Fréttir

Skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum

Jafnréttisstofa vekur athygli sveitarstjórna á ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem lúta að skyldum sveitarfélaga. Eftirfarandi ákvæði eiga sérstaklega við sveitarfélögin: • 12. gr. laganna kveður á um að skipa skuli jafnréttisnefndir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Skulu nefndirnar m.a. hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára sem leggja skal fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar. • 15. gr. laganna kveður á um að þess skuli gætt við skipan í nefndir, ráð og stjórnir að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Kynjajafnrétti á norðurslóðum

Jafnréttisstofa er þátttakandi í verkefninu Kynjajafnrétti á norðurslóðum (Gender Equality in the Arctic) ásamt utanríkisráðuneytinu og Norðurslóðanetinu. Verkefnið byggir á fyrra verkefni sem unnið var á árunum 2013-2015 og endaði með ráðstefnunni Gender Equality in the Arctic – Current Realities, Future Challenges sem haldin var á Akureyri haustið 2014. Niðurstöður þeirrar ráðstefnu er að finna hér.

Jafnrétti fyrir alla?

Í síðustu viku komu þeir Gísli Björnsson og Ragnar Smárason, verkefnastjórar við Háskóla Íslands, í heimsókn til Jafnréttisstofu til að fræðast um starfsemi stofunnar og jafnframt fræddu þeir starfsfólk Jafnréttisstofu um rannsókn sem þeir vinna að en hún snýst um aðgengi karla með þroskahömlun að jafnréttisstarfi og ber yfirskriftina Jafnrétti fyrir alla?