Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál var yfirskrift landsfundar um jafnréttismál sem haldinn var á Akureyri föstudaginn 16. september. Rúmlega sextíu manns frá 17 sveitarfélögum sátu landsfundinn sem boðað var til af Akureyrarbæ í samstarfi við Jafnréttisstofu. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Síðan tók Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra við fundarstjórn.
29.09.2016
Á þessu ári eru 40 ár liðin frá því að fyrstu jafnréttislögin voru sett og Jafnréttisráð var stofnað. Á 16 ára afmælisdegi Jafnréttisstofu 15. september síðast liðinn efndu Jafnréttisráð og stofan til ráðstefnu undir heitinu „Stundin er runnin upp“ en það er tilvitnun í textann Áfram stelpur frá árinu 1975. Eins og allir vita er Jafnréttisstofa staðsett á Akureyri og því þótti við hæfi að halda afmælisráðstefnuna þar. Daginn eftir var landsfundur um jafnréttismál í sveitarfélögunum einnig á Akureyri og því rík ástæða til að tengja þessa viðburði saman.
22.09.2016
Á jafnréttistorgi (félagsvísindatorgi) miðvikudaginn 21. september, kl. 12.00-12.50, mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu fjalla um jafnrétti, konur, frið og öryggi og eiga samtal við áheyrendur um efnið. Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Allir velkomnir.
Með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur frið og öryggi, sem var samþykkt árið 2000, viðurkenndi Öryggisráðið í fyrsta skipti sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar. Ályktunin hefur haft áhrif á áherslur og starf alþjóðastofnana sem vinna að friðaruppbyggingu, þar sem nú er sérstaklega kveðið á um skyldur þeirra til að vinna að jafnrétti og taka mið af kynjasjónarmiðum.
Friðar- og átakafræði fást við að greina hættu á átökum og vekja athygli á ástæðum þeirra. Meðal markmiða fræðasviðsins er vera leiðbeinandi fyrir þá sem fara með framkvæmd uppbyggingarstarfs á átakasvæðum. Í erindinu fjallar Tryggvi um vandamál og álitamál sem komið hafa upp vegna innleiðingar markmiða í fyrrgreindri ályktun. Umfjöllunin tekur mið af raunverulegum verkefnum í friðargæslu með sérstakri áherslu á áskoranir sem felast í jafnréttisstarfi í umhverfi mismunandi andstöðu.
Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og hefur MA gráðu í skipulagsheildum og stjórnun frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu frá árinu 2008.
Torgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.
21.09.2016
Föstudaginn 23 september ver Guðný Gústafsdóttir doktorsritgerð sína: Miðlað í gegnum meginstrauminn: Ímynd(ir) kvenleika og þegnréttar á Íslandi samtímans 1980-2000.
Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl 14:00 og er öllum opin.
Andmælendur eru dr. Karen Ross, prófessor í kynja- og fjölmiðlafræði við háskólann í Newcastle og dr. Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði, Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi var dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði og í doktorsnefnd sátu auk Þorgerðar dr. Helga Kristín Hallgrímsdóttir, dósent við háskólann í Viktoría, Kanada og dr. Sigríður Matthíasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna.
19.09.2016
Dagana 30. nóvember til 2. desember verður haldin ráðstefna í Helsinki, Finnlandi, þar sem fjallað er um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á gerendur í ofbeldismálum og kynna verkefni og úrræði sem skilað hafa bestum árangri á Norðurlöndum.
Ráðstefnan mun verða vettvangur frekari samvinnu þeirra sem vinna að forvörnum í ofbeldismálum og annarra sem fjalla um málflokkinn ýmist í rannsóknum eða þjónustu. Miðlun þekkingar, erindi og vinnustofur taka sérstaklega til eftirfarandi sviða:
• Meðferðarþjónusta fyrir gerendur
• Rannsóknir á gerendum
• Gerendur og félagsleg úrræði
Ráðstefnan er liður í dagskrá vegna formennsku Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2016 og er haldin er í samstarfi RIKK – Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, NIKK – norrænnar upplýsingamiðstöðvar um kynjajafnrétti – og velferðarráðuneytis Finnlands.
Hér má finna nánari upplýsingar um ráðstefnuna, dagskrá og skráningu
09.09.2016
Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál
Föstudaginn 16. september kl. 09:00 boðar Akureyrarbær í samstarfi við Jafnréttisstofu til Landsfundar jafnréttisnefnda sveitarfélaga. Á fundinum verður fjallað um skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum, konur í sveitarstjórn, nýmæli í jafnréttisáætlunum, aðgerðir gegn ofbeldi,
jafnrétti í skólastarfi og fleira. Sveitarstjórnarfólk er hvatt til að fjölmenna á landsfundinn.
Dagskrá og skráning á landsfund
Jafnréttislög í fjörutíu ár
Í tengslum við landsfundinn boða Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð til ráðstefnu fimmtudaginn 15. september kl. 11:00. Tilefnið er að fjörutíu ár eru liðin frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett á Íslandi og fimm manna Jafnréttisráð skipað til að annast framkvæmd laganna. Á ráðstefnunni verður farið yfir þróun jafnréttislaga, stöðuna í dag og hvað sé brýnast að gera. Ráðstefnan er öllum opin.
Dagskrá og skráning á ráðstefnuna
08.09.2016
Undanfarin tvö ár hefur Jafnréttisstofa tekið þátt í verkefni um samræmda jafnréttisfræðslu í Evrópu. Frumkvöðull þessa verkefnis var jafnréttisskrifstofa fylkisins Niederösterreich sem staðsett er í borginni St. Pölten norður af Vínarborg. Aðrir þátttakendur voru fulltrúr félagasamtaka í Króatíu og Litháen. Verkefninu er nú lokið með útgáfu „námskrár“ (e. curriculum) sem ætlað er að gagnast öllum þeim sem þjálfa fólk til jafnréttisfræðslu (e. train the trainers).
06.09.2016