Fréttir

Að eiga orðið: Málþing um þátttöku kvenna í sveitarstjórnum

Föstudaginn 28. febrúar 2014 efnir RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands til málþings í samvinnu við Jafnréttisstofu um reynslu og þátttöku kvenna af sveitarstjórnum. Málþingið ber yfirskriftina „Að eiga orðið“ og fer fram kl. 14.00–16.00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Málþingið er haldið í tilefni af sveitarstjórnarkosningunum í maí 2014.

Karlar einungis 22% nema við Háskólann á Akureyri

Í vikunni fékk Jafnréttisstofa heimsókn frá nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Þau voru að vinna frétt um jafnrétti í skólanum og á Jafnréttisstofu fengu þau kynningu á markmiðum jafnréttislaga og verkefnum stofunnar. Í framhaldinu leituðu þau upplýsinga um hlutfall karla og kvenna í deildum skólans og ræddu stöðu jafnréttismála við Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Leiðir til að fjölga konum í hefðbundnum karlastörfum

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynja heldur morgunverðarfund um konur í hefðbundnum karlastörfum miðvikudaginn 26. febrúar. Markmið fundarins er að ræða leiðir til að fjölga konum á fagsviðum þar sem karlar hafa verið í meirihluta. Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, mun fara yfir stöðu jafnréttismála innan lögreglunnar. Þá mun Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, fjalla um hvers vegna nauðsynlegt er að jafna kynjahlutfall í verkfræði og náttúruvísindum og hvað virkar í þeim efnum. Fundurinn fer fram á Grand Hótel Reykjavík. Dagskrá hefst kl. 8:30 með ávarpi félags-og húsnæðismálaráðherra og lýkur kl. 10:15. Skráning á fundinn fer fram á heimasíðu velferðarráðneytisins 

Dagatal Jafnréttisstofu fer víða

Jafnréttisstofa gefur út dagatal í ár með þeim skilaboðum að nauðsynlegt sé að brjóta niður staðalmyndir kynjanna á vinnumarkaði. Dagatalið hefur verið sent víða um land, til rúmlega 300 fyrirtækja, sveitarfélaga, leik-, grunn og framhaldsskóla og ýmissa stofnana. Með dagatalinu fá viðtakendur bréf þar sem skyldur þeirra samkvæmt jafnréttislögum eru tíundaðar og þeir hvattir til að nýta sér leiðsögn starfsfólks Jafnréttisstofu til að útbúa aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir og auka þekkingu í sinni stofnun eða fyrirtæki  á jafnréttismálum. 

Ný frumvörp um jafna meðferð í opið umsagnarferli

Velferðarráðuneytið birtir nú til umsagnar drög að eftirfarandi þremur lagafrumvörpum; 1) um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála, 2) um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, og 3) um jafna meðferð á vinnumarkaði. Fyrsta frumvarpið lýtur að skipulagi þeirrar stjórnsýslu sem lögð er til að gildi á sviði jafnréttismála. Gert er ráð fyrir að ein stofnun annist stjórnsýslu á þessu sviði. Verkefni hennar verða á sviði jafnréttismála í víðum skilningi og lúta jafnt að jafnrétti kynjanna sem og jafnri meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Jafnréttisstofa hvetur alla til  að kynna sér efni þessara frumvarpa og koma á framfæri ábendinum fyrir 28. febrúar. Frekari upplýsingar á heimasíðu velferðarráðuneytisins.

Málþing um margbreytileika samfélagsins

Fimmtudaginn 20. febrúar n.k. kl. 13 - 15.30 munu Mannréttindaskrifstofa Íslands, Jafnréttisstofa og Fjölmenningarsetur, styrkt af Progress áætlun Evrópusambandsins, standa fyrir málþingi um uppruna og mismunun. Kynntar verða niðurstöður rannsóknar Jafnréttisstofu um mismunun á vinnumarkaði og rannsóknar Fjölmennignarseturs um Uppruna og fjölþætta mismunun. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Sjá: Dagskrá málþingsins

Ný rannsókn á viðhorfum stjórnenda til jafnréttismála

„Jafnrétti á vinnustöðum á Íslandi“ er heiti skýrslu sem Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur unnið fyrir Jafnréttisstofu. Skýrslan fjallar um niðurstöður spurningakönnunar sem Jafnréttisstofa hefur haft veg og vanda af. Í könnuninni er leitast við að kanna viðhorf stjórnenda fyrirtækja til jafnréttis og mismununar. Verkefnið var unnið í tengslum við samstarf Jafnréttisstofu við Mannréttindaskrifstofu Íslands og Fjölmenningarsetur og styrkt af Progress áætlun Evrópusambandsins.

Umönnunargjá - staða foreldra eftir fæðingarorlof

Að beiðni Jafnréttisráðs hefur Edda Sigurbjörg Ingólfsdóttir félagsfræðingur tekið saman til útgáfu íslenskan útdrátt á efni meistararitgerðar sinnar sem skilað var til Háskólans í Lundi á síðasta ári. Ritgerðin heitir á frummáli Det löser sig: En studie om hur isländska föräldrar överbygger omsorgsgapet mellan föräldraledighet och förskola og fjallar um það hvernig foreldrar brúa svokallaða „umönnunargjá“ sem myndast þegar þeir hafa nýtt orlof sem úthlutað er samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar og foreldraorlof en hafa ekki ennþá möguleika á leikskólaplássi fyrir barn sitt.

Karlar í umönnunar- og kennslustörfum – Fundur 13. febrúar

Þann 13. febrúar verður haldinn opinn fundur um karla í umönnunar- og kennslustörfum á Grand Hótel Reykjavík kl. 11:45–13:30. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra setur fundinn, Jón Yngvi Jóhannsson, formaður starfshóps um karla og jafnrétti kynnir niðurstöður skýrslu hópsins um karla og kynbundið náms- og starfsval, Ingólfur V. Gíslason lektor í félagsfræði fjallar um karla í umönnunarstörfum og að því loknu verða pallborðsumræður um málefnið. Frekari upplýsingar og skráning á fundinn á heimasíðu velferðarráðuneytis

Jafnréttisviðurkenningin 2014

Jafnréttisráð óskar eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar Jafnréttisráðs fyrir árið 2013. Viðurkenningu geta hlotið einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög, hópar eða félagasamtök, sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála.