Vangaveltur um forgangsröðun við niðurskurð

Hugrún R. Hjaltadóttir skrifar

Vangaveltur um forgangsröðun við niðurskurð

Við lifum á tímum þar sem fjármagn er af skornum skammti og niðurskurður stjórnvalda er óhjákvæmilegur. Við slíkar aðstæður þarf að ákveða á hvaða forsendum niðurskurður á að byggja. Hvernig samfélagsmynd vilja stjórnvöld að sparnaðaraðgerðir þeirra stuðli að? Viljum við áfram vera framsækin þjóð þar sem bæði kyn vinna úti og reyna áfram að stuðla að því að kynin sinni umönnun barna og annarra að jöfnu eða viljum við afturhvarf til hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna? Mikilvægt er að tryggja að niðurskurður leiði ekki óvænt af sér aukið misrétti eða hafi samfélagslegar afleiðingar sem erfitt er að afturkalla.
Til þess að tryggja að það fjármagn sem til er nýtist okkur öllum á réttlátan og hagkvæman hátt þarf að skoða stöðuna á heildrænan hátt og forgangsraða. Þá vakna spurningar um hvað á að vera í forgangi? Hvaða atriði eru það sem viljum að ráði ferð þegar við ákveðum hvað er mikilvægt og hvað má bíða? Verkefni ríkis og sveitarfélaga eru þess eðlis að sum þeirra mega bíða án þess að það hafi slæm áhrif á þjónustu við borgarana en önnur eru þannig að þau hafa víðtækari áhrif en til var ætlast þegar ákvörðunin um niðurskurð var tekin. Við verðum því að skoða dæmið til enda áður en farið er af stað með niðurskurðaráform sem mögulega geta hafa víðtæk samfélagsleg áhrif.
Sem dæmi má nefna að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu þýðir uppsagnir starfsmanna og þar af leiðandi skerta þjónustu til þeirra sem nýta hana. Þetta er dæmi sem erfitt er að reikna til enda. Með uppsögnunum ríkisstarfsmanna færum við kostnað úr einum vasa í annan því atvinnuleysisbætur eru greiddar af sömu fjárlögum. Við fækkun starfsfólks er þjónusta skert, þjónusta sem þrátt fyrir hvarf starfsfólks þarf að sinna. Til dæmis eru sjúklingar sem fara fyrr heim af sjúkrahúsi ekki frískari en áður og þurfa umönnun sem aðstandendur verða að veita sínum nánustu í stað heilbrigðiskerfisins. Við slíkan sparnað erum við að færa kostnað við þjónustu úr launaða hagkerfinu yfir í hið ólaunaða hagkerfi.


Hvað kostar það okkur að færa þjónustu sem hefur verið á vegum hins opinbera aftur til aðstandenda og inn á heimilin? Þó að við vildum óska að staðan í samfélaginu væri önnur er staðreyndin sú að konur, mæður, dætur, systur og ömmur eru líklegri til þess að taka að sér slík verkefni heldur en karlar, feður, synir, bræður og afar. Í sumum tilfellum taka konur sér leyfi frá störfum í lengri eða skemmri tíma til þess að sinna þessum verkum en þá tapast framleiðsla annarsstaðar í kerfinu. Getum við reiknað það inn í myndina þegar við sendum sjúklinga fyrr heim af sjúkrahúsum? Ef sparnaðaraðgerðir sem hafa svipaðar afleiðingar verða víðtækar leiðir það til aukinnar ólaunaðrar vinnu kvenna sem dregur úr launavinnu og hefur því samfélagsleg áhrif í för með sér. Konur minnka launavinnu og fara aftur inn á heimilin auk þess sem mikilvægi launaðrar vinnu karla fyrir afkomu heimilisins eykst. Er þetta afturhvarf til verkaskiptingar fyrri tíma eitthvað sem við erum sátt við? Nú þegar hafa sparnaðaraðgerðir hjá Fæðingarorlofssjóði haft letjandi áhrif á nýtingu feðra á fæðingarorlofi og sú mikla breyting sem orðið hefur á umönnunarhlutverki feðra er á undanhaldi.


Umræður á þingi og í fjölmiðlum um atvinnuuppbyggingu snúast oft um mannaflsfrekar framkvæmdir og atvinnutækifæri fyrir iðnaðarmenn og aðrar hefðbundnar karlastéttir. Við slíkar framkvæmdir er fjármagni ráðstafað sem sparast hefur annarsstaðar. Þetta eru jú allt sömu fjárlögin. Eins má geta þess að konur eru í meirihluta þeirra sem starfa hjá ríkinu og verða því í meirihluta þeirra sem missa störf sín við niðurskurð í þjónustu. Getum við réttlætt það að skera niður störf kvenna til að búa til störf fyrir karla? Reynsla annarra þjóða sýnir að karlar missa fyrst vinnuna þegar þrengir að en konur missa vinnuna þegar niðurskurður hefst, nokkru síðar. Flestar atvinnuskapandi aðgerðir snúa að hefðbundnum karlastörfum en kvennastörfin glatast á sama tíma. Störfin sem glatast við niðurskurð eru störfin sem koma síðast til baka þegar efnahagurinn batnar og er atvinnuleysi kvenna oft langvinnara en karla. Sum þeirra verkefna sem fyrirhuguð eru til atvinnusköpunar eru einnig verkefni sem geta beðið í nokkur ár án þess að það hafi veruleg áhrif á þjónustu við borgarana og samfélagsgerð okkar. Hvarf sumra hefðbundinna kvennastarfa eru hinsvegar þess eðlis að þau koma til með að hafa víðtæk áhrif á borgarana, hvors kyns sem þeir eru.
Hugmyndir um mannaflsfrekar framkvæmdir virðast einnig vera mjög einsleitar. Verkefni til atvinnusköpunar í hefðbundnum kalastéttum kalla oft á mikinn efniskostnað og tækjakost sem þarf að leggja fjármagn í. Á meðan höfum við húsnæði og tækjakost tilbúinn, meðal annars í heilbrigðiskerfinu, á öldrunarheimilum og jafnvel í skólum, þar sem það eina sem vantar er mannaflinn til að sinna umönnun skjólstæðinganna. Er ekki nær að senda mannaflann þangað, þar sem aðstaðan er þegar fyrir hendi? Umönnun byggir á fólkinu sem sinnir henni og er því í raun verið að skapa mörg störf með litlum tilkostnaði í efni og tæki. Slík störf geta staðið opin bæði körlum og konum, ef við ákveðum það með meðvituðum hætti og fylgjum því eftir. Slíkar atvinnuskapandi aðgerðir gætu skilað okkur mun meiru en ný mannvirki, ekki bara í fjölda starfa heldur breyttri samfélagsmynd sem yrði okkur öllum til hagsbóta.


Forgangsröðun í sparnaðaraðgerðum verður að endurspegla þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér í jafnréttismálum. Með því að hafa kyngreind gögn við höndina og gefa okkur tíma til að skoða þær upplýsingar sem þegar eru til um stöðu kynjanna og samfélagslega þróun síðustu ára, samhliða öðrum gögnum, getum við tryggt að ákvarðanir sem teknar eru endurspegli þau markmið sem sett hafa verið. Þannig getum við líka verið viss um að aðgerðir sem gripið er til hafi þau áhrif sem þeim er ætlað og ekkert komi á óvart. Slík kynjagreining er ekki aukavinna heldur aðferð til þess að gera betur það sem við erum þegar að gera. Þetta er kjarninn í þeirri aðferð sem hefur hlotið nafnið kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð.