Í byrjun júní stóðu Jafnréttisstofa og Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir málþingi um rannsóknir í jafnréttismálum við Háskólann á Akureyri. Markmiðið með málþinginu var að kynna rannsóknir í jafnréttismálum. Einnig var fundurinn hugsaður sem vettvangur til þess að ræða og kynna það sem er í gangi í þessum málaflokki.
21.06.2008
Í tengslum við EM 2008 í knattspyrnu heldur félagsmálaráðuneytið í Austurríki alþjóðlega ráðstefnu um föðurhlutverkið. Ráðstefnan er haldinn 23. júní í Vínarborg. Markmiðið með ráðstefnunni er að skoða hvernig hægt er að hvetja karlmenn til að taka virkari þátt í foreldrahlutverkinu. Ýmsir sérfræðingar voru fengnir til þess að halda erindi í þessum tilgangi. Þar á meðal má nefna Ingólf V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands og mun hann meðal annars kynna fæðingarorlof feðra á Íslandi.
21.06.2008
Ráðstefna um norræna rannsóknarverkefnið "Vændi á Norðurlöndunum" verður haldin 16. og 17. október 2008 í Stokkhólmi. Á ráðstefnunni verður reynt að svara ýmsum spurningum um útbreiðslu og birtingarmyndir vændis og mansals á Norðurlöndum. Einnig verður skoðað hvaða viðhorf fólk á Norðurlöndunum hefur til vændis, hvernig tekið er á vændi réttarfarslega séð og er einhver munur á félagslegum úrræðum á Norðurlöndunum hvað varðar vændi og mansal.
21.06.2008
Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu um stofnun alþjóðlegs jafnréttisseturs og jafnréttisskóla þann 19. júní síðastliðinn. Í alþjóðlegu samstarfi hafa Íslendingar leitast við að leggja af mörkum sérþekkingu og reynslu sem þeir hafa aflað sér, einkum á sviði sjávarútvegs og nýtingar jarðhita. Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur ítrekað lýst því yfir að undanförnu að jafnréttismálin eigi að vera þriðja stoðin í íslenskri þróunarsamvinnu og alþjóðapólitík.
21.06.2008
Í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní var boðið upp á kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Jafnréttisstofa , Minjasafnið á Akureyri og Zonta-klúbbarnir á Akureyri stóðu fyrir göngunni og þótti hún mjög fróðleg.
20.06.2008
Í dag eru liðin 93 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í tilefni dagsins er boðið upp á fjölbreytta dagskrá víða um landið.
19.06.2008
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895. Í ár eru liðin 93 ár frá því konur öðluðust kosningarétt og kjörgengi á við karla. Í tilefni dagsins verður í ár boðið upp á Kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri. Gengið verður frá Samkomuhúsinu kl.16.15 og mun Elín Antonsdóttir leiða gönguna.
16.06.2008
Rannsóknasetur vinnuréttar hefur birt upplýsingar um hlutfall kvenna í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda í 120 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi fyrir árið 2008. Helstu niðurstöður eru þær að konur skipa 13% stjórnarsæta og eru æðstu stjórnendur (forstjóri eða framkvæmdastjóri) fyrirtækja í 8% tilvika. Hlutfall kvenna meðal æðstu yfirmanna, þ.e. þeirra sem koma næstir í skipuriti á eftir æðsta stjórnanda, er 19%.
05.06.2008