Fréttir

,,Konur sem ganga menntaveginn virða ekki karla”

Á Jafnréttistorgi miðvikudaginn 20. apríl kl. 12.00-12.50 flytur Dr. Marta Einarsdóttir sérfræðingur við RHA erindi sem nefnist ,,Konur sem ganga menntaveginn virða ekki karla”: Menntun og atvinnuþátttaka kvenna í Mósambík sem ógnun við kynjahlutverk.  Erindið er byggt á etnógrafískri doktorsrannsókn Dr. Mörtu Einarsdóttur, sem bjó í litlu þorpi í Mósambík, hjá einstæðri móður og fjölskyldu hennar og skoðaði þær hindranir sem sumar giftar konur urðu fyrir þegar þær hófu nám á ný á fullorðinsaldri. Fjallað er um hvernig sumir karlar túlka aukna menntun og atvinnuþátttöku kvenna sem ógnun við karlmennskuímyndina og kynhlutverk sitt sem ,,fyrirvinna” og ,,húsbóndi.” Þessi andstaða birtist á mismunandi hátt, frá úrtölum upp í andlegt og líkamlegt ofbeldi. 

Jafnrétti í sveitarfélögum

Í síðustu viku hélt Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð vel heppnað málþing um Jafnrétti í sveitarfélögum. Áhersla var á að sýna hvernig jafnrétti kynjanna getur aukið gæði þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin veita. Nú er hægt að sjá öll erindin á heimasíðu Sambandsins. 

Istanbúlsamningurinn: Hinn gullni mælikvarði á meðferð kynferðisbrotamála

Ísland var eitt af fyrstu ríkjum Evrópu til að undirrita nýjan samning Evrópuráðsins þann 11. maí 2011 um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum sem kenndur hefur verið við borgina Istanbúl þar sem hann var endanlega samþykktur Nú stendur til að ljúka  fullgildingu samningsins og innleiða hann á Íslandi. Liður í innleiðingunni er frumvarp til laga um breytingar á hegningarlögum sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Af því tilefni boða Jafnréttisstofa og Mannréttindaskrifstofa Íslands til málþings um Istanbúlsamninginn og innleiðingu hans á Íslandi. Málþingið verður haldinn þann 8.apríl kl. 13-15 í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, Reykjavík.