Fréttir

Árið 2019 voru 97% nefnda, ráða og stjórna á vegum ráðuneytanna skipaðar í samræmi við verklag 15. gr. jafnréttislaga

Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna fyrir starfsárin 2018-2019. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárunum auk þess sem farið er yfir þróun síðustu ára. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd hans.

Landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga

Árlegur landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga sem fram fór 15. september var með óvenjulegu sniði þetta árið sökum aðstæðna sem öllum eru kunnar. Fundurinn var haldinn í samstarfi Akureyrarbæjar, Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Áætlað hafði verið að halda fundinn á Akureyri en hann var í staðinn alfarið netfundur og sá Símenntun Háskólans á Akureyri um tæknilega framkvæmd.

Réttur þinn - mikilvægar upplýsingar fyrir innflytjendur

Bæklingurinn Réttur þinn - Mikilvægar upplýsingar fyrir innflytjendur á Íslandi er gefinn út af Jafnréttisstofu. Í bæklingnum er fjallað um réttindi fólks á Íslandi þegar kemur að nánum samböndum og samskiptum, til dæmis hjónaband, sambúð, skilnað og sambúðarslit, þungun, mæðravernd, þungunarrof, forsjá barna, umgengnisrétt, ofbeldi í nánum samböndum, mansal, vændi, kærur til lögreglu, gjafsókn og dvalarleyfi

Landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga - fjarfundur

Akureyrarbær og Jafnréttisstofa boða til landsfundar um jafnréttismál sveitarfélaga þriðjudaginn 15. september milli kl. 10 og 12, en að þessu sinni verður haldinn fjarfundur í ljósi aðstæðna í samfélaginu.

Námskeið um jafnréttislögin

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stendur fyrir námskeiðinu Jafnréttislögin og helstu áhrif þeirra í daglegu lífi. Námskeiðið verður haldið fimmtudaginn 17. september 2020 kl. 9:00-12:30 í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ við Stakkahlíð en einnig stendur til boða að taka námskeiðið í fjarnámi.