Fréttir

Kirkjan og kynferðisofbeldi

Frá mánudegi til föstudags, 30. ágúst til 3. september 2010, kl. 12.00-13.00, verða haldin fimm erindi um kirkjuna og kynferðisofbeldi á vegum Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Kynungabók, upplýsingarit fyrir ungt fólk

Mennta- og menningarmálráðuneytið hefur gefið út Kynungabók, upplýsingarit fyrir ungt fólk um jafnrétti kynja. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að markmiðið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Jafnframt er lagt upp úr því að ritið höfði til ungmenna og að þau geri sér grein fyrir að jafnréttismál varða bæði kynin og eru öllum til hagsbóta. Í ritinu eru hnitmiðaðar upplýsingar úr rannsóknum, gagnagrunnum, lögum og reglugerðum.

Kynbundinn launamunur dregst saman hjá Reykjavíkurborg

Úttekt á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg hefur verið lögð fyrir borgarráð en niðurstöður hennar sýna að Reykjavíkurborg hefur náð árangri við að draga úr launamun kynjanna.  Þennan árangur má þakka miðlægri launasetningu og starfsmati, reglum um yfirvinnusamninga, aukinni menntun kvenna og auknum starfsaldri. 

Drög að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur undirbúið tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2010–2014. Framkvæmdaáætlunin hefur verið kynnt í ríkisstjórn og lögð fram í þingflokkum og er gert ráð fyrir að hún verði lögð fyrir Alþingi í haust sem tillaga til þingsályktunar. Áætlunin er unnin í samráði við einstök ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Einnig var við gerð hennar höfð hliðsjón af umræðum sem fram fóru á jafnréttisþingi sem haldið var í janúar 2009 og skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem var birt þegar þingið var haldið. Framkvæmdaáætlunin er nú birt til umsagnar á vef ráðuneytisins og gefst fólki kostur á að senda ráðuneytinu ábendingar sínar og athugasemdir til 15. ágúst næstkomandi.