- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þetta er í fyrsta skiptið sem gerð er rannsókn sem nær til alls vinnumarkaðarins og því er illmögulegt að að bera hana saman við aðrar rannsóknir á kynbundnum launamun sem hafa verið einskorðaðar við ákveðin stéttarfélög, fyrirtæki eða stofnanir. En þess ber þó að geta að þessi rannsókn sýnir mjög svipaðar niðurstöður og slíkar rannsóknir á kynbundnum launamun (sbr. kannanir VR, SFR o.fl.).
Þar sem rannsóknin náði yfir allan vinnumarkaðinn var hægt að bera saman kynbundinn launamun í einkageira og opinbera geiranum og á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Kynbundinn launamunur er 22,4% í einkageiranum en í opinbera geiranum mældist kynbundinn launamunur aðeins meðal starfsmanna með framhaldsskólamenntun (28,4%). Ástandið er því skárra í opinbera geiranum en betur má ef duga skal.
Mest sláandi í þessari rannsókn er kynbundinn launamunur á landsbyggðinni, en karlar eru með 38% hærri heildarlaun en konur þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem taldir voru upp hér að ofan. Munurinn á höfuðborgarsvæðinu er 10,3%. Þessi munur á landsbyggðinni er í raun skelfilegur og ég minnist þess ekki að hafa séð svo háa tölu áður í þessu samhengi.
Reynsla annarra ríkja kennir okkur að í kreppu er mikil hætta á að kynbundinn launamunur aukist þ.e. konur eru líklegri til að hverfa af vinnumarkaði og þær sem eftir eru taka á sig meiri kjaraskerðingu en karlar. Leiða má líkur að því að skýra megi gríðarlegan launamun á landsbyggðinni með þessu. Enda má segja að góðæri síðustu ára hafi ekki náð til landsbyggðarinnar nema að litlu leiti og stór hluti hennar hefur í
raun búið við kreppu undanfarna áratugi.
Kynbundinn launamunur er mikið mein á íslensku samfélagi og nú þegar að kreppan skellur á með fullum þunga verða aðilar vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum að gera allt sem í þeirra valdi stendur (og meira) til að kynbundinn launamunur aukist ekki.
En hverri ógn fylgja tækifæri! Nú þegar að fyrirtæki og stofnanir eru að draga saman seglin þurfa mörg þeirra að lækka laun starfsmanna sinna. Ýmis fyrirtæki hafa notað tröppugang í lækka laun, þ.e. hinir hæst launuðu lækka mest en þeir sem hafa lægst hafa launin lækka minna eða ekkert. Þessi aðferð kemur örugglega til með að minnka kynbundinn launamun e-ð þar sem konur hafa lægri laun en karlar. Samt er ástæða til þess að hvetja stjórnendur fyrirtækja sem þurfa að grípa til þessara aðgerða að hafa kynbundinn launamun sérstaklega í huga og skoða hvort ekki sé ástæða til þess að lækka konur minna en karla þannig að kynbundni launamunurinn minnki enn frekar.
Ég hvet alla stjórnendur til að taka mið af þessu en tel þetta vera skyldu þeirra sem nú eru skyndilega orðnir stjórnendur hjá ríki. Ríkisstjórnin ætti að fylgja því mjög fast eftir að launmun kynjanna verði eytt í nýju ríkisbönkunum og öðrum fyrirtækjum sem kunna að komast í ríkiseigu (vegna skulda við bankana). Nú hafa stjórnendur fyrirtækja og stjórnvöld kjörið tækifæri til að minnka verulega og jafnvel eyða kynbundnum launamun á íslenskum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin setti fram metnaðarfull markmið um launamun kynjanna í stjórnarsáttmálanum. Nú hefur hún verkfæri til að ná þessum markmiðum. Þrátt fyrir að það séu ekki óska aðstæður sem skapa þetta verkfæri ber ríkisstjórninni skylda að nota það.
Líklega finnst mörgum þetta róttækar og jafnvel óréttlátar hugmyndir að ekki skuli látið eitt yfir alla ganga. En það hefur ekki verið hingað til. Nú er talað um að við þurfum að standa saman og byggja upp nýtt Ísland sem verður til lengri tíma litið betra og réttlátara samfélag en hið gamla. Slíku markmiði verður ekki náð nema með fullu jafnrétti kynjanna og þar eru laun engin undantekning.
Skýrsluna má nálgast hér.
Einar Mar Þórðarson
Stjórnmálafræðingur hjá Félagsvísindastofnun HÍ og einn af höfundum
skýrslunnar